2 Days in Paris

Ég hef alltaf verið rosalega hrifinn af Julie Delpy. Jafnvel þegar hún leikur í slæmum myndum (An American Warewolf in Paris, takk fyrir!) tekst mér að líta framhjá veikustu hliðum hennar og neitar glampinn úr augum mínum að hverfa. Ekki get ég heldur talið skiptin þar sem ég hef ímyndað sjálfan mig í sömu sporum og Ethan Hawke og í dýrindis dúómyndunum sem þau léku saman í. Þeir sem vita ekki hvaða myndir það eru þykir mér ólíklegir aðilar til þess að sjá margt gott í 2 Days in Paris.

Það er óttaleg Richard Linklater-lykt af þessum 90 mínútum sem hér eru í boði, fyrir utan það að myndirnar hans voru ekki eins fixeraðar á gangverk sambanda heldur meira tengingu fólks, hvort sem það er á rómantísku leveli eða ekki. 2 Days in Paris er einnig töluvert svartsýnni og hefðbundnari saga heldur en það sem hún minnir mann oft á og miklu minna sjarmerandi fyrir vikið, en handritið er engu að síður persónulegt og fangar myndin léttilega þennan raunverulega anda. Þetta gerir það þægilega auðvelt að tengja sig við hana, á einn hátt eða annan. Delpy sér til þess með óðri smámunasemi að það séu engin merki um sykurhúðaða tilgerð og leggur sig alla fram með fullorðinslegri bíómynd þar sem persónur og aðstæður eru fullkomlega trúverðugar og ekta. Ég get varla lýst henni betur en að hún sé hreinskilið og skemmtilegt innlit til pars sem maður hefur áhuga á að fylgjast með.

Öll þyngd myndarinnar er lögð á handritið og samspil parsins. Delpy veit náttúrlega best hvað það er sem hún vill og setur auðvitað sig sjálfa í annað aðalhlutverkið, en annað væri óskiljanlegt þar sem hlutverkið sem hún skrifaði er brennimerkt hennar persónuleika. Hún stendur sig allavega vel, en ég get auðvitað ekki sagt annað því ég laðast mikið að henni, sama hversu taugaveiklaða týpu hún leikur. Ekki er það samt bara út af eðlilega útlitinu, heldur húmor hennar og gáfum. Sem handritshöfundur, af þessu verki að dæma, er hún nokkuð góð – þó ég geti ómögulega trúað öðru en að stór hluti af samtölunum hafi verið spunninn á staðnum. Það er erfitt að meta hana sem leikstjóra út frá einungis þessari litlu mynd. Kannski var henni aðeins ætlað að gera þessa mynd og segja það sem hún hefur að segja. Hún hittir allavega á réttu nóturnar í flestum tilfellum og val hennar á Adam Goldberg sem mótleikara er án efa snjallasta ákvörðunin hennar sem hún tók.

Persónuleikalega séð er Delpy algjörlega vafin utan um þessa mynd, en það er hins vegar Goldberg sem heldur kvikindinu á floti með henni. Karakterinn hans er meiriháttar og mikið af albestu atriðum myndarinnar koma honum við og samskiptaleysi við „útlendinganna“ í kringum hann. Saman ná smella þau Delpy saman alveg dásamlega. Kemistrían ætlast heldur ekki aðeins til þess að þau virki vel saman, heldur þarf maður algjörlega að kaupa það að þau hafi verið saman í nokkur ár. Það sem ég fíla ábyggilega mest við þessa mynd er hvernig hún stúderar samband persónanna og hvernig fortíðin gæti mögulega stíað þau í sundur. Það er mikilvægt fyrir leikaranna tvo að fá áhorfendur til þess að halda almennilega upp á parið. Hér er heldur ekkert hægt að ætlast til þess að allt endi eins og í bíómynd. Raunveruleikaspörkin sem maður fær út þessa mynd eru óhuggulega hressandi.

Myndin flæðir notalega og líður manni mest allan tímann eins og flugu á vegg hjá þessu fína pari. Það er ekki fyrr en cirka klukkutíma inn í myndina þar sem hún byrjar loksins að hegða sér eins og hefðbundin bíómynd. Handritið byrjar þá aðeins að molna í sundur, með nokkrum ansi hreint… skrítnum senum. Ég giska að svigrúmið til að spinna hafi verið takmarkaðra því nær sem endirinn dregur og sést langbest á seinustu köflunum að Delpy er ekkert sérstaklega traustur handritshöfundur. Hún veit hvaða skilaboðum hún vill koma á framfæri og er góð í að byggja upp aðstæður og móta einlægar senur en þegar kemur að því að líma allt saman verða frásagnarörðugleikar vel áberandi. Það hefði líka alveg mátt pússa endirinn betur í klippingunni þótt hann virðist vera hörkugóður á blaði.

Þetta gengur samt allt upp á endanum. Myndin segir sannleikann og hlær að honum um leið. Að vísu er óskhyggja að biðja um eitthvað sem varir of lengi í minninu. Linklater er búinn að sjá um það.

Besta senan:
Goldberg segir vafasömum manni að hypja sig… með augunum. Ég hló.

Sammála/ósammála?