Pixlar og plast

Stundum sakna ég þess hvernig maður horfði á bíómyndir og sjónvarp í æsku og mig langar helst endilega að fá þessa tilfinningu aftur þar sem atburðir voru ekki senur og leikarar ekki leikarar, heldur persónur. Mikið djöfull getur nefnilega þetta saklausa barnsauga verið dásamlegt því þar er samstundis keypt það sem það sér og koma sjaldan upp einhverjar lógískar spurningar. Helstu nostalgíumyndirnar voru í mínum huga nánast það sama og sögulegar heimildir, en smátt og smátt fór maður að tína töfrana í sundur.

Ég man svo vel þegar ég sá Jurassic Park í kringum sex ára aldurinn og sá í beinu framhaldi ekki sólina fyrir þeirri mynd. Hún var (og er!) svo skemmtileg en samt svo óhugnanleg, en það besta við þetta blessaða bíó var að ég trúði hverri einustu senu og pældi ekkert í því hvers vegna maður sér aldrei risaeðlur á Íslandi. Í miðju fjórða eða fimmta áhorfi þurfti síðan amma mín nauðsynlega að ganga upp að mér þegar hún sá mig í felum undir borðinu (sorrý, en mér fannst greinilega bara svona gaman að vera hræddur) og tók það sérstaklega fram við mig að risaeðlurnar væru allar bara plat.

„Þetta er bara plast!“ sagði hún. Fyrst botnaði ég ekkert í þessari útskýringu. Hvernig gátu þessar grimmu og ógnvekjandi skepnur verið einungis plast? Vegna þess að plast tengdi ég til dæmis alltaf við dótið mitt en ekki eitthvað sem virkar á mig eins og eðlileg lífvera í sjónvarpinu. Þetta kveikti samt á perunni hjá mér eftir að amma hafði útskýrt hvernig skrímsli í bíómyndum væru oftast bara vel útbúin gervi eða dúkkur með flókin gangverk. Þetta var að sjálfsögðu áður en tölvurnar byrjuðu að sjá um þetta. Og kaldhæðnislega voru risaeðlurnar í Jurassic Park oftar en ekki pixlar í staðinn fyrir plast. En maður á hvort eð er aldrei að leiðrétta gamalt fólk. Það pirrast bara.

Í dag pælir undirritaður í andrúmslofti, tæknibrellum, trúverðugleika og frammistöðu leikara í myndum eins og Jurassic Park. Algjörlega ósjálfrátt. Því miður. Helst væri ég bara til í að halda því fram að þetta er alvörufólk sem gæti hugsanlega verið að deyja í alvörunni. Þá fyrst hangir maður almennilega á sætisbrúninni.

Sammála/ósammála?