Die Another Day

Ég ætla ekki að segja að Die Another Day sé alversta Bond-myndin, en hún er sú áttavilltasta, einkennilegasta og örugglega langsóttasta, sem hlýtur að vera mest móðgandi lýsing sem hægt er að gefa bíómynd sem tilheyrir seríu þar sem hetjan hefur farið út í geiminn og Denise Richards komst upp með titilinn kjarnorkufræðingur, svo aðeins eitthvað sé nefnt. Það er eins og myndin hafi verið skrifuð af hasar- og tölvuleikjaóðum unglingi sem var skipað af miklu eldri Bond-unnanda að fylla söguna og atburðarásina með tilvísunum í alla seríuna. Sem tuttugasta myndin, sem á sínum tíma markaði fjörtíu ára afmæli bíósögu njósnarans, þykist hún bæði vera massastór virðingavottur á meðan hún drullar um leið á allt sem hægt er að kalla „klassískt Bond,“ þá með því að vera miklu meira í líkingu við xXx og Austin Powers heldur en Ian Fleming. Kaldhæðnislega var leikstjóra þessarar myndar síðar boðið að gera sjálfstæða framhaldið af xXx, með Ice Cube, þannig að hann fékk þessa ógeðfelldu ósk sína uppfyllta.

Die Another Day finnst mér samt misheppnast með meiri stæl heldur t.d. Tomorrow Never Dies og The World is Not Enough, sem í minningunni renna saman í eina formúlukennda og illa skrifaða hasarmynd með flottum tökustöðum. Þessi fer að minnsta kosti alla leið með aulaskapinn (segjum „full retard“) og leikur sér að honum frekar en að reyna að hylja hann. Það tekur að vísu smátíma til að komast að „fantasíunni“ í sögunni, og hún fer eiginlega á fullt um leið og sögusviðið er fært til Íslands. Annars, fyrir utan hræðilega, heilaskemmandi opnunarlagið með Madonnu, þá byrjar myndin bara hreint ágætlega. Við sjáum Bond pyntaðan og brotinn niður á annað ár, sem er ótrúlega djörf ákvörðun. Öll merki benda í smástund til þess að þetta sé mannleg saga, en handritið hefur síðan enga hugmynd um hvað skal gera við þessa stefnu, þannig að í staðinn leysist hún bara upp og breytist allt í stigmagnandi vitleysu. Öll sú hugmynd að gera Pierce Brosnan-Bondinn að mannlegum karakter hverfur svo vandræðalega fljótt og eftir stendur bara skreytt stórmynd sem einblínir eingöngu á þrennt: sprengjur, slagsmál og brandara. Allt annað er bara uppfylling.

Brandararnir ætla sér að vera snjallir, en þeir eru það ekki. Þeir eru vondir. Hasarinn telur sig vera svo skemmtilega yfirdrifinn, og ég skal gefa honum það að fjölbreytni er undarlega mikil, en það er bara x mikið af steypu sem hausinn á manni getur þolað í einum rykk þegar þetta á að vera lauslega byggt á því sem Ian Fleming skapaði. Bond á að vera… ja… „classy,“ og þetta er það svo sannarlega ekki. Það er eitt gott skylmingaratriði í fyrri hlutanum þar sem maður finnur fyrir þreytu, reiði og einhvers konar tilfinningum. En jafnvel bestu atriði þessarar myndar þreytast áður en langt um líður. Söguþráðurinn heldur fínum dampi áður en komið er til Íslands, en bara ef þetta er metið sem aulaleg afþreying. Eftir fyrri helminginn verður það ekki með orðum lýst hvað ruglið fokkar mikið í heilasellunum. Tölvubrellurnar eru sum staðar glataðar (verst er ein sena sem reynir að blanda saman tölvugerðu módeli af Brosnan við augljós bluescreen-skot af leikaranum) og plottið er stútfullt af svo mörgum götum að maður nær aldrei að rúlla með atburðarásinni. Myndin þykist svo mikið vera að fikta (á góðan hátt) við Bond-formúluna, en hún saurgar hana bara í staðinn. Og þetta á einmitt að vera mynd sem heldur upp á hana!

Brosnan fór prýðilega af stað sem Bond í GoldenEye. Sú mynd var einnig bjánaleg á marga vegu (og gífurlega ofmetin að mínu mati) en hún hafði a.m.k. stíl og orku sem mér fannst alveg vanta í seinni myndirnar hans, sama hversu háværar þær eru. Persónulega finnst mér Pierce vera næstslakasti Bondinn en það er ekki alfarið honum að kenna, heldur handritunum sem hann fékk og metnaðarleysinu hjá framleiðendum. Hann lítur vel út og hefur ákveðinn sjarma við sig en stundum kaupi ég hann aldrei sem hasarstjörnu, ég hef aldrei litið á hann sem þrívíðan karakter og þegar one-linerarnir eru lélegir er ég hissa að hann skuli ná að halda andliti. Hann byrjaði að þreytast ofsalega í The World is Not Enough og í Die Another Day er hann að reyna að fela það hversu þreyttur hann er orðinn. Með alvöru efni í höndunum, sem tæki sterkt tillit til Fleming-tónsins, held ég að þessi leikari hefði alveg getað staðið sig, nema Bond hefði verið látinn syngja.

Halle Berry finnst mér vera handónýt Bond-gella. Hún er pirrandi, sjálfumglöð og… PIRRANDI. Ég er dauðfeginn að framleiðendur hættu við þá hugmynd að gefa persónu hennar, Jinx, sína eigin bíómynd, sem stóð til að gera á tímapunkti. Ég skal meira að segja glaðlega velja Denise Richards fram yfir Berry því þar er meira til að glápa á. Richards gæti ekki leikið fyrir Subway-samloku en hún kunni að hita upp myndarammann. Berry heldur að hún sé hörð, svöl og með skemmtilegan persónuleika. Hún missir alveg marks og ekki síst í senunum með henni og Brosnan. Botninum er náð í hrikalega vandræðalegu kynlífsatriði.

Rosamund Pike er fimm sinnum betri Bond-pía en Berry. Og fallegri. Og með meiri persónuleika. Toby Stevens er heldur ekki slæmur sem illmennið og nýtur þess að ofleika með smögg-svip, sem er e.t.v. það besta sem handritið býður upp á. Rick Yune sleppur líka fyrir horn sem týpíski „vondi aðstoðarmaðurinn.“ Karakterarnir sem Stevens og Yune leika vekja samt upp stórar spurningar í tengslum við þetta lúðalega handrit. Lógíustökkin í sögunni eru í rauninni langsóttari heldur en brengluðustu hasarsenurnar. Stundum líður mér eins og efnið hafi húmor fyrir þessu en það afsakar það samt ekki að myndin tekur sig ótrúlega alvarlega í hinum fíflalegustu senum.

Í rauninni má líta á þessa mynd sem tvær myndir að keppast um athyglina. Á endanum sigrar þessi sem er meira í stíl við hallærislegar, bandarískar Hollywood-stórmyndir, frekar en þessi sem þykist vera að sína forverum sínum þá viðeigandi virðingu sem þeir eiga skilið eftir 40 (núna 50) ár. Mér leiðist Bond þegar hann er tortímingarvél sem annaðhvort berst við eða flýr undan rangeygðum óþokkum. Ég vil hafa Bond sem snjallan, leynilegan útsendara og helst ekki þennan sem bjargar heiminum endalaust. Sem betur fer fengu flestallir í heiminum (þ.á.m. framleiðendur) nóg af fantasíunni eftir Die Another Day. Myndin gat ekki betur sýnt hvenær nóg er boðið af vitleysunni sem endalaust þurfti að toppa sig eftir hverja (Brosnan) mynd. Línan hefur verið dregin.

Ég vil ekki rakka myndina niður sem eitthvað sorp. Það er nógu margt í henni sem getur verið athyglisvert, lúmskt skemmtilegt eða skemmtilega óvenjulegt til að hún sé ekki tótal tímasóun. Seinni helmingurinn tapar yfirleitt alltaf áhuga mínum. Steypan er fráhrindandi en ég verð eiginlega að dást að heimskulegu hetjudáðum leikstjórans fyrir að standa á sínu og hemla hvergi á sér. Á marga vegu er þetta ein merkilegasta Bond-mynd sem hefur verið gerð. Mér finnst hún alltaf eiga að vera metin sem slík. Ég sýni henni þess vegna mikið þakklæti. Án Die Another Day væri eflaust engin Casino Royale, og án Casino Royale væri serían ekki í því toppstandi sem hún er í nú í dag. Takk og bæ!

fimm

Besta senan:
Bond og illmennið svitna við skylmingar.

PS.
„Nýja“ gunbarrel-dæmið í byrjuninni er drasl. Átti hann semsagt að hafa skotið byssukúlu inn í sjálft byssuhlaupið??

Ein athugasemd við “Die Another Day

Sammála/ósammála?