Push

Push er einhver flóknasta mynd sem ég hef séð í mörg ár sem hefur bókstaflega engan söguþráð! Myndin gengur bara út á fólk með ofurkrafta sem sækist eftir sama hlutnum (einhver heyrt um McGuffin?) og flækjan liggur í því að upplýsingaflæðið á bakvið ofurmennina er svo ákaflega þungt og reynt er að koma öllu til skila á svo stuttum tíma að maður situr út myndina bæði með athyglisbrest og hausverk. Ímyndið ykkur að læra á skák í fyrsta sinn og þurfa að gera það á methraða. Ofurmennirnir (kýs helst ekki að kalla þetta „hetjur“) skiptast í svo marga flokka (Vaktarar, þrýstarar, hreyfarar, blæðarar, skyggnur o.fl.) að maður rembist við að muna hver gerir hvað og það verður fljótlega þreytandi.

Söguþráðurinn svokallaði er heldur ekkert ólíkur skákinni. Fólk í sitthvoru liðinu færist frá einum stað til annars og sækist eftir einhverjum/einhverju. Það hjálpar þó ræmunni að hún hreyfist á ofvirkum hraða því það er alltaf nóg að gerast. Þessi hraði rétt nær að fela einfaldleikann í söguþræðinum, en kaldhæðnin er sú að keyrslan er bæði kostur og galli. Gallinn er auðvitað sá að hraðinn drekkir upplýsingaflæðinu.

Það besta sem ég get sagt um Push (og þessi kostur er það góður að það gerir mig meira svekktan yfir hversu ferlega gölluð myndin er) er að hún er nánast fullkomlega klisjulaus! Hún er líka merkilega ófyrirsjáanleg og það eitt og sér hélt áhuga mínum. Ég fíla það líka hvernig leikstjórinn Paul McGuigan tekur margar ýktar og yfirdrifnar hugmyndir og tekst (oftast!) að losa myndina við hallærisleika. McGuigan hef ég hingað til haft virkilega gott álit á. Hann gerði m.a. Wicker Park (Ekki Wicker MAN, athugið það!), Gangster no. 1 og Lucky Number Slevin, sem eru allar gríðarlega vanmetnar. Slevin fílaði ég sérstaklega í klessu.

McGuigan fær einnig hrós fyrir afar óvenjulega notkun á kvikmyndatökunni, sérstaklega miðað við svona mynd. Það að hún skuli ekki vera skotin eins og Jumper eða X-Men-myndirnar gerir hana mjög sérstaka og það hefur áður sést að McGuigan kunni að fylla rammana með litríkum sviðsmyndum og flottu umhverfi – sem hann gerir svo sannarlega hér. Ég var m.a.s. nokkuð sáttur með leikaranna. Chris Evans var ég virkilega ánægður með í Sunshine og fannst hann koma ágætlega út hérna. Djimon Hounsou, Camilla Belle (sem m.a. lék í 10,000 B.C., þeirri þroskaheftu stórmynd) og Cliff Curtis (annar leikari úr Sunshine) fannst mér einnig koma vel út. Dakota Fanning var sú sem fór hins vegar mest í taugarnar á mér, sem er skondið, því hún var eitt sinn gæðaleikkona, þ.e.a.s. löngu fyrir kynþroskaaldur. Fanning er ekkert léleg svosem, en hún er eitthvað svo góð með sig út alla myndina og það skín svo viðbjóðslega mikið í gegn að maður vonar fljótt að einhver drepi persónu hennar. Ef þið hafið séð myndina þá vitið þið hvort að ég hafi fengið ósk mína uppfyllta eða ekki.

Það kemur líka á óvart að Push skuli ekki treysta mikið á tæknibrellur. Myndin gerir sitt besta til að halda sínum fókus á sögunni… sem er því miður bara ekkert það áhugaverð. Persónurnar voru líka nánast allar pappafígúrur og sá sem kom hvað verst út í þeirri deild var einmitt besti leikarinn, Djimon Hounsou. Hann lék bara dæmigerða „vonda kallinn“ og mér fannst ekki einu sinni vera gerð tilraun til þess að gera hann eitthvað semi-áhugaverðan.

Push er í heild sinni skemmtilega öðruvísi týpa af „ofurhetjumynd“ og hún gerir svo margt sem ég væri gjarnan til í að mæla með henni fyrir. En smám saman fór myndin að safna saman göllum yfir heildina og það kemur alveg duglega í veg fyrir að ég geti gefið myndinni eitthvað annað en tæp vídeómeðmæli.

fin

Besta senan:
Camilla plantar minningu í skósvein. Klikkuð sena.

Sammála/ósammála?