Law Abiding Citizen

Það er rosalega erfitt að hafa gaman að mynd sem er svona vitfirrt og tekur sig svona hrikalega alvarlega um leið. Ég vonaðist eftir saklausu afþreyingargildi þegar ég settist niður til að horfa á Law Abiding Citizen enda gáfu sýnishornin til kynna að hér væri hreinræktuð afþreyingar(-stráka)mynd á ferðinni. Myndin aftur á móti klikkar á helsta markmiði sínu. Hún er skítsæmileg til áhorfs en feiluð á marga vegu. Ef nokkur leikstjóri ætlast til þess að láta svona þvílíkt langsótt handrit ganga upp þá er nauðsyn að leggja áherslu á öfluga keyrslu og viðeigandi tón. Stíllinn hérna – ásamt leikstjórn – er í líkingu við þungt réttardrama sem ætlast til mikils af áhorfendum sínum með að halda að þeir kaupi þá vitleysu sem þessi atburðarás er. Ég held nú ekki.

Ég ætla ekki að segja að það sé ómögulegt að láta svona söguþráð virka. Ef að leikstjórinn (þ.e. F. Gary Gray, sem á margar auðgleymdar vídeómyndir að baki á ferli sínum) hefði aðeins tónað niður alvarleikann og ekki alveg haft myndina svona hráa, þá hefði eitthvað lagast því myndin er óviljandi kjánaleg þegar líður að seinni helmingnum. Hins vegar þurfti handritið vel á fínpússun að halda frá upphafi því ekki bara er endirinn ófullnægjandi og söguþráðurinn absúrd, heldur vantar allt sem þarf til að gera heildina áhugaverða og spennandi.

Gerard Butler og Jamie Foxx standa sig báðir vel en persónusköpunin hjá þeim er óvönduð og heldur ábótavant. Ég er enn að átta mig á því hvort maður átti að halda með Butler eða Foxx. Handritið gefur í skyn að maður eigi að styðja Butler (með sitt „god complex“) en ég átti í miklum erfiðleikum með það um leið og hann fór að breytast úr andhetju yfir í hryðjuverkamann. Foxx er líka kynntur til leiks sem einhvers konar illmenni en síðan er stöðugt verið að segja manni annað. Það er eins og að leikstjórinn vilji að við höldum með báðum aðilunum, sem er ómögulegt þar sem að þeir eru svo sterkir andstæðingar. Það er heldur ekki eins og að handritið sé að skrifa þá tvo eins og helstu persónurnar í Heat, þar sem við skiljum hlið beggja aðilana. Hérna fannst mér hvorugur vera eitthvað athyglisverður, og það sama gildir um hverja einustu aukapersónu. Vill einhver endilega segja mér hvað Leslie Bibb var að gera út alla myndina? Hún var voða tilgangslaus að mínu mati og gerði nákvæmlega ekkert.

Ég neita því samt ekki að það eru nokkrar töff senur til staðar (mér dettur strax eina í hug þar sem GSM sími spilar stóran þátt) og þrátt fyrir söguþráð sem var bara alltof langsóttur fyrir minn smekk þá voru fyrstu 30-40 mínúturnar mátulega spennandi. Eftir það fór allt í steik. Það er einmitt svo ferlegt hvað myndin veldum sárum vonbrigðum nálægt lokum, sérstaklega eftir að Butler tautar orð eins og „I’m just getting warmed up“ og „it’s gonna be biblical!“ Það er erfitt að finna ekki fyrir lúmskri spennu þegar einhver segir svona lagað. Lokakaflinn reyndist síðan vera álíka mikilfenglegur og endirinn á The Ugly Truth.

Það er alltaf jafn leiðinlegt þegar maður vill sjá góða afþreyingu – m.a.s. heiladauða – sem á endanum nær ekki standast lágmarkskröfur. Góð afþreyingarmynd á að fá mann til að gleyma helstu göllum og bara njóta sín. Law Abiding Citizen reynir bara að vera miklu merkilegri mynd en hún er, og þegar það skín í gegn er ósköp erfitt að slökkva bara á heilanum og hafa gaman að henni. Myndin svalaði þó forvitni minni um hvað myndi gerast ef einhver myndi reyna að blanda saman Falling Down, Final Destination og Saw, nema afraksturinn er ekki nærri því jafn skemmtilegur og hann hljómar.

Besta senan:
GSM?

Sammála/ósammála?