Hotel Transylvania

Adam Sandler þarf að vippa upp betri ás úr erminni en þennan ef hann ætlast til þess að maður líti á hann aftur heilbrigðum augum, hvað þá að maður taki hann aftur í sátt eftir seinustu þrjár eða fjórar* „grínmyndirnar“ hans. Það getur nú e.t.v. verið mjög kuldalegt og dimmt þarna á botninum en sem betur fer er hann umkringdur flestum Happy Madison-vinum sínum sem komust þangað langt á undan honum. Sandler átti að vísu harðasta skellinn (nema Dana Carvey teljist enn með) og ef hrósa skal Hotel Transylvania þá kemur það sjaldan hans nafni við. Ef eitthvað er þá held ég að þessi mynd hefði getað komið margfalt betur út ef hann og hans teymi hefði látið þetta eiga sig. Grunnhugmyndin er nefnilega stórskemmtilega frumleg en Sandler-bragðið er alltof sterkt.

Sandler er svo sem ekkert óvanur því að taka eitthvað gamalt og klassískt og setja sinn eigin barnalega snúning á það. Nú er liðinn áratugur síðan hann saurgaði minningu myndarinnar Mr. Deeds Goes to Town og sömuleiðis er jafnlangur tími liðinn síðan hann kom seinast út með teiknimynd. Ég hataði báðar þessar myndir en Hotel Transylvania er lukkulega ekki eins móðgandi fyrir skilningarvitin, þvert á móti bara ansi krúttleg á völdum stöðum (og Andy Samberg og Steve Buscemi eru fjandi fínir). Sem Drakúla er Sandler þolanlegur en í alltof háum gír og ekki með margt milli handa.

hotel-transylvania-2-banner

Sandler tekur oft svona kafla þar sem hann vill sýna fólki hvað hann hefur þroskast mikið. Það er eflaust munur á honum núna og fyrir 10 árum síðan en 46 ára gamall maður ætti að vera með aðeins betra orðspor en að endalaust þóknast nýjum kynslóðum áður en þær vaxa upp yfir hann. Það eru nokkuð þroskaðir undirtónar í þessari mynd en almennt séð er þetta bara ærslafullt þunnildi þar sem heldur illa er farið með góðan efnivið. Og allir sem vita hver hinn stórmerki Genndy Tartakovsky er hljóta að gera sér grein fyrir því að hann á betri mynd skilið heldur en þessa, með minni prumpuhúmor og helst án píndra, átótjúnaðra söngnúmera.

Genndy (best þekktur fyrir Dexter’s Lab, Samurai Jack og fullt, fullt fl.) er snillingur þegar kemur að víbrant hönnun og líflegum teiknimyndastíl og helsta ástæðan fyrir því að Hotel Transylvania er ekki tímasóun er sú að myndin lítur frábærlega út og hún er stöku sinnum fyndin, en ekki eins oft og hún ætlast til. Þetta er skólabókardæmi um teiknimynd sem reynir að ná til fullorðinna (nánar til tekið foreldra) með skilaboðum sínum en rembist sömuleiðis við það að sjá til þess að smákrökkum með athyglisbrest leiðist aldrei. Myndin er spræk en handritið er bara fullgrunnt og óspennandi til að takast almennilega á flug. Það vantar meira af Genndy og minna af Sandler.

Besta senan:
Flogið á hringborðum.

*Grown Ups, Just Go with It, Jack Und Jill, That’s My Boy.

Sammála/ósammála?