Payback

Ég sá Payback í bíó árið 1999 þegar ég var fullungur til að mega sitja í salnum og var þetta í kringum tímabilið þar sem manni þótti svo ótrúlega merkilegt að sjá stranglega bannaða mynd í kvikmyndahúsi – eins og maður væri að gera eitthvað rangt af sér. Engu að síður gerðist það snemma á minni ævi að ég fór að sýna hefndarþrillerum áhuga og subbulegum harðjöxlum sem eru of svartsýnir og grimmir til að geta flokkast undir lýsingunni „góði gaurinn.“ Oft sameinast þessir tveir þættir en stundum ekki. Payback er dökk, hrá noir-hefndarmynd með meiru frá (tignarlegum) toppi til (ónýtrar) táar og í henni er aumingjaskapur hvergi ásættanlegur. Skoðun mín hefur lítið breyst á þessum 13 árum en myndin komst strax í uppáhald hjá mér vegna þess að hún gengur ekki út á neitt annað en hörku, ofbeldi, hótanir, sársauka og annars konar „attitjúd.“ Drullueinföld og alveg sama um það. Og frábær afþreying alveg í gegn.

Payback, eins og ég kynntist henni fyrst, er öruggt að kalla heppilegt slys. Þeir sem hafa áhuga á sögum á bakvið tjöldin gera sér væntanlega grein fyrir því hversu merkileg framleiðslusagan hennar er. Ég skal renna örstutt yfir hana frá byrjun, fyrir þá sem ekki vita (aðrir geta hoppað beint yfir næstu efnisgrein):

Brian Helgeland skrifaði og leikstýrði þessari mynd – sem er gerð eftir sögunni The Hunter (e. Richard Stark) og þ.a.l. óbein endurgerð á Lee Marvin-klassíkinni Point Blank – í nánu samstarfi við Mel Gibson, sem er bæði aðalleikarinn og einn af framleiðendunum. Helgeland er ekta bíólúði sem elskar hráar, reiðar ’70s spennumyndir (þessar sem voru reglulega gerðar til að endurspegla svartsýni Bandarísku þjóðarinnar á þessum tíma). Hann vildi gera djarfa, öðruvísi hefndarmynd handa afmörkuðum áhorfendahópum. Það er myndin sem þeir Gibson tóku upp og settu fyrst saman. Eftir lokaðar prufusýningar var mörgum sem fannst hún vera (kemur á óvart) aðeins of hrá, ljót og fráhrindandi. Framleiðendur að meðtöldum Gibson vildu breyta myndinni – og þá feitt! – með því að taka upp nýtt efni. Helgeland móðgaðist, neitaði þátttöku og yfirgaf myndina. Gibson greip einhvern óþekktan leikstjóra og endurmótaði nánast allan endasprettinn frá grunni og fínstillti aðra hluti hér og þar. Auka 10 tökudögum var bætt við og seinni part sögunnar var siglt í allt aðra átt. Svartsýnin tapaðist svosem aldrei úr innihaldinu, en villimennskan var aðeins tónuð niður.

Eins og milljón aðrir kvikmyndaáhugamenn hef ég mikinn áhuga á Director‘s Cut-útgáfum/samanburðum og sjaldan hef ég fundið annað eins dæmi þar sem munurinn er svona mikill, lúmskur og athyglisverður. Oft eru bíóútgáfurnar svipaðar að því leyti að heildarsagan er oftast sú sama, bara geldari og styttri. Báðar Payback-útgáfurnar eru nákvæmlega eins á marga vegu en samt yfir heildina er þetta eins og að horfa á sitthvora myndina. Fyrir utan að eiga varla neitt sameiginlegt þegar seinustu 20 mínúturnar eru eftir þá er fílingurinn allt öðruvísi, litapallettan allt önnur og skilaboðin líka.

Það er auðvelt að skilja ákvörðunina hjá Helgeland að yfirgefa framleiðsluna. Myndin sem fór í bíó mátti ekki vera eins og hann vildi (þrátt fyrir að handritið í sinni upprunalegu mynd hafi verið samþykkt af framleiðendum), en persónulega gæti ég alveg fært rök fyrir því að Gibson sé mun betri kvikmyndagerðarmaður. Í flestum tilfellum þegar svona slátrun á sér stað í eftirvinnslunni breytist niðurstaðan í gelda óreiðu, en þegar vanur (fyrrum) sjentilmaður eins og Gibson stígur inn til að hnýta saman nýju hnútanna hafa bíóáhugamenn litla ástæðu til þess að panikka. Hans útgáfa er meira að segja aðeins betri.

BÍÓÚTGÁFAN:

Porter er einn af mörgum ógleymanlegum karakterum sem Mel Gibson lék áður en hann týndi formlega vitinu og byrjaði að safna ljótu skeggi. Það kemur kannski ekkert á óvart að karakterinn hafi komið aðeins betur út í bíóútgáfunni sem Gibson sá um. Hann veit líka hvað virkar og hvað fólkið vill sjá. Mér líður stundum eins og leikarinn sé að reyna fullmikið á sig, en handritið bakkar hann alltaf upp og andrúmsloftið á myndinni er svo blákalt og óaðlaðandi að maður getur ekki annað en elskað hetjugerpið meira. Gibson reynir jú, eitthvað á sig, en hann er mergjað svalur þrátt fyrir það. Í sögu þar sem aðeins krimmar, dópistar og mellur ráða ríkjum er ekki skrítið að áhorfandinn vilji vera Porter og fylgi hverju skrefi hans alla leið.

Gibson á myndina en leikararnir eru samt allir góðir og sést að flestir njóti sín í botn við það að leika skítseiði. Hyskin eru hvort sem er svo litrík að það þýðir ekki annað en að fíla sig í rullunum. Þegar öllu er á botninn hvolft eru samt tvær ákveðnar fígúrur sem ráða úr því hvers vegna bíóútgáfan er aðeins betri: þessi sem Kris Kristofferson leikur (því það er alltaf skemmtilegra að hafa þann mann heldur en ekki) og sleggjan hans!

Payback, sama í hvorri útgáfu, svíkur ekki í hörkunni. Maður heldur nógu mikið með góða vonda karlinum (og sjálfkrafa fyrirlítur illmennin nógu sterkt) til að gloppur og aðrir handritsgallar pirri mann ekki of mikið, (aftur!) sama í hvorri útgáfu. Satt að segja kemur það mér frekar á óvart hve þétt handritið virðist vera í þessu eintaki, þó svo að sagan hafi alls ekki átt að vera sett svona saman fyrst.

Byrjunin er svalari og endirinn aðeins meira fullnægjandi. Öfgakenndu, bláu filterarnir gefa myndinni líka kaldan stíl sem hentar efninu vel en fer vissulega alveg gegn tengingunni sem leikstjórinn vildi gera við meira gamaldags myndir. „Voice over“ notkunin þykir mér annars ekki koma illa út. Skiljanlega eru hlutirnir stafaðir meira út hér en án þess að þvinga það kemst áhorfandinn kemst betur inn í hausinn á Porter og heldur upp á hann alveg frá byrjun. Helgeland var ekki hrifinn af þessari hugmynd og vildi í staðinn kynna Porter upphaflega sem óviðkunnanlegan fant í staðinn fyrir fórnarlamb. Sú aðferð er sniðug líka og svínvirkar í leikstjóraútgáfunni, en mér finnst breytingarnar flest allar vera jafngóðar ef ekki örlítið betri. Nýi endirinn lyktar miklu meira af mainstream-inu en það þarf alls ekkert endilega að vera slæmur hlutur.

Einkunnargjafir finnst mér yfirhöfuð skipta litlu máli, en mér finnst skotheld átta vera þokkalega sanngjörn.

LEIKSTJÓRAÚTGÁFAN:

Stærsta ástæðan fyrir því að þetta eintak (þ.e. svokallaða Straight Up-útgáfan) af Payback er svona frábrugðið hinu hefur allt með sögupersónuna að gera. Porter er alls ekki sami maðurinn í báðum myndunum. Prinsippin eru þau sömu en mórallinn allt öðruvísi. Það eru tvær senur sem mér finnst lýsa þessu best. Í Straight Up sést að Porter hikar ekki við það að lúberja konu(na sína) og síðan er annað atriði sem sýnir hann á svo lágu plani að hann stelur peningum af betlandi, heimilislausum manni. Hins vegar í bíóútgáfunni er þessi sýnd þessi sama sena en með breyttu sniði og í gegnum örlitla aðstoð frá döbbi er látið líta út eins og Porter sé frekar að hnupla af svindlara. Þarna er munurinn skýr og fólk getur þannig séð valið hvort það vilji frekar horfa á Porter sem klára en meingallaða hetju eða villimannslega og óttalausa andhetju. Síðan er auðvitað spurningin um hvað áhorfandanum langar að verði um hann í lokin. Örlögin eru ekki þau sömu.

Myndarammarnir eru litríkari hér. Helgeland notar grófar pallettur en litirnir eru samt mjög hlýir líka sem ýtir skemmtilega undir mannúðleikann í sögunni. Kostirnir sem gilda um fyrstu 60-70 mínúturnar áður eru svona eiginlega þeir sömu, a.m.k. hvað leikara, díalog, músík og töffaraskap varðar. Það sem virkar best við hreinræktuðu Helgeland-myndina er ’70s takturinn og raunsæið, því í lokin á bíóútgáfunni var Porter orðinn svo flinkur að þrepa sig hátt upp í valdapýramídanum að fantasíueinkenni voru næstum því farin að segja til sín, en samt svona eiginlega á góðan hátt. Málið er bara hreinlega þannig að mér finnst báðar útgáfurnar ganga upp. Önnur er meira fyrir breiðari hópa en hin er aðeins grimmari. Það eina sem almennilega hrjáir leikstjóraútgáfuna er anti-climax endirinn. Lokaskotið finnst mér næstum því bæta það upp en maður sér alveg hvers vegna ákveðið var að djúsa aðeins upp þennan lokaþriðjung. Fjarvera pyntingarsenunnar er ansi leiðinleg, enda klárlega eitt sterkasta atriðið.

Létt átta ætti að sleppa. Hvað sem það þýðir.

Besta senan:
Showdown-ið í seinni helmingnum rokkar. Það er eins í báðum útgáfum.

Sammála/ósammála?