Taken 2

Hvert fór grimmdin? Hvar er töffaraskapurinn og af hverju er Liam Neeson byrjaður að labba á milli staða í stað þess að hlaupa?

Þó Taken 2 sé vissulega tilgangslaus framlengingarmynd að öllu leyti er öruggt að segja að aðdáendur fyrri myndarinnar eigi miklu betra skilið heldur en… tja… ÞETTA! Hvað sem þetta nú er. Mér líður eins og ég hafi orðið fyrir nettu áreiti, en ekki af Neeson – því það var það sem ég vildi – heldur kvikmyndagerðarmönnunum.

Taken, eins og margir vita, breytti Neeson í granítharðan hasarkóng, eða frekar er kannski sanngjarnt að segja að leikarinn, með skotheldu túlkun sinni á fyrrum leyniþjónustumanninum Bryan Mills, hafi breytt harðsoðinni B-mynd í óvænta, bálreiða skyndiklassík. Klassík sem tryggði það að ég hefði verið glaðlega til í meira af því sama ef kostirnir væru þeir sömu. Á endanum fékk ég nákvæmlega það sem ég átti von á, sem er einmitt meira af því sama, en bara rúmum helmingi verra.

Í fyrri myndinni var Bryan Mills meira maskína heldur en maður, þ.e.a.s. þegar hann var kominn í rétta gírinn (með því að breytast semsagt í Reiða Ofurpabbann!); rústandi öllum mönnum sem stóðu í hans vegi, hér um bil áreynslulaust.  Maður fann auðveldlega fyrir reiðinni og miskunnarleysinu. Feðginatengslin og sífellt minnkandi tímaramminn í atburðarásinni setti svakalegan þunga í söguna og pollrólega fagmennskan gaf hasarnum kraftmikið rafstuð. Við erum að ræða um einhvern svalasta, harðasta og klikkaðasta gamlingja sem sögur bera af í spennuþrillerum síðustu 5-10 árin.

Seinni myndin er meira eða minna akkúrat andstæðan við fyrri myndina, eða nánar til tekið er lítið sem ekkert í henni sem vekur upp sömu sterku tilfinningar. Sú upprunalega var tiltölulega lítil, langsótt en beinskeytt spennumynd sem var greinilega gerð af fagmennsku og áhuga. Taken 2 er eingöngu unnin af græðgi; löt, asnalega samsett, óvenjulega óspennandi og þykist vera stærri og betri (enda helmingi dýrari) þegar hún virðist ekki hafa neina einustu hugmynd um hvað það var sem fékk áhorfendur til að hrífast svona af forveranum.

Að þessu sinni er lögð meiri áhersla á þvingaðar persónudrifnar senur í stað þess að sýna Neesoninn í ýkta essinu sínu, sem ég geri ráð fyrir að sé stærsta ef ekki eina ástæðan af hverju myndin vekur áhuga hjá aðdáendum til að byrja með. Söguþráðurinn og stefnurnar í honum lofa ágætu en allt er kortlagt svo klúðurslega í hræðilegu handriti með lúðalegum samræðum (og það virðist vera allt í boði hérna: frá bjánalegum exposition-útskýringum til mjúkra, ósannfærandi dramaatriða). Allt sem tengist ekki hasarsenum verður ofsalega vandræðalegt til áhorfs, sem er fúlt vegna þess að „fjörið“ fer ekki í gang fyrr en eftir rúman hálftíma eða svo. Ég sat þess vegna bara og beið eftir hasarnum, haldandi að myndin ætti eftir að skána með honum, en þá versnaði hún bara meira.

Þær gerast heldur ekki vitfirrtari heldur en þetta án þess að hafa húmor fyrir því. Taken 2 tekur sig ansi alvarlega en missir allt kúlið og þá mjög snemma. Forverinn kunni að spila með heilaselluskort sinn en þessi er bara djöfull móðgandi á heilabúið, á alla fronta. Það  er að vísu hægt að búa til dúndurskemmtilega steypu úr vondu handriti, en leikstjórinn Olivier Megaton (Transporter 3, Colombiana) er slök afleysing og á engan séns í Pierre Morel, sem stýrði hinni myndinni. Það má vera að maðurinn sé með ágætlega kúl nafn sem akkúrat hentar aksjón-myndum en greinilega er hann í vitlausu fagi. Allar þrjár myndirnar hans hafa verið fullar af hasar en engri spennu.

Megaton kann rétt svo að beina vélinni í réttu átt og stilla upp fínum áhættuatriðum en það vantar allan orkugjafa og allan púls í það sem er í gangi á skjánum. Þetta eru nógu slæmir þættir til að setja út á, en síðan fær heilinn að kenna á því endalaust út alla lengdina þegar hann reynir að fylgja röðum atburða. Hasaratriðin eru löðrandi í þreytandi tökuhristingi og skotum sem endast í kannski í tvær góðar sekúndur áður en skipt er yfir í annað sjónarhorn. Það má deila um það hvort fyrri myndin glímdi við sama vandamál, en að minnsta kosti gat maður vel greint hvað var í gangi.

Klippingin er stórt vandamál. Kannski er til önnur, grófari útgáfa af myndinni einhvers staðar en þessi sem ég sá var algjör barnamynd í samanburði við þá fyrri. Harkan er vægast sagt fjarverandi, sem er ennþá stærra vandamál. Hljóðsetningin er slök, tónlistin passar stundum ekki við og í nokkrum tilfellum eru illmenni sigruð án þess að áhorfandinn fatti hvað hafði gerst, eins og einhver gráðugur framleiðandi hafi bara sótt skærin og tekið burt hvert einasta vafasama skot. Þau fáeinu sem eftir standa eru harkalega deyfð með frústrerandi skorti á hljóðbrellum. Og á meðan tónlistin í myndinni er til umræðu þætti mér vænt um að fá að vita hvers vegna leikstjórinn ákvað að minna áhorfandann á það hvað Drive er muuun betri mynd. Það dregur mann svolítið út úr myndinni í þessu tilfelli þegar notuð er tónlist úr frægri, nýlegri kvikmynd sem er meðal annars heimsþekkt fyrir sitt einkennilega og frábæra soundtrack. Slæm ákvörðun. Hryllilega.

Neeson er heldur ekki alveg að finna sig eins og hann gerði í hlutverkinu hér áður fyrr, en leikstjórnin gæti haft eitthvað með það að gera. Hann er samt þreytulegri, í áberandi verra formi og virðist ekki alveg fíla sig lengur í hlutverkinu. Að sjálfsögðu hefði hann aldrei átt að sætta sig við þetta handrit til að byrja með. Það er sumt sem hann selur en annað ekki. Síðan, einhverra hluta vegna, er hann ekkert að flýta sér eins mikið á milli staða lengur. Það fannst mér heldur sérstakt. Eigum við ekki rétt eins bara að græja honum göngugrind og leyfa áhættuleikaranum hans að sjá um afganginn?

Aukaleikarar eiga annars ekki að skipta miklu máli í mynd sem á að snúast alfarið um einn reyndan mann, en liðsauki hans hér er engan veginn að gera sig. Það fór t.d. betur um Famke Janssen þegar hlutverk hennar gekk ekki út á annað en það að vera fýlupúki. Núna er skyndilega ætlast til þess að manni þyki vænt um hana þó svo að hlutverkið sé líflaust og skjátími – af óútskýranlegum ástæðum – í algjöru lágmarki. Maggie Grace er flott skvísa en ég held að enginn hafi beðið um það að stækka hennar hlutverk. Sem dóttirin er hún þurr og sjarmalaus karakter. Hún slapp í fyrstu myndinni, en allt er gott í hófi. Einnig verð ég hissa ef það finnst flatara bíóillmenni á öllu déskotans árinu. Rade Serbedzija, fæddur til að leika flotta skúrka, er eins grunnur, litlaus og einhæfur og þeir gerast. Það vantaði bara að tússa á ennið á honum: Ég er víst týpíski vondi kallinn!“

Best er að ímynda sér leiðinlegri útgáfu af sömu atburðarás þar sem búið er að fjarlægja næstum allt sem skiptir einhverju máli. Herra Megaton kemur inn,óboðinn og rústar öllum séns á frábærri guilty pleasure rússíbanareið. Taken 2 myndar stórt og bleksvart ský sem mun héðan í frá alltaf svífa yfir ófullkommna en öfluga forvera sínum.

Besta senan:
Þegar Bryan leiðbeinir Kim í gegnum síma.
Mjög sorglegt að standout atriðið í myndinni komi hvergi slagsmálum eða eltingarleikjum við.


*UPPFÆRT*

4/1/’13
Lengri, óklippta útgáfan gerir myndina betri um heilar 40 sekúndur eða svo (og loksins sér maður almennilega hvernig sumir drápust). Annars sama sorpið.

3 athugasemdir við “Taken 2

 1. Taken 2 : 4/10

  Hvað er Neeson eiginlega að pæla!? Hann á heima í tífalt betri myndum en þessu rusli. Þessi mynd er bara að gera grín af fyrstu myndinni…

  Vondikallin er líka algjöööööörlega ömurlegur, alveg sorglegt hversu óáhugaverður hann var (Samt var hann Rade Serbedzija alveg frábær vondikall í Snatch) Líka mjög óljóst um hvernig hann dó, Neeson og hann voru bara í hörkuslag og var hann alltíeinu bara dáinn…

  Þoldi heldur ekki hvað allir vondu útlendingarnir voru heimskir í þessari mynd, Neeson og Maggie Grace voru alltaf hundrað sinnum sneggri að fatta hlutina og framkvæma einföldustu hkuti út alla myndina…

  Þessi mynd var líka núll alvarleg meðan við fyrstu. Fannst líka einsog Neeson væri alveg sama um allt í myndinni, hann sýndi alrei alvöru áhyggur eða neitt svoleiðis þrátt fyrir að fjölskylda hanns var í lífshættu og hann var eiginlega aldrei að flýta sér eitthvað svakalega. Vantar allt brutality í þessa mynd.

  Fannst atriðið þar sem Neeson var að leiða Grace til sín mikil vonbrigði, þrátt fyrir að hann Bryan Mills er með „Special set of skills“ þá fannst mér þetta atriði aðeins of óraunverulegt og ýkt. Það sem pirraði mig samt mest var þegar Maggie Grace var hlaupandi um á húsþökum kastandi handsprengjum út um allt í þúsunda manna borg en samt voru aldrei nein viðbrögð frá almenning eða lögreglum þegar hún var að þessu.

  Verð samt að gefa þessari mynd eitt, Megaton er klárlega svalsta eftirnafn sem er til

 2. „Það sem pirraði mig samt mest var þegar Maggie Grace var hlaupandi um á húsþökum kastandi handsprengjum út um allt í þúsunda manna borg en samt voru aldrei nein viðbrögð frá almenning eða lögreglum þegar hún var að þessu.“

  Spot on! Asnaleg og stupid sena, og óviljandi fyndin þegar maður hugsar út í það að Neeson sagði við dóttur sína: „Be casual. Blend in.“

  Ég meika heldur ekki þennan bílaeltingarleik, því þarna er Maggie Grace (sem bæði er ekki með bílpróf og átti að hafa fallið þrisvar á ökuprófinu) að keyra eins og heimsins flinkasti áhættubílstjóri, brunandi um einstefnugötur í Istanbul á beinskiptum (!) kagga (yfirleitt læra Kanarnir á sjálfskipta) eins og ekkert sé auðveldara.

 3. Haha var alveg búinn að gleyma „Be casual. Blend in.“ Gerir senuna enþá lélegri. Mætti halda að þeir voru að reyna að gera þetta fyndið,

  Var ekkert búinn að pæla útí bílaeltingaleikinn… En núna eftir þessari frásögn frá þér þá fatta ég strax hversu lélegt logic er í myndinni… Takk fyrir að láta mig hata myndina enn meira haha ;)

Sammála/ósammála?