Alltaf sama sussið

Fólk kvartar stanslaust undan masi og tillitsleysi annars fólks í bíó, og af hverju ekki? Þetta er réttlæt kvörtun því þessar uppákomur virka alltaf eins og þeim fari fjölgandi með árunum (sennilega eykst athyglisbresturinn bara með tækniþróuninni). Í augum kvikmyndaáhugamannsins er fátt meira óþolandi en einhverjir aðrir bíógestir sem draga þig andlega út úr góðri upplifun eða sögu vegna þess að þeir geta ekki haldið kjafti.

Sumir eru auðvitað ekki tjúnaðir inn í þá hugsun að það sé ekki ætlast til þess að maður tali yfir bíómyndum, en oft þegar nokkrir félagar koma saman breytist stundum heil bíóferð í félagsmiðstöð í þeirra augum, með myndina sem algjört aukaatriði. Stundum er hægt að tala ómeðvitaða kæruleysið niður með kurteisisbeðni, en svo koma djöflarnir með issjúin sem nærast á pirringi þeirra sem vilja að augun njóti ákveðinna ásta með skjánum.

Ég virði það fullkomlega að það taka ekki allir bíóferðir eins alvarlega og ég (þó það fari svosem eftir týpu mynda, maður er meira líbó yfir grínmyndum), en tillitsleysi talar sama tungumálið alveg sama á hvaða svæðum maður er. Maður verður samt að spyrja sig hvers vegna mörgum finnist þessi hegðun hafa versnað, því einhvern veginn líður mér eins og þetta sé alltaf álíka misjafnt. Kannski er ég bara svona góður að skanna salinn fyrirfram. Það þarf engan með háskólagráðu til að sjá stundum einhverja gesti sem eru líklegri en aðrir til að vera með leiðindi, sérstaklega ef það er hópur af hressum unglingum, hópur af smákrökkum eða „sjomlar“ með takmarkaðan sjóndeildarhring.

Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að ég hef séð það miklu, miklu verra en á Íslandi – og þótt þetta vandamál sé alltaf jafnpirrandi, sama hvar maður er, þá skal ég glaðlega velja íslenska aula í bíósal heldur en þessa bandarísku. Ég hef marg, margoft farið í bíó vestanhafs og það tíðkast grimmdarlega oft að foreldrar mæti með ungabörn á almennar sýningar á myndum sem þeir vilja sjá. Og ef barnið grætur, þá er stundum reynt að kippa því í lag á staðnum í stað þess að stíga út fyrir bíósalinn. Við Íslendingar erum sem betur fer töluvert stilltari í samanburði. Eigum við ekki bara að halda því þannig svo vont versni ekki?

Sammála/ósammála?