Hotel Rwanda

Hotel Rwanda gerist árið 1994 þegar þjóðarmorð áttu sér stað í Rúanda þar sem einn þjóðflokkur er að slátra hinum (Hútúar og Tútsar) og á milli er hótelstjóri sem fær heilt lið af flóttamönnum til sín. Hótelstjórinn, sem er Hútúi, heitir Paul og sagan er öll sögð frá hans sjónarhorni. Paul er viðkunnanlegur, lágstemmdur og samviskusamur maður sem vill engum mein, en fljótlega þarf hann að takast á við vægast sagt erfiðar ákvarðanir og það gerir ástandið hvergi minna stressandi að kona hans skuli vera Tútsi. Paul þarf einhvern veginn að passa upp á sitt eigið líf sem og líf fjölskyldu sinnar og flóttamannanna sem eru hjálparvana. Friðargæsla Sameinuðu Þjóðanna er mætt á staðinn en það er takmarkað hvað hún getur gert því þeim er ekki leyft að skipta sér af þjóðarmorði og því minna sem sveitirnar geta gert til að hjálpa Paul og flóttamönnunum, því minni líkur eru á því að þau sleppi úr þessu heil á húfi.

Venjulega finnst mér óþarfi að segja frá söguþræði í grófum dráttum þegar ég fjalla um mynd en í þetta sinn þjónar það aðeins meiri tilgangi. Í dag þykir mér skepnulegt að viðurkenna það en á sínum tíma vissi ég lítið sem ekkert um þetta ástand. Kannski var ég of ungur eða kannski gerði ég bara eins og Joaquin Phoenix sagði í myndinni að við hitt fólkið í heiminum myndum gera; lesa/heyra um þetta, hugsa um það í stutta stund („guð hvað þetta er skelfilegt!“) en síðan bara hætta að pæla í því. Það er meiri sannleikur í þessum orðum heldur en í mörgum heilum bíómyndum.

Augljóslega er hér um grafalvarlegt mál að ræða og er sanngjarnt að segja að maður þyrfti að vera gerður úr steini til að verða ekki snortinn af þessu öllu. Það segir sér sjálft hvers vegna það er ansi krefjandi verkefni að búa til kvikmynd um þetta. Hefði hún misheppnast hefði afraksturinn getað orðið ansi vandræðalegur. Svona myndir eiga það til að stýra tilfinningum aðdáenda og spila með þær eins og kjötflautur. Sem betur fer er meðhöndlunin á efninu ótrúlega góð og leikstjórinn sér svo sannarlega til þess að við sem áhorfendur finnum fyrir áhrifunum án þess að það sé verið að moka ofbeldinu ofan í okkur frekar en skilaboðunum. Ég var líka mjög hissa að sjá hvernig myndin náði að vera svona sterk og átakanleg án þess að sýna mikið og ef maður skoðar ameríska aldursstimpil myndarinnar þá slapp hún með PG-13 merkið, sem er nokkuð sérstakt að mínu mati. Og aðdáunarvert.

Hotel Rwanda er samt ekki bara góð kvikmynd vegna þess að hún er sterk heldur er hún góð vegna þess að hún setur heilann í gang eftirá og sýnir hvernig manneskjan í sjálfu sér getur verið mesta skepnan í heiminum, og mannvonska eins og hér er sýnd er ekkert annað en sjokkerandi. Annars er leikur myndarinnar óaðfinnanlegur og það má í rauninni segja að hann sé eitt af því sem gerir myndina svona trúverðuga og minnisstæða, en annað væri argasta móðgun. Don Cheatle hefur alltaf sýnt að það búi einbeittur leikari í honum en hér fær maður loksins að sjá hvað maðurinn getur, og ég verð að segja að Óskarstilnefningin sem hann fékk fyrir hlutverkið var algjört lágmark.

Það má eiginlega segja að þessi mynd geri fyrir ástandið í Rúanda það sem Schindler’‘s List gerði fyrir helförina. Þessi mynd er því miður ekki alveg jafn djúp og andlega tæmandi og hún predikar kannski stundum aðeins of mikið. Samt er þetta frábært drama sem mér finnst mikilvægt að flestir ef ekki allir í heiminum gefi sér tíma í, einhvern tímann um ævina. Þetta er einn stærsti toppurinn frá 2004. Lofa því.

Besta senan:
„Bumpy“ vegurinn. Nastí!!

Sammála/ósammála?