Quantum of Solace

Sennilega fyrsta Bond-myndin sem virkar mun síður sem sjálfstæð eining. Myndin erfir ýmsar upplýsingar sem forveri hennar skildi eftir, og m.a.s. eru myndirnar svo tengdar að þessi hefði rétt eins getað borið titilinn Casino Royale: Part II, sem er akkúrat það sem ég hef alltaf kallað hana. En til að ná að fylgja söguþræðinum á réttum hraða er eiginlega skylda að hafa séð forverann, og í þessari seríu hefur slíkt aldrei komið upp á áður (ein mynd komst nálægt því en fór svo allt aðra leið).

Margir þola einfaldlega ekki þessa Bond-mynd. Ég skil það svosem, en samt ekki. Hún fer ekki eftir standard Bond-mynda reglunum, sem sama má auðvitað segja um Casino, nema þessi nær bara ekki að afsaka sig jafn vel því hún er ekki eins tignarleg, manneskjuleg eða vel skrifuð. Þolinmóða flæðið er algjörlega farið, sem útilokar beint möguleikann á djúpri persónusköpun vegna þess að hér er e.t.v. búið að þrefalda hasarmagnið úr Casino, sem verður að segjast vera býsna magnað í ljósi þess að Quantum of Solace er heilum hálftíma styttri!

Ef Casino var herramannslegur óður til Fleming-andans og gömlu spæjaramyndanna í raunsærri kantinum þá er Quantum að reyna að vera í líkingu við The Bourne Supremacy og The Bourne Ultimatum, þ.e.a.s. ef þær yrðu klesstar saman í eina mynd! Hún vill bæði vera svona snjöll og plottdrifin eins og Supremacy en líka að hún flæði frá A-Ö eins og Ultimatum, eða kannski hlaupi og hoppi réttara sagt (hún er að auki skotin af sama second-unit gæjanum sem vann með Paul Greengrass). Því miður vill hún líka vera talsvert óraunsærri heldur en forveri sinn, sem er frekar fúlt. En svo stráir maður aðeins yfir þetta yfirdrifna „afrit“ alls konar bíótilvísanir, bæði töff (The Man Who Too Much) og tilgangslausar (Goldfinger), sem gefur til kynna að myndin er unnin af leikstjóra sem elskar kvikmyndir. Ég meina, Bond-mynd frá sama manni og gerði Monster’s Ball, Stranger Than Fiction og The Kite Runner? Mér finnst það alls ekki hljóma illa, enda fíla ég Quantum bara nokkuð vel.

Bond-aðdáendur eru sérstakt fólk, því maður finnur sjaldan tvo svipaða. Sumir dýrka eingöngu Fleming-Bondinn og fyrirlíta fantasíuhetjuna, svo eru aðrir sem hata að horfa á of gamlar myndir og telja Pierce Brosnan vera besta og eina njósnarann (já, þetta fólk er til!). Bond-unnendur voru samt almennt fyrir vonbrigðum með Quantum, hvort sem hún hafi verið of alltof Bourne-leg/Ó-Bond-leg, alltof hröð eða bara hreinlega leiðinleg og óspennandi. Að mínu mati eru þetta allt gildir punktar og ég skil rökin vel. Það er ekki skrítið að Bond-myndin sem fylgir strax á Casino sé aðeins eða töluvert síðri, miðað við hversu góð hún er.

Ég segi skítt með þessar Bond-reglur. Margar þeirra eru að sjálfsögðu velkomnar en eftir fleiri en 20 myndir er alveg leyfilegt að breyta forminu af og til. Quantum er að mínu mati mjög sérstakt eintak í þessari seríu. Það er eins og ótrúlega djúpt og gott handrit hafi lent í lent í því að týna fullt af blaðsíðum en því er bætt upp með leikstjórnarstíl sem minnir skuggalega mikið á eitthvað sem maður hefði séð frá Luc Besson/Pierre Morel eða að sjálfsögðu Greengrass (bara miklu ýktara). Hraðinn, fyrir utan mislangar pásur, er ótrúlega grimmur, hér um bil stanslaus! Daniel Craig er breyttur, skyndilega orðinn að sjúklega reiðri en snjallri hefndarmaskínu og býður keyrslan þá ekkert upp á annað en rakettuhraða með plott-pásum (pissupásum, öllu heldur). Mér finnst einmitt ansi töff hvernig Bond-mynd þorir að losa sig við standard uppskriftina og fara í allt, allt aðra átt, og þegar sú átt er lengra í burtu frá Ian Fleming-formúlunni þá er framleiðslan ennþá djarfari.

Á internetinu voru margir sem hræktu á nafn Marcs Forster eins og hann hafði skemmt eitthvað dýrmætt. Fólk sem hatar þessa mynd þarf aðeins að róa sig. Leikstjórinn má reyndar eiga það að vera ekkert ofboðslega góður í hasarnum. Hann gerir þau skömmustulegu mistök að klippa stundum of hratt og hrista rammanna aðeins of mikið. Ekki alltaf, og bara aðeins. Ég hef séð marga standa sig miklu verr með svona Greengrass-wannabe senur og þykir mér reiðin, hraðinn og úthaldið á myndinni skáka ókostina á endanum, því að minnsta kosti sá ég oftar en ekki hvað var að gerast (nema alveg í upphafsatriðinu, sem hefði getað orðið magnað (!) með aðeins stabílli töku). Það má samt ekki láta fínt en undarlega óspennandi handrit og (mis)böggandi klippingu skyggja fullmikið á það sem Forster gerir rétt. Í Quantum eru margar frábærar senur (t.d. óperan, mest allt á milli M og Bond, líkið og ruslagámurinn o.fl.) og spretthlaupið á fyrsta hálftímanum keyrir mann alveg út, en á góðan hátt, eins og Daniel Craig hafi í alvörunni stundað sæmilega djúsí mök við áhorfendur sína. Úthaldið er aldeilis aðdáunarvert hjá kappanum.

Þegar hraðinn byrjar að valhoppa mikið yfir heldur þurran söguþráð vekur það upp spurninguna hvort aukin lengd hefði gert myndina betri eða ekki. Allavega hefði örlítil yfirferð á handritið, með tillit til persónusköpunar, getað gert þetta tvöfalt betra. Þetta er nú framlenging af Bond-mynd þar sem manni var hvergi sama. Skyndilega eru tilfinningarnar farnar að kólna niður, en það er eflaust ætlunin. Myndina skortir samt ákveðinn fókus. Persónurnar eru allar dálítið þunnar, og þá sérstaklega hetjan okkar, sem nær aldrei beinu sambandi við áhorfandann. Bond er mestmegnis laus við sjarma og húmor í þessari lotu og það er hugsanlega stærsta kvörtun mín. Hasarinn er líka stundum – en sem betur fer ekki oft – dregin upp úr þurru, án þess að vefjast eitthvað sérstaklega utan um plottið, eins og hann á að gera. Þetta hljómar kannski eins og ósanngjörn gagnrýni gagnvart Bond mynd, en samanburður við fyrri myndina er óhjákvæmalegur, og það verður að segjast að sú mynd tókst alveg frábærlega að jafna góðan hasar við persónusamskipti án þess að missa dampinn. En nýtingin á látunum var hvort eð er sparlegri.

Þessi mynd reynir ekkert að toppa hina myndina, og þarf þess heldur ekkert. En þar sem um er að ræða beint framhald hefði verið örlítið skemmtilegra að sjá aðeins meira á bakvið sjálfan Bond heldur en bara reiðan töffara. Ég tek það fram að það er alveg dásemd að horfa á Craig í rullunni. Mér finnst hann frábær Bond, klárlega sá besti, og þessi mynd er engin undantekning, en ofannefndir gallar takmarka hversu margt hann getur gert með hlutverkið í þetta sinn. Franski gæðaleikarinn Mathieu Almaric (sjáið The Diving Bell and the Butterfly, skylduáhorf!) kemur sjálfur sæmilega út (augun í honum hræða mig!) en í frekar illa skrifuðu hlutverki. Olga Kurylenko, sem hefur batnað töluvert í leikhæfileikum síðan Hitman, er brennheit og passleg á meðan Gemma Arterton er einhver vannýttasta (auka) Bond-gella sögunnar og gerir akkúrat ekkert spennandi með sitt hlutverk, nema jú, fella eitt illmenni í tröppum.

Myndin er farin að þreytast í kringum climax-senurnar, kannski því mér var orðið skítsama um plottið og hefndarsaga Olgu skilaði sér aldrei á neitt sérstaklega fullnægjandi máta. En engu að síður er þetta skotheld afþreying og e.t.v. á meðal skemmtilegri Bond-mynda sem ég get munað eftir (en maður getur nefnt mjög margar sem voru aldrei neitt sérstakar). Hún virkar samt betur ef viðkomandi skellir henni saman við Casino Royale og lítur á myndirnar tvær sem eina heild. Fantagott double-feature. Hvet alla til þess að prufa það.

thessi
Músíkvídeóið var annars meiriháttar. Lagið skítsæmilegt en vídeóið geggjað!
Gunbarrel-ramminn í lokin kom heldur kjánalega út í lokin þó. Hann er eitthvað svo… flýttur! Er bráðnauðsynlegt fyrir Bond að strunsa í gegnum bókstaflega ALLA myndina??

Besta senan:
Myndin breytist úr bíómynd í „kvikmynd“ í óperusenunni. Ekki hasarsena, heldur þýðingarmikil ofbeldissena.

PS.
Eitt sem ég fíla SÉRSTAKLEGA við Craig-myndirnar tvær er…
.
.

(spoiler!!)

.

.

.

.

.

.

.

… að hann endar ekki með neinni gellu í lokin, í hvorugum tilfellum. Stórkostleg tilbreyting. Lokasenurnar í gömlu myndunum voru ekkert alltaf rosalega fjölbreyttar, augljóslega.

Sammála/ósammála?