Casino Royale (2006)

Sorrý Sean Connery, þú ert í miklu uppáhaldi hjá mér en Daniel Craig er búinn að sigra þig eftir eina lotu, ef ekki tvær! Ástæðan er kannski sú að það eru fleiri stillingar á honum. Hann púllar það að vera þögulli maðurinn með stútinn á vörum en hann getur líka slegist, drepið, hlaupið og notið sólskynsásta með bangsalegri mýkt án þess að maður eigi erfitt með að trúa því sem maður sér. Allir Bond-leikararnir hafa sýna kosti og galla. Craig, hins vegar, er ekkert nema ílát af kostum. Hann er beinskeyttur, grjótharður, fyndinn, sæmilega egótískur og kann að halda heilli mynd uppi án þess að tapa sjarmanum. Að sjá Craig taka við svona stuttu eftir Pierce Brosnan fær mann til að átta sig betur á því hvað almennilega vantaði hjá þeim manni. En Brosnan til varnar þá fékk hann ekki mjög góðar myndir í hendurnar.

From Russia With Love og Casino Royale eru tvær bestu Bond-myndirnar, hiklaust, þegar þessi texti er ritaður. Þær eiga það sameiginlegt að sýna hvað getur komið út úr því þegar hasar vefst utan um sterkan söguþráð og tilfinningar ekki gjörsamlega týndar. Með öðrum orðum eru þetta bestu dæmin um hvernig á að nota Bond-hráefnin rétt, hvort sem farið er eftir uppskriftinni eða ekki*. Önnur myndanna er eðaltraust klassík en hin alveg fyrirmyndar endurræsing á merki eins og þessu, enda var ekki hægt annað en að tóna niður aulaskapinn eftir Die Another Day. Það eitt að tóna niður hefði verið góð ákvörðun, en að henda burt þessu gamla og koma með eitthvað nýtt og innihaldsríkara í staðinn var snilldarákvörðun.

Ári eftir að Batman fékk últra-jarðbundna endurræsingu fengu nýju kynslóðirnar af Bond-aðdáendum loksins að finna fyrir því hvernig væri að upplifa gamla Bondinn eins og miklu eldri kynslóðirnar þekktu hann, en með tröllaskammti af nútímalegri hörku og loksins alvöru, tilþrifaríkum leikara í aðalhlutverkinu. Casino Royale markar þess vegna ekki bara nýtt upphaf, heldur hrærir hún í hefðinni með réttum hætti og á besta tíma. Ég, eins og ýmsir aðrir, var reiðubúinn til að segja endanlega bless við þennan njósnara eftir síðustu mynd. Mér var farið að langa í karakter, ekki uppstækkaða bóner-fantasíu um karlmanninn sem flestum gaurum dreymir um að vera. Ég var orðinn þreyttur á reglunum, formúlunni, absúrdleikanum, auglýsingunum, græjuæðinu og stúdíó-bragðinu.

Það sem að gerir þessa mynd svo asskoti vel heppnaða er að hún er aðeins minna mainstream heldur en meirihluti Bond-myndanna hafa verið, sem gerir hana meira í takt við Ian Fleming-bækurnar, enda byggð á allra fyrstu skáldsögunni. Lögð er sterk áhersla á persónuþróun, söguþráð og framvindu. Uppbygging myndarinnar er líka allt öðruvísi og óhefðbundin á allan máta fyrir Bond-mynd. Það veldur því samt sem áður að atburðarás myndarinnar heldur manni föstum í sætinu út alla lengdina. Myndin er líka ætluð allt öðrum hópum heldur en t.d. Brosnan-myndirnar sem á undan henni komu. Hér eru engar tilgangslausar sprengjur, engar ofurhentugar tæknigræjur (þó svo að þær séu að vissu leyti einkennandi fyrir seríuna) og að sjálfsögðu ekki þunnt, auðútreiknanlegt plott sem að hoppar frá einum yfirdrifnum hasar til þess næsta.

Casino Royale er eins raunsæ og hægt er að gera kvikmynd um njósnara hennar hátignar. Engin heimsyfirráð, bara hryðjuverk. Þessi mynd er líka almennt vel skrifuð og ég man ekki hvenær slíkur kostur tíðkaðist í Bond-mynd, enda hafa handritaskrifin verið frekar ábótavant og talsvert „basic“ í mörg, MÖRG ár. Söguhetjan okkar er heldur ekki lengur ferlega ýktur martini-drekkandi dólgur með (mis)fyndna frasa, flottar byssur og heilmikla ævintýraþrá. Í fyrsta sinn í mjög langan tíma fáum við að sjá trúverðugu, mannlegu hliðina af James Bond, sem er augljóslega sterkari hliðin. Maður heldur meira upp á hann þegar að maður sér að hann er alvöru manneskja en ekki standard bíófígúra.

Ég er raunverulega sáttur við allt það sem að Daniel Craig gerir við persónuna. Hann gaf mér alvöru ástæðu til þess að fíla karakterinn í tætlur á ný. Hann stendur sig vel í hlutverkinu á öllum mögulegu sviðum og það geislar hreinlega af honum kúlið í hverri einustu senu. Craig er vitaskuld ekki sá eini sem að skreytir myndina með höfðingjalegu nærveru sinni. Eva Green leikur eftirminnilega Bond-gellu með mikinn persónuleika, sem er sjaldséð en dásamlegt, og samleikur hennar við Craig kveikir nánast í skjánum. Ég vildi að ég gæti sagt það sama um Caterinu Murino, en útlit hennar er það eina sem skilur eitthvað eftir sig. Judi Dench er annars ómetanleg, að venju, og Jeffrey Wright gerir sæmilega mikið úr litlu. Mads Mikkelsen rúllar sínu alveg upp og kemst maður varla hjá því að horfa fast á kvikindið sem hann leikur. Hann er manneskjulegur á alla vegu, þó fýlupúki sé, lítur út eins og staðalímynd en er örlítið (en varla mikið) flóknari en Bond-illmennin eru vanalega. Ég er líka sérstaklega ánægður með það hvernig handritið „afgreiðir“ hann, en þaðan í frá eru Bond-reglurnar brotnar hægri og vinstri. Handritið er nokkuð sérhæft í því að brjóta þær, en um leið virðir það klassíska Fleming Bondinn enn meira.

Strúktúrinn finnst mér mest einkenna alla myndina og ekki síst aðskilja hana frá föstu formúlunni. Yfirleitt stigmagnast hasarinn því lengra sem á líður en í þessari mynd er það eiginlega öfugt. Í svarthvíta upphafsatriðinu er alvarlegi (en stundum kómíski), glerharði tónninn settur. Svo býður fyrri helmingurinn upp á magnaða eltingarleiki sem verða síðar aldrei toppaðir í stærð eða lengd. Svo hallar myndin sér aftur út allt miðbikið til að leyfa lágstemmdu spennunni að njóta sín í Póker-móti, sem söguþráðurinn snýst aðallega í kringum. Það er hægt að færa rök fyrir því að eyddur sé alltof mikill tími í spilin, en ég sat aldrei annað en límdur.

Það veldur að vísu örlitlum vonbrigðum þegar seinasti þriðjungurinn er eftir að þá ákveður myndin að slappa töluvert meira af en hún gerði í miðkaflanum, í stað þess að skipta yfir í hærri gír, en þá tekur persónusköpunin betur við en hasarfíkillinn verður vissulega órólegri. Svo tekur stóri hasarinn aftur við í lokin, en hann varir heldur stutt vegna þess að persónurnar eru fókusinn, ekki skothríðirnar. Það tekur smátíma að venjast þessu, aðallega í ljósi þess að mín kynslóð er alls ekki vön öðru en kúlnahríðum og sprengingum frá þessum karakter í bíói, en myndina þarf að meðtaka sem endurholdgun, og ég naut þessarar uppbyggingar í botn, jafnvel meira svo í öðru áhorfi. Og miðað við nútíma Bond-mynd er hún meistaralega djörf í öllum þessum ákvörðunum.

Tæknivinnsla myndarinnar skilar sínu ótrúlega vel. Kvikmyndatakan er snyrtileg en einnig hrá og gætir hún þess ávallt að drekka í sig fegurðina sem tilheyrir tökustöðunum. Stíllinn er líka það ferskur að maður nær loks að finna fyrir einhverju nýju. Meira að segja litlir hlutir eins og nýja intro-ið með titillaginu hafði gerólíkan en brjálæðislega flottan stíl við sig. T.d. er engin draumakennd orgía af skotvopnum og semí-nöktum konum, heldur bara stílísk grafík með spilastokkum og drápum, sem lýsir umfjöllunarefni myndarinnar vel í hnotskurn. Fíla líka hvernig score-ið speglar oft Chris Cornell-lagið, eða öfugt.

Martin Campbell hefur sjaldan vandað sig eins vel í leikstjórasætinu að mínu mati. Ég hef athugasemdir um flæðið en myndin hittir aldrei á dauða eða drepleiðinlega senu og hasarinn er líka stórskemmtilegur (eltingarleikurinn í Madagaskar stendur þó hiklaust upp úr). Campbell hefur samt alltaf verið öruggur í þeirri deild. Hasarinn í fyrri Bond-myndinni hans, Goldeneye, sýndi hversu stórt hann hugsar og svo betrumbætti hann sig enn meira með The Mask of Zorro stuttu síðar. Aldrei hefur hann sett saman svona senur frá grunni í klippiherberginu. Hann leikur sér með myndavélina og nær alltaf athygli manns með góðu flæði, í hröðum og hægum atriðum. Campbell hefur aldrei gert betri hasarsenur en í Casino og það gerist heldur ekki oft að svona gáfað og dúndrandi fínt handrit kemur nafninu hans við. Svo er náttúrulega spurning hvort sanngjarnt sé að kalla pókersenurnar „hasarsenur.“ Aksjón fyrir jakkafataklædda herramenn kannski? Betri spilasenur hafa a.m.k. ekki sést síðan í Rounders.

Stundum er ekkert nema töff að vera öðruvísi, nútímalegur en samt pínu retró í stað þess að elta hjörðina endalaust. Casino Royale hreinsar einnig allar þær súrrealísku minningar sem maður fékk eftir misheppnuðu „frumgerðina“ frá 1967 (já, þessi með Peter Sellers, Woody Allen og Ursulu Andress, kaldhæðnislega) og héðan í frá verður aðeins ein marktæk mynd sem heitir þessu nafni. Þetta er ein af bestu myndum ársins 2006, sem að mínu mati segir helling því það var ruddalega gott kvikmyndaár. Bond hefur sjaldan verið betri, mannlegri, fyndnari, trúverðugri og harðari. Myndin hefur stálharðar hreðjar, gott adrenalín-kikk en opið og pínu væmið hjarta á sama tíma. Loksins er manni ekki skítsama um allt og alla og það er ekki slæmur díll þegar bíómynd tekst að vera bæði hasarmynd og spæjaradrama. Sjáum hversu lengi raunsæið helst út áður en næsta þróun tekur við í seríunni.

Svo er músíkvídeóið fínt. Ágætt lag og ágætt vídeó með fersku og skemmtilegu concepti.
Gunnbarrel skotið (pun intended) er mergjað!

Besta senan:
2. Eltingarleikur við Parkour-snilling
1. Pyntingin

*Það eru mörgum sem finnst On Her Majesty’s Secret Service eiga heima í hópi bestu Bond-myndanna. Mig langar að geta tekið undir það, því sagan er góð og endirinn magnaður, en ég get því miður bara ekki George Lazenby. Finnst alltaf eitthvað vera svo „off“ við hann.

Sammála/ósammála?