Abraham Lincoln: Vampire Hunter

Það er byrjað að fara dálítið í mann hversu alvarlegt allt þarf að vera núorðið. Þetta er samt í rauninni ekki kvörtun því ég fíla það í ræmur á sama tíma! En í dag lifum við öll í heimi þar sem Batman-myndir Christophers Nolan eru búnar að alvarlega smita meirihlutann af stórmyndum með þessum alvarleika sínum. Meira raunsæi, minna skrípó og helst ekki of mikill húmor. Þannig virðist stefnan vera þó raunsæið sé kannski nokkuð sveigjanlegt. Merki þessarar smitunnar höfðu sjaldan verið meira áberandi en í fyrra þegar mynd eins og Cowboys and Aliens steig fram. Frekar kómískur titill sem lofar brengluðu stuði en gefur þér í staðinn grafalvarlega mynd byggða á yfirdrifnum hugmyndum. Frekar fúlt, þó það hafi alls ekki komið illa út. En aftur núna finnur maður fyrir þessu sama: Í Abraham Lincoln: Vampire Hunter finnst enginn flippaður húmor í neinu öðru en heitinu á myndinni.

Ég taldi kannski þrjá góða brandara á þessum 100 mínútum, sem er örugglega minna en í þriggja tíma JFK-myndinni hans Olivers Stone. Þá er ég ekki að tala um endilega brandara sem mér fannst ótrúlega fyndnir, heldur voru þetta þrjú atvik þar sem myndin reynir að vekja upp húmor. Ég minni á það að þetta er fantasíukennd sögukennsla þar sem 16. forseti Bandaríkjanna hakkar vampírur í tvennt. Ef það segir ekki „komdu að skemmta þér!“ þá sé ég varla fyrir mér hvernig hægt hefði verið að fara í aðra átt án þess að detta í hallærisleika. Ég hef reyndar ekki lesið samnefndu bókina eftir Seth Grahame-Smith (þó ég hafi nú reyndar gluggað í önnur verk hans, eins og Pride and Prejudice and Zombies) en að sögn margra tókst henni að breyta fjarstæðukenndri hugmynd í býsna áhrifaríka sögu.

Helst vil ég ekki setja eingöngu út á ákvörðunina með tóninn, því tónninn er í sjálfu sér ekki vandamálið, heldur meira hvernig hann er bundinn utan um handrit sem ræður ekki alveg við hann. Það hefði alveg getað gengið upp að fara alfarið í alvarlegu áttina. Það er öðruvísi, pínu djarft og gefur efninu vissan „töff“ anda þegar þetta hefði auðveldlega getað orðið að slæmri paródíu í röngum höndum. Í réttum höndum hefði þessi mynd samt getað verið snilldarlega útfærð þvæla, svipað og í réttum höndum hefði alvarleikinn vel getað hentað innihaldinu. Þannig er því miður ekki raunin og liggur myndin föst þarna einhvers staðar á milli. Ég efa að það hafi verið það sem Grahame-Smith vildi.

Hugmyndin er frábær, útlitið kemur prýðilega út, aðalleikarinn er góður og stílíski hasarinn er meðhöndlaður af miklum áhuga. Lengra nær það eiginlega ekki því rússneski geðsjúklingurinn Timur Bekmambetov (köllum hann bara TimBek) er ekki alveg rétti leikstjórinn fyrir söguna (já, alveg rétt! Myndin er að reyna að segja sögu. Pælið í því). Sjónrænt séð er hann í engum vanda, fyrir utan örfá forljót brelluskot, en hann virðist bara alls ekki ná að tengja sig við neitt af því sem er í gangi. Myndin vill að við tökum persónurnar alvarlega og festumst í frásögninni en TimBek hvolfir þessu öllu þegar súrrealíski og bilaðslega langsótti bíóhasarinn tekur við. Með ofbeldinu áttar myndin sig loksins á því hversu kúl hana langar til að vera, en þetta passar bara engan veginn við. Hasarinn er nógu absúrd í fyrri helmingnum til að það sé varla hægt að afsaka hann í samanburði við þennan tón, en svo verða atriðin bara enn ýktari og fáránlegri því lengra sem á myndina líður. Þess vegna er alveg ómögulegt að taka hana alvarlega, sem er nákvæmlega ætlunin.

TimBek endurtekur sig aðeins of oft – t.d. með „slow mo“ ofnotkun – og þess vegna þreytist þessi mynd fyrr en mér þykir ásættanlegt, eða a.m.k. á flottustu stöðunum. Tilfinningarnar komast heldur aldrei til skila, sem drepur allan „kraft“ sem sóst er eftir, en ósannfærandi förðunin hjá sumum í seinni hlutanum var heldur ekki að hjálpa (átti maður VIRKILEGA að kaupa Mary Elizabeth Winstead sem… hvað? fimmtuga kellingu?!). Síðan hefur tekist að breyta skemmtilegri og sniðugri sögu í frekar flækta hrúgu. Þetta bitnar allt á flæðinu. Myndin kemur út eins og hún sé alltof teygð á sumum stöðum, þjöppuð á öðrum en almennt skortir hana fókus. Það er aldrei leiðinlegt að horfa á hana því Benjamin Walker (sem enn lítur út eins og ungur Liam Neeson) heldur henni á floti. Hugmyndin er „edgy“ og myndin nógu sérstök til að eiga ekki erindi á hauganna. Það er samt ekki skrítið að það vanti allt fjörið í bíómynd sem veit ekkert hvort hún eigi að vera kúl-fantasía eða alvörunni góð, persónudrifin afþreyingarmynd með bjagaðri sögukennslu.


Annars bjó ég til lista með eigin hugmyndum sem mér þætti vænt um að sjá kvikmyndaðar í framtíðinni:

Benjamin Franklin: Zombie Destroyer
Thomas Jefferson: Warewolf Catcher
Richard Nixon: Demon Whisperer
Bill Clinton: Snake Charmer

Og allavega ein af þessum myndum má þá helst vera fyndin. Eins og ég sé nú ekki þegar að biðja um nógu mikið…

Besta senan:
Ungi Kinsey rústar sínu fyrsta tréi. Gott sló-mó þar.

Sammála/ósammála?