Herramaður, spennufíkill og frumkvöðull

Síðasta vika barði gjörsamlega vitið og kurteisistárin úr mér þann 19. ágúst þegar (Hollywood-) heimurinn missti enn einn listamanninn á brútal máta, sem sýnir það að hægt er að vera kallaður listamaður þrátt fyrir að starfa nær eingöngu í spennumyndageiranum.

Tony Scott var algjör stjarna á meðal þeirra sem þekktu til hans en svona almennt er varla hægt að segja að þetta sé nafn sem hringir samstundis bjöllu þegar meðaljóninn heyrir það (aðeins leikstjórar á kalíberi við James Cameron, Spielberg, Nolan og kannski Michael Bay hafa valdið til þess). Það er engu að síður alveg bókað að meirihluti fólks í heiminum, sem gælir við sig eitt og eitt kvöld með því að skella einni bíómynd í tækið, hefur einhvern tímann horft á mynd eftir hann. Þetta er nú maðurinn sem gerði Tom Cruise almennilega frægan og myndaði forvitnilega náið vinnusamband við Denzel Washington.

Kommon! Top Gun, Days of Thunder, The Last Boy Scout, True Romance, Crimson Tide, Enemy of the State, Man on Fire, Domino og Unstoppable, svo eitthvað sé nefnt …

Tony var yfirleitt séður sem litli, sköllótti, útlitsóheppnari bróðir leikstjórans Ridley Scott, en ómikilvægari var hann alls ekki. Samviskulega séð er manni bannað að segja eitthvað neikvætt um nýlátna listamenn en ég held að hörðustu Tony-aðdáendur myndu sjálfir viðurkenna að hann gerði alls ekki alltaf gullmola, en hins vegar þá hafði hann sterk áhrif á bransann/hasargeirann eins og við þekkjum hann í dag og þegar hann var í stuði, þá var hann í alveg rokkandi góðum gír!

Stílbrögð þessa leikstjóra kenndi kvikmyndagerðarfólki það að spennumyndir gátu litið glæsilega út, frá sjónarhorni tæknivinnslu, og að ekkert væri skammarlegt við það að fá alvöruleikara til að gæða skotheld handrit lífi. Eftir aldamótin breyttust skörpu útlitseinkenni hans í hrárri og kaótískari MTV-stíl, sem er óvenjulegt fyrir mann á sjötugsaldri og ekki hafa allir tekið vel í það, en hann hélt samt alltaf hugrekkinu og gerði það sem hann vildi.

Mun sakna þín, Tony!

Sammála/ósammála?