Man on Fire

Hefndarmyndir geta verið ótrúlega góðar fyrir sálina og þegar fundin er einhver sem skarar fram úr þá gefst ekki betri ástæða til að poppa. Í betri heimi hefði Man on Fire getað verið eins og „Raging Bull hefndarmyndanna“ eða í það minnsta reiðasta, átakanlegasta og svalasta Tony Scott-myndin frá upphafi. Stundum væri ég samt alveg til í að lifa í betri heimi. Ekki alltaf. En klárlega í þessu tilfelli. Hver veit nema myndin hefði kannski komið betur út ef hún hefði verið gerð einhvern tímann á milli 1998 og 2001? Bara svona hugdetta.

Scott var allur í tilraunum en „nýi“ stíllinn hans tók sjokkerandi U-beygju frá og með ringluðu BMW-stuttmyndinni hans, Beat the Devil (2002), þegar hann byrjaði að taka misskemmtilegar áhættur í klippiherberginu. Áður en hann náði síðar að kæla sig niður þá breyttist stíllinn í þessa dópuðu samsuðu af MTV-legu klippingarkaosi, hráum litafilterum, strobe-effektum og öskrandi textanýtingum – og hann getur farið í mínar fínustu þegar hann er annaðhvort ofnotaður í tætlur eða fylgir með mynd þar sem sagan kallar ekki alveg á hann. Þessi stíll er jafnmikill vinur minn og hann er óvinur minn þegar ég hugsa um feril leikstjórans. Til dæmis í mynd eins og Domino fannst mér stílrúnkið virka því það gaf tiltölulega óspennandi handriti sóðalegt lúkk sem var viðeigandi. En í Man on Fire finnst mér eins og áferðin sé bara þarna til að gefa myndinni „intense“ og „flashy“ stíl af engri ástæðu (nema bara til að vera stílísk) frekar en að þjóna sögunni.

Ef það er einhver sem getur mannað sig upp í það að skrifa kjaftfora hefndarsögu þar sem hvergi er farið fínt í hlutina, þá er Brian Helgeland (L.A. Confidential, Payback) alveg sá rétti í verkið. Það sem heldur öllu klabbinu á floti er þetta brennheita handrit hans, sem ilmar hreinlega af reiði, sorg og karlmannalegum pungsvita þegar byssurnar fara á loft. Tilfinningarnar ráða öllu hérna og stigmagnast kostirnir eftir að leikararnir gæða lífi í rullurnar sínar, en síðan ryðjast alltaf inn djörfu tilraunataktar leikstjórans og dempa langflestu kjaftshöggin sem áhorfendum er ætlað að fá.

Frekar en að leyfa senunum að búa til réttu áhrifin með eðlilegum tilþrifum þá reynir stílsúpan að sjá um það í staðinn, sem missir ekki aðeins marks að mínu mati heldur gerir þetta myndina töluvert meira fráhrindandi og teygða. Það hefði að vísu mátt aðeins snyrta lengdina til á handritinu, en skreytingin er samt ekki beint að hjálpa því hvað myndin verður stundum eilítið langdregin. Í fáeinum tilfellum tekst klippingunni að gera brjálaðar senur ennþá klikkaðri og villtari en svo segir athyglisbrest leikstjórans meira til sín í öðrum atriðum. Af þróun ferilsins að dæma er ljóst að hann hætti alveg að taka ritalínið sitt í kringum aldamótin.

Slow motion-föndur er notað á einkennilegum og stundum frekar asnalegum stöðum. Það er bara byrjunin. filterarnir eru eins og tóbaksklessur, hraðinn er endalaust óákveðinn og textinn fer í algjört rugl til að berja í mann upplýsingar. Í rauninni eru öll trixin notuð hér sem Scott notaði síðar í Domino, nema hér sýnist mér hann bara vera að æfa sig, gjörsamlega ómeðvitaður um það hversu pirrandi þetta verður til lengdar (a.m.k. í þessari mynd. Ég tók þetta betur í sátt í Domino) eða hvað þetta skemmir mörg góð atriði. Handritið heldur kúlinu, leikararnir líka en Scott virtist vera sá eini sem langaði í reifpartí, með að sækjast eftir fílingnum þar sem flestar senur spilast út eins og áhorfandinn sé uppdópaður og ofvirkur. Myndir eins og The Last Boy Scout eða Crimson Tide myndu hlæja að svona löguðu. Eins gott að þær voru ekki gerðar eftir árið 2001.

Denzel Washington er meira eða minna upp á sitt besta hér og nær að gíra mann nógu vel upp þannig að maður finni til með honum og haldi upp á hann og hans miskunnarlausu manndráp í seinni helmingnum, þar sem alvöru fjörið loksins byrjar (en á móti því byrjar stíllinn að skipta sér sífellt meira af). Dakota Fanning styður ótrúlega vel við hann og saman mynda þau ástæðuna af hverju bestu hlutar sögunnar ganga upp. Þeirra samband er aðallinn og það er aðeins jákvæður aukaplús þegar leikarar eins og Christopher Walken, Rahda Mitchell og Mickey Rourke sýna að þau geta tekið aukahlutverk sín alvarlega, þó myndin snúist ekkert um þau. Síðan eru aðrir í smærri hlutverkum sem skilja sitt eftir sig en eru lítið annað en uppfyllingar.

Myndin hefur annars fína tónlist og hápunktarnir virka oftast en þegar yfir heildina er litið finnst mér þetta vera of mikil klessa til að eiga skilið nánari meðmæli. Sjálfsöryggi leikstjórans mætti jafnvel mistúlka sem montni og hálfgerðan hégóma í þessu tilfelli og það þykir mér fúlt að sjá hann tækla þetta fína efni eins og leikskólabarn sem krotar fast í litabókina sína með vaxlitum án þess að halda sig innan línurnar. Er þá ekki bara jafngáfulegt að horfa á Straight Up-útgáfuna af Payback á meskalíni? Hún er allavega rúmum hálftíma styttri.

fin

Besta senan:
Bossabomban.

3 athugasemdir við “Man on Fire

  1. Tony Scott stíllinn byrjaði nú að breytast með Enemy of the State og Spy Game. Stuttmyndin var kannski „samansafn“ af stílbreytingunni en engan vegin byrjunin á henni.

  2. Þarna er ég sammála og ósammála.
    „Scott var allur í tilraunum en “nýi” stíllinn hans tók sjokkerandi U-beygju frá og með ringluðu BMW-stuttmyndinni hans, Beat the Devil (2002),“

    Þarna vísa ég í að „nýi stíllinn“ taki u-beyju (as in breytingu) frá og með þessari BMW-stuttmynd. En svokallaði „nýi Scott-stíllinn“ byrjaði alveg klárlega með Enemy of the State/eftir Crimson Tide. Þar tek ég undir, en ég er ekki að segja að sá stíll hafi byrjað með henni.

    Skiptingin er mjög áberandi þarna 98 (er það ekki rétt?) en svo fannst mér látni pioneerinn fara í algjört overdrive yfir þessa períódu (eftir Spy Game, sem sprakk síðan alveg út í Domino, sem hann síðan dróg aftur úr með Deja-Vu eða svo Taking of Pelham).

    Með umfjölluninni í heild sinni er ég að segja að Scott hefði átt að mynda þessa mynd eins og hann gerði seinna með Pelham, eða fyrr, með Enemy.

Sammála/ósammála?