Blóðhefnd

Því miður er ég ansi hræddur um að það þurfi að kveikja (sem allra fyrst) í öllum þeim kvikmyndahúsum sem ákváðu að sýna þessa „bíómynd,“ bara svona til að hreinsa andrúmsloftið, losna við eitraðar minningar og mikla skömm.

Í smástund er ég að reyna að sleppa undan því að ofhugsa það hvernig svona myndefnaklessa gat komist í almennar bíósýningar, enda búum við á litlu landi þar sem klíkuskapur og réttu tengslanetin koma manni langar leiðir. En þegar eitthvað eins illa lyktandi og þetta lætur sjá sig í eðlilegu kvikmyndahúsi – og ætlast til þess að fólk í alvörunni borgi fyrir það – þá hljóta einhverjar hótanir eða mútanir að spilast inn í málið. annað kemur ekki til greina. Meira að segja ef allir dyraverðir og handrukkarar landsins myndu sameinast til að búa til bíómynd þá efast ég ekki um að hún kæmi hundrað sinnum betur út heldur en blóðuga hefndarmyndin Blóðhefnd, sem tekur titilinn af Nei er ekkert svar! sem stærsti saurköggull sem hefur sést opinberlega á Íslandi. Mér finnst eitthvað svo súr tilhugsun að rýna í þetta drasl því venjulega sér maður ekki svona sóðaleg vinnubrögð þegar grunnskólabörn eru ekki haldandi á kamerunni.

Stundum þarf bara að sjá sumar myndir til að hægt sé að trúa því hversu glataðar þær eru, en Blóðhefnd á ekki skilið langt líf, annað en að tilheyra YouTube sem samansafn af hallærislegum klippum, þá væntanlega úr „bestu“ atriðunum. Öll myndin er eins og sjokkerandi fyndið vídeó sem maður segir félögum sínum frá með þeim tilangi að horfa á það í ölvuðu ástandi, jafnvel á Gamlárskvöldi því Skaupin verða aldrei fyndnari en þetta. Það er erfitt að vera harður á amatöra, en aðstandendur þessarar „myndar“ eiga seint skilið að vera kallaðir amatörar til að byrja með.

Blóðhefnd heldur að hún sé alvöru bíómynd. Verra en það, hún heldur að hún sé harðsoðin krimmasaga með sál og tilfinningar. Ef Íslendingar hugsa um þetta sem bíómynd þá styrkist egóið hennar, þannig að best er bara að afneita tilvist hennar ef ekki er hlegið strax framan í hana. Persónulega gæti ég ekki hugsað mér að líta á þetta sem bíómynd, en staðreyndin að hún fór í kvikmyndahús (og að ég hafi séð hana í slíku) er ekki að hjálpa mér. Ef það á að þykja sanngjarnt að kalla þetta eitthvað annað en óskhyggju og/eða krúttlega tilraun, þá er þetta með því alversta sem augun mín hafa nokkurn tímann þolað. Þegar hún kláraðist sá ég lífið í allt öðru ljósi.

Íslenska gerðin af Tommy Wiseau er allavega fundin! Nema þessi er bara ekki eins óvenjulega útlítandi og frumeintakið. Ég vil ekki hætta á það að kalla manninn sem gerði þessa mynd einhvern leikstjóra án þess að nota gæsalappir, eða svo mikið sem handritshöfund, framleiðanda eða leikara, en skuldinni er allri skellt á hann. Út frá þessu að dæma hefur hann ekkert vit á kvikmyndagerð, fyrir utan það að upptökuvél er helst nauðsynlegur gripur í verkið. Greinilega er þetta líka maður sem elskar rútínubundnar og ofbeldisfullar hefndarmyndir og hefur sameinað vini sína, sem skilja ekkert hvað leiklist er, til að apa eftir slíkri, þykjast um leið búa til alvöru sögu með fullt, fullt af ofur-hallærislegu/þykjustunni-töff ofbeldi. Vandræðalegra verður það varla síðan en þegar „leikararnir“ taka þátt í einhverju sem á að kallast drama.

Að rýna of djúpt í þetta er gagnslaust því myndin er eins og sjálfs-paródía af bestu gerð. Það gerist ekkert meira ósannfærandi heldur en þetta ef þetta, sama hvort litið er á þetta sem tilraun eða „spennumynd.“ Maður hefur séð fjöldann allan af hrútlélegum og leiðinlegum senum í íslensku efni, en ég veit ekki hvað á að kalla þessa myndefnahrúgu sem Blóðhefnd þykist vera en allavega ekki var náð að selja manni þetta sem tilfinningarík atriði, eða atriði yfir höfuð.

Ekkert gengur upp í þessu. Ekki neitt! En það þarf svosem ekki nema að sjá drepfyndna trailerinn eða heyra titilinn nefndan til að fatta það fyrirfram. Að megnu til á þetta erindi í „svo-slæmt-að-það-verður-gott“ flokkinn, því greinilega er hægt að hlæja úr sér hlandið yfir þessari mynd, en eingöngu á þeim stöðum þar sem maður nær kjálkanum aftur upp eftir þau atriði sem eru svo glötuð og áttvillt að hálfa væri haugur. Fyndnasta atriðið í myndinni er samt þegar aðalpersónan er stödd ásamt öðrum í jarðaförum. Lítill hópur fólks stalst þar  til þess að mynda í kirkjugarði einn daginn til þess að horfa niður og setja upp sorgarsvipi (því budget-ið hafði augljóslega ekki efni á líkkistu!), en það sem gerir atriðið fyndið er að hver eftir öðrum gengur upp að „leikstjóranum“ og segir við hann: „Ég samhryggist,“ oft og mörgum sinnum. Með þessum sannleiksorðum er ljóst að öll myndin er í rauninni óviljandi að gagnrýna sig sjálfa. Svo sýndist mér glytta í innrammað plakat af myndinni Plan Nine From Outer Space á einhverjum tímapunkti. Án djóks, hversu fyndið er það?!

Gef henni einn Ladda af tíu í einkunn.

Kannski 6/10 fyrir afþreyingargildi (+ ef ég væri fullur)


Besta senan:

Þær eru nokkrar, en eftirminnilegust fannst mér vera dýrmæt nýting á Wilhelm Scream-inu.
PS. Ef það kemur ekki önnur grein frá mér á komandi vikum þá hef ég ábyggilega verið laminn í klessu af aðstandendum myndarinnar.

4 athugasemdir við “Blóðhefnd

  1. Þessi rýni þín hafði andstæð áhrif á mig, Tommi ven. Nú ÞARF ég að sjá þessa veislu.

  2. Já, er þaggi? Það verður fróðlegt að sjá hvort aðsóknartölur helgarinnar næstu líti eitthvað öðruvísi út en þegar myndin opnaði. Kannski verður þetta nýja word-of-mouth sensation-ið á Íslandi, á eftir Intouchables.

Sammála/ósammála?