The Last Boy Scout

Die Hard 1 og Unbreakable eru skylduáhorf og ég hef meira að segja mjög veikan blett fyrir eðalþvælunni Hudson Hawk, en ef ég þyrfti að velja mér eina uppáhalds Bruce Willis-mynd (sem og mína uppáhalds Tony Scott-mynd), þá stendur The Last Boy Scout uppi sem stoltur og sveittur sigurvegari. Hún eldist ljómandi vel og er ennþá í dag sú buddy-mynd sem ég hef örugglega horft oftast á og mest kvótað í, en líklegt þykir mér að það sé vegna þess að hún hrærir saman ómótstæðilegustu hráefnum í litlar 100 mínútur. Til dæmis er hér boðið upp á „gamla-Tony Scott“ stílinn (sem er mun betri en þessi sem tók við eftir aldamótin), flugbeitt Shane Black-handrit, dýrindis bad cop/bad cop formúlu með hefndarsögu sem eftirbragð og drepfyndinn, svartsýnan Bruce Willis, sem mér hefur alltaf þótt miklu hressari áður en hárið fauk af honum. Engu að síður hefur hann aldrei verið jafnmikill töffari og hér. Ekki einu sinni þegar hann sleit eistun undan barnaníðingi í Sin City.

Það er lengi hægt að skemmta sér við það að lesa minnisstæðar setningar á netinu úr myndum sem Shane Black hefur skrifað. Það eru einfaldlega ekki til nógu margir handritshöfundar eins og hann og ég reyni stundum að ímynda mér raunheiminn ef samræður fólks færu fram eins og í bestu handritum hans. Ég elska hvernig töffararnir hans skiptast á hnyttnum frösum eða hvað penninn er augljóslega hundþreyttur á litlum klisjum, því oftast leiðir þetta til margra óvænta sena sem stöðugt reyna að halda athygli manns. Það tekst! Alveg sama hversu formúlubundinn sjálfur söguþráðurinn er. Ásamt Kiss Kiss Bang Bang er The Last Boy Scout snjallasta handritið sem Black hefur skrifað og þegar svona skothelt handrit sameinast við duglegan visual-leikstjóra eins og Scott, sem í þokkabót kann alltaf að fara vel með leikara, þá er klassík í vændum. Black og Scott eru fyrirtaks samstæður – og henta hvor öðrum betur að mínu mati heldur en Tarantino og Scott – og Willis er ekkert að spilla fyrir kompaníinu heldur.

Damon Wayans leynir einnig heldur betur á sér. Á sínum tíma þegar mér var bent á það að horfa á þessa mynd man ég alltaf eftir að hafa séð nafnið hans og fengið mjög óþægilega tilfinningu í magann, sem gerist nú reyndar í nærri því öllum tilfellum þegar ég sé nafnið á einhverjum úr Wayans-familíunni þegar bíómyndin ber ekki nafnið I’m Gonna Git You Sucka! Damon hafði að vísu skilið eftir extra mikið óbragð í mínum munni,  þökk sé Major Payne og Blankman (tveir sorar sem stóðu undarlega vel undir nafni). En alveg eins og þegar Darren Aronofsky tuskaði Marlon Wayans til í Requiem for a Dream virðist Tony Scott hafa góð tök á honum Damon. Hann kemur frábærlega út sem *hinn* töffari myndarinnar og saman eru þeir Willis eitt kostulegasta svarthvíta teymi sem sögur bera af í minni bók. Ég sé bara ekki hvernig er hægt að standast (one liner-)attitjúdið þeirra og í sitthvoru lagi væru sögurnar þeirra eflaust nóg til að haldast á floti í stökum bíómyndum en hér liggja leiðir þeirra saman á skrambi ánægjulegan hátt. Samspilið hjá Willis og Wayans, með handritið í huga, er það sem stigmagnar myndina frá því að vera nákvæmlega eins og 5 þúsund aðrar myndir. Í sitthvoru lagi eru þeir hörkugóðir en samleikurinn gerir ómerkilegustu formúlusenurnar margfalt betri. Willis gæti samt léttilega barið Wayans.
Just sayin’

Hasarinn er grimmur og fjörugur og andrúmsloftið gæti ekki passað betur við. Scott, eins og hann var þekktur fyrir, prufar alls konar mótíf með liti, lýsingar og reyk og dettur mér fáa í hug sem hafa unnið með þessum verkfærum eins vel og hann. Útlitslega séð er The Last Boy Scout mikið flottari heldur en margar aðrar myndir í geiranum og deyr aldrei nokkurn tímann flæðið því leikararnir eða samtölin sem þeir kasta á milli eru stöðugt skemmtileg. Það eina sem hefði djúsað upp þessa vel skrifuðu en engu að síður langsóttu formúlumynd aðeins meira hefði til dæmis verið minnisstæðara illmenni. Þegar hetjurnar eru svona svalar og subbulegar er standardinn hækkaður ansi mikið og fannst mér Black hafa alveg mátt leggja meiri orku í það að fínstilla skúrkinn. Hann er fínn en virðist koma alveg beint úr gamalli hrúgu.

The Last Boy Scout lít ég samt á sem buddy-mynd handa þeim sem eru orðnir heldur þreyttir á buddy-myndum, miklu grimmari og tuskulegri heldur en Lethal Weapon-myndirnar svo ekki sé minnst á það að lykilpersónan, hinn stálharði (en ekki tilfinningalausi) Joe Hallenbeck, lætur John McClane líta út fyrir að vera angandi ilmur af bjartsýni. Ég skal samt ljótur hundur heita ef þessi mynd er ekki ein sú fyndnasta og skemmtilegasta af sinni tegund. Allt sem hana skortir í frumleika og lógík bætir hún upp með kjafti, húmor og látum. Hún og Kiss Kiss Bang Bang mynda í sameiningu alveg ruglað gott double-feature. Það er loforð.

Besta senan:
Erfitt, erfitt val. Leymmér að brjóta þetta niður:

– Joe uppgötvar af hverju klósettsetan heima er uppi.
– Orðið „Scramble“ er notað á meinfyndnum stað.
– Joe dauðlangar í sígarettu.
– „Bom means „fuck you!“ in Polish!“
– Þyrluhreyflarnir!

Sammála/ósammála?