Wreck-It Ralph

Ég elska þegar sérstakt tillit er tekið til minnar kynslóðar í kvikmyndagerð, ekki síst þegar það er gert með svona frumlegum hætti. Wreck-It Ralph er óneitanlega ómótstæðilega góð skemmtun fyrir alla aldurshópa, en það gæti einmitt skipt heilmiklu máli hvaða kynslóð áhorfandinn tilheyrir ef þetta snýst um að skemmta sér vel og skemmta sér konunglega.

Sem gamall (en samt ekki OF gamall) „retró-gamer“ í fjórða veldi tel ég það vera nokkuð borðliggjandi hvor lýsingin passar betur við mína upplifun af myndinni. Ég sé ekki betur en að flestir leikjanördar eigi eftir að brosa allan hringinn en þeir sem eru vel skólaðir í „8-bit“ leikjum eiga eftir að fá extra ánægju úr þessu öllu.


(svona un-official blanda af Rampage og Donkey Kong)

Persónulega tel ég það alltaf vera stórsigur fyrir Disney – eða í rauninni hvaða kompaní sem er – þegar tekst að gera megahressa, litríka og mergjað skemmtilega teiknimynd þar sem betri tenging er við eldri hópanna heldur en smábörnin. Krakkar munu samt sem áður éta þessa mynd upp í hugmyndaríku geðveiki sinni en það eru eldri lúðar eins og ég sem munu betur kunna að meta ferskleikann, retróblætið, ádeiluna og endalausa magnið af eitursnjöllu gotteríi, földu sem og áberandi.

Disney hefur ekki gert mynd sem er svona stanslaust fyndin síðan Tangled, eða The Emperor’s New Groove þar á undan, en meira að segja hélt hvorug þeirra eins góðum dampi með jafnmiklu hugmyndaflugi og þessi. Og engin tölvuteiknuð steik hefur fengið mig til að hlæja jafnhátt og þroskaheft síðan Cloudy with a Chance of Meatballs. Hún er í alvörunni frábær og gæti orðið að einni af mínum uppáhaldsmyndum frá þessu ári. Ef hún fær þig ekki til að brosa með stuttu millibili eða í það minnsta fá þig til að dást svolítið að henni þá áttu ekkert erindi fyrir framan fjölskyldumyndir. Eða lífsglatt fólk.

Frásögnin fylgir frekar staðlaðri formúlu en skreytingin og sjálf grunnhugmyndin ekki síður gerir hana fáránlega einstaka. Það er eins og aðstandendur Scott Pilgrim hafi ákveðið að gera teiknimynd með því að rampa upp tölvuleikjaæðið, sleppa öllu hinu og síðan kremja saman Toy Story, Despicable Me og Truman Show í sömu sögu. En það er mestmegnis uppstillingin. Þegar allt er komið í gang kemur í ljós að handritið er sífellt að reyna að þróa söguþráðinn svo hann fari aldrei á of mikla sjálfsstýringu. Sagan verður reyndar aldrei ófyrirsjáanleg (enda DISNEY teiknimynd!) og togaði heldur ekkert í misviðkvæmu hjartaspottanna mína, en húmorinn, heilinn, flippið og útpælda tölvuteikningin bætti upp fyrir allt svoleiðis. Heimurinn sem hefur verið skapaður er býsna stórkostlegur og algjörlega ólíkt því sem maður hefur séð í teiknimyndum af þessari stærð. Raddirnar gera líka heilmikið, en það er oft eins og maður sé að horfa á skrípalegar útgáfu af leikurunum sjálfum.

Hver fílar ekki John C. Reilly? Svona í alvöru… Hann er allavega æðislegur sem hinn sympatíski Ralph. Mér til mikillar undrunar var Sarah Silverman heldur ekki eins pirrandi og ég hefði haldið eftir að röddin hennar er látin hljóma eins og smástelpa, en það er þökk sé þess að hún fær ákaflega fínan karakter til að föndra með. Silverman hefur sjaldan náð til mín en hún felur sig með sóma, eða hér um bil. Þau sem líkjast sjálfum sér mest eru þau sem hlaupa burt með alla myndina, Jack McBrayer og Jane Lynch. Bæði tvö tilheyra týpískum hópi leikara sem eru nánast alltaf alveg eins, í öllu sem þau sjást í, en þau virka stórkostlega hér. Það er nú heldur ekki eins og flestar persónurnar séu ekki skrautlegar og eftirminnilegar.

Það virðist vera ótrúlega vinsælt þetta árið að taka eitthvað gamalt og flytja það í nútímalegan búning. Wreck-It Ralph er svo bráðskemmtileg og sniðug að það er með ólíkindum að hún skuli ekki vera Pixar-mynd. Mér líður hálfpartinn eins og framleiðslumerkin á henni og Brave hafi víxlast á sitthvoru forvinnslustiginu því vanalega er Pixar þekkt fyrir betra hugmyndaflug heldur en þessar dæmigerðu Disney-teiknimyndir, en ekki auðgleymdar prinsessumyndir. Ralph er allavega ótrúlega Pixar-leg, að megninu til. Mikilvægara er samt að líta á hana sem magnað skref í réttu áttina fyrir nakta Disney-merkið, sem og brjálað fjör þar sem ímyndunaraflið er oftast í fyrirrúmi og skilaboðin krúttleg.

Með fleiri óvæntari stefnum hefði þetta hiklaust getað orðið að sannkölluðu sápukúlumeistaraverki. Hingað til hef ég núna litið á Scott Pilgrim sem bestu tölvuleikjamynd sem til er… sem byggð er á tölvuleik sem er ekki til. En ef nokkuð er til í því finnst mér alveg sanngjarnt að kalla Ralph allra bestu leikjamyndina… sem inniheldur alvöru leikjakaraktera í bakgrunni. Það nægir, en það er líka hægt að kalla þetta nostalgíubundið „product-placement bíó“ af bestu gerð.


Besta senan:
Oreo!!

Sammála/ósammála?