House at the End of the Street

Það er eitt að vera með ranghugmyndir um að vera hrollvekja, því það er nógu slæm óskhyggja ef afraksturinn er hörmulegur, en það er annað að vera slök hrollvekja sem dulbýr sig sem sálfræðitryllir. Það gefur einhvern veginn til kynna að umrædd mynd sé að reyna að taka sig ennþá meira alvarlega, ásamt því að reyna að hafa eitthvað merkilegt að segja. Þessi mynd, sama hvaða geira eða undirgeira hún tilheyrir, vill vera tekin alvarlega í tengslum við innihald sitt, en það eina sem mér fannst hún vera að segja af viti við áhorfendur var: „Haha, þarna stal ég peningunum þínum!“

Sem betur fer tókst mér að reka minn eigin miðfingur til baka beint í smettið á þessari mynd, þar sem ég eyddi ekki krónu í hana, en eini tilgangur þessarar umfjöllunar er að sjá til þess að enginn sem náð hefur réttum þroska geri þau mistök.

Maður hefur vissulega séð þær verri en þetta, sem er eitt það allra jákvæðasta sem hægt er að segja um þessa mynd þótt ég geti ekki sagt að það sé sérstaklega huggandi tilhugsun. Hræðileg mynd sem ekki er athyglisverð í gölluðu samsetningu sinni verður aldrei neitt annað en hræðileg, gagnslaus mynd. Eina hlutverkið sem House at the End of the Street mun nokkurn tímann gegna er að vera ein af þessum myndum sem kornungir vinkonuhópar munu glápa saman á, haldandi að hún sé miklu meira spennandi og óhugnanleg heldur en hún í rauninni er.

Mig langar að segjast vera að skálda þetta en ég hef í alvörunni séð það gerast þegar unglingsstelpur þyrpast saman í eina skrækjandi hrúgu, haldandi í höndina á næstu manneskju, bíðandi eftir næsta bregðuatriði eins og spenntir hundar. Það er líka sama hvað bregðurnar eru ódýrar eða grútlélegar myndirnar eru sem bjóða upp á þær, stelpum finnst gjarnan gaman að þykjast vera hræddar saman yfir efni sem að mínu mati mengar hryllingsmyndageirann á marga, marga vegu. Mjög áhugavert að fylgjast með svona löguðu. House at the End of the Street er fullkomin mynd fyrir svona bjartsýn vídeókvöld og akkúrat svona sambærilegan markhóp, vegna þess að allir sem kunna að meta gott andrúmsloft, óútreiknanleika, sniðugar fléttur eða ný brögð munu algjörlega æla út úr sér morgunmatnum yfir tilhugsuninni um svona metnaðarlausa mynd, eða að minnsta kosti mun þá langa mikið til þess, bara svo hægt sé að búa til afsökun til að hugsa ekki lengur um hana.

Jennifer Lawrence virkar á mig eins og hún sé ekki óskynsöm manneskja. Ferillinn er enn bara rétt að byrja og strax er hún komin með Óskarstilnefningu fyrir frábæra mynd, ásamt tveimur virkilega góðum (og ólíkum) seríubundnum fantasíumyndum. House at the End of the Street var reyndar tekin upp hálfu ári á undan Hunger Games, sem útskýrir eitthvað en alls ekki nógu mikið. Kannski langaði hana bara að prófa og sjá hvernig fílingurinn væri að leika í vondri mynd, svona til að breyta aðeins til. Ég hefði samt viljað sjá hana velja eitthvert athyglisverðara sorp en þetta. Lawrence ber höfuðið þokkalega hátt og er langt frá því að vera slæm. En betra á hún skilið en þetta. Sömuleiðis Elisabeth Shue, sem virðist seint hafa áhuga á því að eiga eðlilega góðan feril. Ég er heldur ekki frá því að Gil Bellows eigi betra skilið en þetta. Flestir vita ekki einu sinni hver hann er…

Forðast skal þessa mynd, af öllu afli. Hún er svo sannarlega gagnslaus og, það sem verra er, þreytandi í asnaskap sínum. Viðburðalitla handritið bætir lítið upp með tilviljanakenndum reddingum, leiðinlegum samræðum og fléttum sem aðeins fermingarbarni gæti þótt merkilegar eða áhugaverðar. Leikstjórnin sýnir stundum merki, útlitslega séð, um áhuga, sem virkar eins og þversögn miðað við hvað efniviðurinn lyktar sterkt af klisjum og formúlum, en á móti því er samsetningin alveg í takt. Klippingin er stundum alveg hreint hræðileg, þar sem sérstaklega er neyðarlegt hvernig skipt er á milli sena og oft er takturinn algjörlega rangur, eins og öll myndin hafi bara verið sett saman í flýti.

Þetta er leiðinlegt og ónýtt eintak og myndin missir alfarið marks þegar hún ætlast til að vera kölluð spennandi. Hún masterar algjörlega listina að apa ómeðvitað eftir hundrað öðrum bíómyndum, jafnvel mörgum hræðilegum. Og passa skal að rugla aldrei nafninu saman við The Last House on the Left, hvort sem er um að ræða endurgerðina eða frummyndina. Báðar eru skömminni skárri en þessi.


Besta senan:
Eitthvað með það að gera þegar einhver pirraðist.

Sammála/ósammála?