The Brothers Bloom

Þegar menn eins og Rian Johnson eru til í heiminum er eins gott að þeir séu að vinna við það að gera kvikmyndir. Svona menn sem sinna störfum sínum af 150% áhuga og ganga á þeim metnaði að reyna að búa til eitthvað ferskt og öðruvísi. Þetta eru kvikmyndagerðarmennirnir sem eru með bestu tegundina af þráhyggju, því þeir vanda sig og sýna hverjum einasta myndaramma áhuga svo engu sé sóað. Johnson er þessi náungi og eftir tvær myndir er alveg hægt að sjá það að hann er mikið bíónörd og sinnir sínu starfi af svakalegri ástríðu. Margir yrðu sammála mér að þetta eigi við um Brick, en ekki seinni myndina hans, The Brothers Bloom, enda er hún alveg grátlega vanmetin að mínu mati. Ekkert síðri heldur en Brick, þó kannski allt, allt öðruvísi.

Án þess að flækja þetta eitthvað ætla ég hér að nefna örsnöggt hvað þessar tvær gerólíku myndir eiga sameiginlegt, samkvæmt mínu áliti:

– Þær eru báðar ótrúlega óvenjulegar, en óneitanlega einstakar. Vel skrifaðar og snjallar. Nóg af óvæntum atriðum.
– Báðar eru þvílíkt fyndnar þegar þær ætlast til þess, en afar áhrifaríkar þegar skipt er yfir í dramagírinn (Bloom er samt meira keyrð á sjarma á meðan Brick er töluvert kaldari).
– Þær snúast báðar í kringum „outcast“ týpur. Augljóslega gefur það upp eitt eða annað um persónuleika leikstjórans en maður finnur allavega fyrir því að hann leggur heilmikið af sjálfum sér í verk sín.
– Helstu leikararnir eru allir glæsilega valdir í hlutverk sín og persónurnar eru allar hver annarri litríkari og eftirminnilegri.
– Tónlistin passar fullkomlega og maður er ekki lengi að átta sig á því hve mikil hugsun fór í kvikmyndatökuna í hverju einasta atriði.
– Í báðum tilfellum stórgræðir áhorfandinn á fleira en einu áhorfi.

Gott í bili?

The Brothers Bloom er mynd um meistara svikahrappa sem kortleggja plön sín eins og skáldsögur. Áhorfandinn getur endalaust reynt að giska hvert myndin stefnir, og stundum er það hægt, en hér er samt alltaf einhver sem veit betur en maður sjálfur, en það er út af því að Johnson er að reyna að svíkja áhorfendur sína út alla lengdina með svipuðum hætti og aðalpersónur myndarinnar. Kannski fullmikið fyrir suma en ég naut þess í botn að fljóta með rennslinu. Það er líka munur á því að svindla og leika á væntingar og það segi ég vegna þess að Johnson tekst nákvæmlega að gera það sem hann ætlar sér. Handritið spilar með mann en myndin hættir aldrei að vera lífleg, fyndin, klár, sérstök og tussuskemmtileg.

Ég get rétt varla ímyndað mér hversu gaman það er fyrir reynda leikara að taka þátt í svona fjöri. Allir fá mörg tækifæri til þess að flippa en samt er kemistrían svo krefjandi og vantar ekki þrívíðan prófíl á neinn (nema það sé partur af gríninu). Dýnamík persónanna er meiriháttar og er skemmtilegan karakter að finna við hvert horn. Bestu eru að sjálfsögðu þeir sem bera söguna uppi. Mark Ruffalo og Adrien Brody eru stórkostlegir, hvor á sinn hátt og frábærir í sameiningu. Brody er sympatískur og mjúkur á meðan Ruffalo hefur ábyggilega aldrei verið jafn elskulega hress.

Rachel Weisz gæðir einnig miklu lífi í eina af skemmtilegustu kvenpersónum undanfarinna ára í bíómyndum. Ég dýrka orkuna hennar og hversu vel henni tekst að selja þennan sérvitra karakter (innskotið með hobbíin hennar er gargandi snilld!). Svo að auki ljómar heilmikið af þeim Brody og Weisz þegar þau eru tvö ein. Rinko Kikuchi er sömuleiðis ógleymanleg sem þögull sprengjusérfræðingur sem gerir alltaf vart við sína yndislegu nærveru, en yfirleitt í bakgrunninum. Robbie Coltrane er einnig algjör snillingur í litlu en ákaflega kostulegu hlutverki sem myndin hefði aldrei getað fúnkerað án.

Frumleiki er ekki sterkasta hlið myndarinnar, sem er vissulega vandamál, en það er meira hvernig hún vinnur úr efninu sem hún hefur sem gerir hana svona æðislega. Óvissan er alltaf mikil og klisjur eru sjaldan sem aldrei að þvælast fyrir. Stíllinn er bjartur og gamaldags og offbeat tónninn hræðist það aldrei að taka áhættu með alvarleikann þegar líður að seinni hluta myndarinnar. Síðan er útlitið svo fallegt allan hringinn, á þá myndarömmunum sem og leikurunum. Kamerumaðurinn Steve Yedlin er sannur fagmaður sem á eftir að verða þekktari með komandi árum. Hann lætur ALLT líta vel út.

Ég hef séð þær fullkomnari en það breytir því alls ekki að The Brothers Bloom fellur í þann hóp að vera næstum því ein með öllu. Hún hefur húmorinn, persónurnar, hjartað, örlítið drama og týnir aldrei flæðinu né spennunni, ef hægt er að kalla þetta það. Fyrir gamansama rómantíska glæpamynd er erfitt að biðja um mikið meira.

Besta senan:
„I collect hobbies.“

Sammála/ósammála?