Frankenweenie

Ekki er ég mikill sérfræðingur um lykt eða dauða hunda, en ég myndi halda að rakki sem er búinn að liggja steindauður ofan í jörðu og síðan grafinn upp og grillaður með rafstraumi myndi gefa frá sér ansi óvenjulegan fnyk, sem væntanlega enginn heilbrigður einstaklingur gæti hunsað. Maður á auðvitað ekki að hugsa um svona hluti í „barnamyndum,“ en stundum fer hugurinn að reika þegar efnið er ekki alveg að dáleiða mann.

Tim Burton á góðum degi getur gert ágætis hluti fyrir sálina hjá bíóunnandanum. Bestu myndirnar hans eru annaðhvort þessar sem mest ljómuðu af fallega, ljóta, abstrakt og einangraða persónuleikanum hans (Edward Scissorhands, Batman Returns) eða þessar sem elskuðu hundgamalt og yfirdrifið skepnubíó (Ed Wood, Mars Attacks). Frankenweenie er eiginlega blanda af hvoru tveggja. Þetta er persónulegasta mynd leikstjórans í meira en tvo áratugi sem fagnar klassískum hrollvekjum með bæði sögunni og allri áferðinni. Svarthvít stop-motion mynd sem byggð er á 28 ára gamalli stuttmynd (sem tekur persónulegan snúning á Frankenstein-söguna). Stuttmynd sem var gerð þegar Burton var bara rétt að byrja. Þetta ætti eiginlega að vera ein af hans bestu myndum, en eitthvað sat ég ósnortinn og frústreraður eftir þessar 90 mínútur.

Þó mistækur sé þá líkar mér oft vel við Burton, en ef það er of stór skammtur af honum (í mynd sem er ekki að virka) þá fer maður að grátbiðja um eitthvað sem kemur nafninu hans hvergi við. Ef það er hægt að fá of mikið af því góða þá er klárlega hægt að fá of mikið af Burton í einu. Þannig leið mér eftir Frankenweenie. Fyrir utan það að vera ekkert sérstaklega áhrifarík þá er hún er allt, alltof mikil „Tim Burton-mynd“ fyrir minn smekk, þá fyrst og fremst vegna þess að leikstjórinn reynir svo grimmt að gefa aðdáendum sínum „gömlu“ útgáfuna af sjálfum sér. Myndin er allavega morandi í þessu sem hann er búinn að pressa upp að manni í öll þessi ár; þessum klassíska/týpíska „Burtonisma“ sem blinda fólkið er farið að geta spottað, líklega því það heyrist alltaf á Danny Elfman-músíkinni.

Frankenweenie er lítið fyndin, lítið heillandi og teygir nokkuð vel á sínum þrælfína lopa. Stuttmyndin var ekki nema 30 mínútur, sem var reyndar passlega fín lengd fyrir þá litlu sögu sem var verið að segja, en uppfyllingin í kvikmyndaútgáfunni er gegnsæ og alls ekki að styrkja söguna heldur bara framlengja hana að óþörfu. Þetta á að vera hjartahlý en skrítin saga um dreng og heittelskaða hundinn hans, en til þess að myndin hafi einhvers konar kvikmyndastrúktúr breytir hún öllum seinni helmingnum í óspennandi skrímslasögu. Stefnan gegnir engu öðru hlutverki en að minna Burton-aðdáendur á það hversu mikið hann elskar gamlar bíómyndir. Skrímslafókusinn hefði svosem alveg getað skilað einhverjum Super 8 fíling ef Burton hefði einblínt meira á persónusköpun eða kannski stuttmyndagerðina og horror-áhugann hjá aðalpersónunni (því augljóslega kemur mikill persónulegur innblástur þaðan), en frekar er rétt svo skimað yfir slíkt til að keyra lykilsöguna fyrr í gang. Markmiðin eru einföld, en svona grunn saga verður þá bara fyrr bensínlaus ef það vantar meira kjöt í fyrri helmingnum.

Þar sem þetta er Burton-mynd er útlitið algjörlega í aðalhlutverki, og vegna þess að þetta er Burton-mynd er sjálfsagður hlutur að myndin líti vel út. Myndin getur einmitt oft verið mjög grípandi á augað. Öll hönnunin er náttúrulega bara þessi týpíska Burton-æla, sem hittir eflaust í mark hjá dyggustu aðdáendum hans. Mér finnst reyndar töff að Burton hafi stækkað gömlu, leiknu byrjendamynd sína og gefið henni Vincent-förðunina. En miðað við hversu persónuleg og vönduð hún er kemur það mér á óvart hve óeftirminnileg og þurr hún reynist líka vera. Alls ekki steindauð en tilheyrir engu að síður stórum lista yfir myndum leikstjórans sem sóuðu ansi hugmyndaríku tækifæri. Að minnsta kosti er Elfman-tónlistin fín, þótt kallinn hafi ekki búið til geggjaða músík síðan Hellboy II eða Charlie and the Chocolate Factory. Þurfa kannski báðir skuggadýrkendurnir að hysja sig aðeins upp eða sköpunardjúsinn löngu kláraður?

Besta senan:
Fannst nokkuð gott þegar foreldrarnir voru að glápa á „alvöru“ horror-mynd, með Christopher Lee.

Sammála/ósammála?