2 Days in New York

Það er alltaf eitthvað svo hressandi þegar maður sér framhaldsmyndir sem eru gerðar vegna þess að einhver hafði fyrst og fremst áhuga á því að segja eitthvað nýtt í stað þess að feta í sömu fótspor og áður til þess að græða pening á litlum metnaði. Ég á að vísu erfitt með að trúa því að það hafi verið einhver brennandi eftirspurn fyrir framhaldi af 2 Days in Paris, sjálfstæðu eða ekki. Ég veit ekki betur en að sú mynd hafi fallið töluvert í gleymsku. Ég kunni samt vel að meta það sem Julie Delpy, sem leikstjóri og handritshöfundur, bjó til með henni. Samanburður við Before-perlurnar hans Richards Linklater var óhjákvæmilegur, en þetta var ánægjuleg lítil mynd sem hafði margt skemmtilegt að segja. Delpy setti stóran hluta af sjálfri sér í verkið og Adam Goldberg stal öllum atriðum sínum.

2 Days in Paris þurfti samt engan veginn á framlengingu að halda. Fyrst hélt ég hún væri upplífgandi og persónuleg saga um eðlilegt par og hvernig Delpy (sem bæði persóna myndarinnar og kvikmyndagerðarmaður) sigrar svartsýnina í sameiningu með makanum. Þetta hélt ég áður en ég frétti af þessari sjálfstæðu framhaldsmynd, vegna þess að núna fjallar sagan einungis um persónuna hennar þar sem hún er búin að skipta um maka og sigrast aftur (!) á svartsýni sinni með manninum. Goldberg er gjörsamlega látinn fara. Það er þrisvar sinnum talað um hann en aldrei kemur hann sögunni við, sem hér um bil eyðileggur fyrir mér alveg endinn (og tilganginn?) á fyrri myndinni. Delpy þrepar sig upp í þroska og virðist hafa fundið margt nýtt og persónulegt til að segja sem liggur henni á hjarta. Mér gengur þó illa með að réttlæta tilvist myndarinnar, sama hversu meinlaus eða persónuleg hún er, því allt sem gerði hina góða er alveg fjarverandi þetta skiptið.

Það er eins og Delpy hafi ákveðið að gera bíómynd til að heiðra minningu móður sinnar (sem lék aukahlutverk í fyrri myndinni) en ekki getað fengið Goldberg um borð. Kannski vissi hann betur. Kannski vildi hún bara fara í allt aðra átt (og þar af leiðandi stinga þá sem elskuðu gamla skjáparið alveg í sálina). Yfirleitt bý ég mig undir það versta þegar ég veit fyrirfram að Chris Rock leikur stórt hlutverk í bíómynd. Of mikið af honum getur gefið manni mígreniskast (það sama á hins vegar ekki alltaf við um uppistöndin hans. Þau geta verið geggjuð!). Ég var fyrirfram ekki sáttur með það að Delpy hafi skipt Goldberg út fyrir Rock en síðan kemur í ljós að hann er örugglega afslappaðasti karakterinn í allri myndinni, enda loksins farinn að haga sér eftir aldri (47 ára!?). Rock er mögulega rangur maður í sitt hlutverk, en skringilega vill samt svo til að hann er sömuleiðis bestur af öllum í myndinni. Kemistría við Delpy er þó hvergi finnanleg.

2 Days in New York er á flesta vegu slakari mynd heldur en Paris. Raunveruleikabragurinn sem var á fyrri myndinni er mest megnis horfinn og í staðinn tekur við væmin og abstrakt tilgerð. Handritið reynir að jarðsetja aðstæður og samspil en alltof margar senur eru andlega gervilegar og þær mikilvægustu eru óheppilega kjánalegar. Hörmungin byrjar um leið og erkifíflið Vincent Gallo stígur skyndilega inn í myndina,  sem hluti af einhverjum asnalegu aukasöguþræði þar sem Delpy reynir að selja honum sálina sína (grínlaust, þetta er eins absúrd og það hljómar). Hjá þeim kviknar umræða sem vill vera djúp en er bara á röngum stað og í vitlausri mynd. Delpy vill svo greinlega vera eins og Linklater þegar kemur að djúpum pælingum um stóru spurningarnar (hvað gerist t.d. ef við náum að selja einhverjum sálina okkar án þess að trúa á hana?) en í hreinskilni sagt kemur þetta allt eitthvað hálfbjánalega út í þessari mynd. Þar að auki var þessi umræða tekin mikið betur í gegn í Simpsons-þætti.

Handritslega séð er myndin svakalegt klúður. Fullt af senum stefna hvergi, sagan hefur ekki HUGMYND um hvað hún á að fjalla, aðstæður sem eiga að vera fyndnar verða oftar flatar eða neyðarlegar og lokaatriðin eru algjör skömm. Það er fúlt en auðséð að sem leikstjóri og handritshöfundur hefur Delpy farið töluvert versnandi síðan seinast. Fyrri myndin stefndi í réttu áttina með tón, samsetningu, skilaboð og flæði. Hér er eins og hana hefur langað til að gera eitthvað svipað en þá klætt upp eins og verk frá Woody Allen. Samtölin eru yfirleitt í lagi en öll handritsvinnan í kringum þau er í besta falli klaufaleg. Svo er heill aukakarakter sem er bara allt í einu látinn hverfa. Ég gæti haldið lengi áfram.

Sem leikkona er Delpy að standa sig prýðilega. Sjálfsöryggið er til staðar og fer vel um hana með öllu hinu fólkinu. Það ná allir vel saman og eru flestir fínir á sinn hátt, jafnvel þótt Delpy eigi það til að þröngva því upp á mann hvað pabbi hennar er kostulegur. Sem fyrr á hann ýmis góð atriði. Það eru t.d. nokkur sérstaklega góð (sem spegla beint sambærileg atriði úr fyrri myndinni) þar sem tungumálamismunur skapar skondinn misskilning, en eins og margt, margt annað er lítið hér að finna sem kom ekki miklu betur út í Paris.

Því meira sem ég tala um þessa mynd, því betur líkar mér við þá fyrri. Ég hef alltaf litið á 2 Days in Paris sem hefðbundnari, neikvæðari og minna sjarmerandi útgáfu af Sunrise/Sunset-myndunum, með sínum eðlilegu samtölum um lífið, sambönd, tilveruna og allan mögulegan fjanda. 2 Days in New York hefur sín augnablik og kemst hjá því að dragast á langinn eða týna áhuga manns alveg, en klárt er að Delpy hefði átt að hugsa efnið sitt betur út áður en hún kvikmyndaði það.

Besta senan:
Að sjá Dylan Baker poppa skyndilega upp og gera það sem hann gerir best (leika perra!) þótti mér nokkuð ágætt.

Sammála/ósammála?