Dogma

Öll feilsporin sem Kevin Smith hefur tekið í gegnum árin hafa verið bæði frústrerandi og athyglisverð þegar maðurinn á bakvið verkin er skoðaður nánar. Að mínu mati er Dogma hans merkilegasta klúður, sem er samt erfitt að flokka sem klúður því hún gerir ótrúlega margt rétt. Að mörgu leyti er þetta „Ultimate“ Kevin Smith-bíómyndin. Kannski ekki sú persónulegasta sem hann hefur gert, en sú sem segir mest um manninn og hvernig hugur hans starfar. Sem áhorfandi fær maður þennan kostulega persónuleika beint upp í nösina og allt sem hefur einkennt ferilinn hans er hér til staðar og miklu meira; löng, hversdagsleg samtöl, ruglað persónusamspil, kaþólsk trú, Star Wars-tilvísanir, hokkí-tengingar, yfirdrifinn hasar, barnalegir klósettbrandarar og Ben Affleck með dramastæla.

Hvað frásögn varðar hefur Smith aldrei nokkurn tímann verið svona flæktur, en á góðan hátt! Sagan sem hann er að segja er argasta þvæla, en hún er þvæla að mínu skapi. Engu að síður angar framleiðslan svoleiðis af absúrd mótsögnum sem ýta undir þær blendnu tilfinningar sem ég ber til myndarinnar. Einstaklega metnaðarfullt og skemmtilegt rugl í skrifum en samt unnið af lötum leikstjóra með alltof lítið fjármagn í höndunum. Söguþráðurinn er meiriháttar, hugmyndirnar flippaðar og góðar en útfærslan svífur endalaust í kringum meðalmennskuna.

Það hefði örugglega verið ótrúlega erfitt fyrir hann, en eina leiðin til að Dogma hefði getað orðið talsvert betri væri ef Smith hefði leyft einhverjum öðrum að leikstýra sínu eigin handriti. Vissulega er efniviðurinn svo útkrotaður í Kevin Smith-hegðunarmynstrinu að það hefði verið kannski örlítið steikt(ara). En frekar hefði hann þá átt að bíða lengur með að gera þessa mynd og vinna sér fyrir henni. Traustustu leikstjórarnir bíða með eitthvað svona lagað (spyrjið bara Aronofsky, Nolan eða Tarantino – þeir voru heillengi með Fountain, Inception og Basterds á hillunni sinni). Í miðri bið hefði Smith getað gert annað uppkast að handritinu, þroskað sig aðeins upp í húmor og svo að lokum tekið upp myndina með meiri pening og annarri leikkonu í aðalhlutverkinu. Það hefði lagfært svo mikið.

Smith hefur (augljóslega?) alltaf verið sterkari penni heldur en leikstjóri og líklegast hefur það aldrei sést betur en á þessari mynd. Stundum nær hann að fela það betur með meira fjármagni en Dogma hefði svo innilega átt að vera besta myndin hans. Hún átti allavega góðan séns í að vera það. Í hvert sinn sem ég horfi á hana langar mig til að tilbiðja þessa satírusteypu sem hún er, sem er akkúrat viðeigandi þar sem ég er sjálfur trúleysingi. Það sem annars rústar spilaborginni er ófókuseraður tónn, skortur á orku í keyrslunni, fáeinir hræðilegir punktar í handritinu (sem hefði verið auðvelt að laga), ósannfærandi brellur og Linda Fiorentino, sem er alveg mökkleiðinleg í sennilega allra mikilvægasta hlutverkinu.

Ádeilan svínvirkar og myndin gengur best upp sem dökk gamanmynd frekar en einhver heiladauð fantasía með tilfinningar og prumpubrandara í huga, því það tvennt slátrar þessum skratta alveg á mörgum tímapunktum (Golgatha-skrímslið var þ.á.m. ódýr og tilgangslaus djókur). Vandaðri vinnubrögð hefðu gert tilfininningarnar sterkari og húmorinn skarpari. Það sem lífgar seinna handritið góða við er áhuginn frá leikurunum (að utanskildri Fiorentino, sem virðist ekki hafa neinn áhuga á neinu og geispar bara í gegnum alla myndina). Jason Lee og Salma Hayek eru ekkert að reyna ógurlega mikið á sig og ég gæti alveg trúað því að hægt væri að nýta betur snilling eins og George Carlin (sem varð síðar eitt af því besta við Jersey Girl).

Félagarnir Ben Affleck og Matt Damon eru æðislegir, Alan Rickman er ekkert nema stórsnilld og m.a.s. Chris Rock er óvenjufyndinn. Jason Mewes brillerar sömuleiðis sem Jay/hann sjálfur, að venju, og þegar gaur eins og hann stelur mynd eins og þessari frá reyndum uppistandara, tveimur Óskarsverðlaunahöfum og illmenninu úr Die Hard 1, þá eru menn í ansi fínum málum. Smith er einnig þrælskemmtilegur til skrauts sem klassíska hliðstæða Mewes. Hann hefði samt mátt lækka aðeins niður í hégómanum, því í flestum senum þar sem persónurnar lenda í einhverri krísu er hann alltaf maðurinn sem reddar málunum. Það er nóg af karakterum hérna, Kevin. Notaðu þá!

Dogma, svona yfir heildina, finnst mér alltaf vera samansafn af ýmsum frábærum senum og letilegum vinnubrögðum. Umhyggjuna fyrir efninu vantar ekki, en Smith hefur aldrei verið maðurinn til að svitna fyrir listina sína og tryllta hugmyndaflugið sem Dogma hefur stefnir einfaldlega miklu hærra heldur en hæfileikar leikstjórans ráða við. Hápunktarnir gera hana samt þess virði að kíkja á en persónulega finnst mér húmorinn aldrei toppa sig eftir „disclaimerinn“ í byrjuninni.

fin

Besta senan:
Killing spree-ið á skrifstofu Mooby’s. Affleck kann’etta!

Sammála/ósammála?