Paranormal Activity 4

Ókei, ég nenni þessu ekki lengur! Ég meika ekki svona peningamaskínur sem gerðar eru bara til að opna veskin hjá áhorfendum í saklausri leit að einhverju óhugnanlegu. Kannski er bara verið að tína seðla af fávitum, því eins og ég sé það þá þyrfti maður að vera soddan fáviti til að segjast enn vera sterkur Paranormal Activity aðdáandi eftir þrjár (hvað þá fjórar!) lotur sem allar eru í grunninn alveg eins. Ég skil athyglina sem fyrsta myndin fékk en ef fólki finnst þetta enn vera spúkí í fjórða sinn þá er minnið ekki alveg upp á sitt besta. Ef einhverjum langar í snöggan kvikmyndaskóla sem sýnir hversu langt er hægt að ná í handritsgerð sem notar hina vinsælu en umdeildu „Copy-Paste“ taktík, þá þarf ekki að líta lengra en á þessa seríu.

Það er enn hægt að dást að fyrstu myndinni, því á bakvið hana var leikstjóri sem vildi spila með sálfræðina, þolinmæði áhorfandans og sýna að ekki þyrfti varla neitt fjármagn til að gera fólk bandvitlaust af spenningi. Hún græddi verðskuldaðar upphæðir peninga, en framleiðendur ákváðu svo að endurtaka formúluna, aftur og aftur, án þess að þróa hana og taka áhættu. Þetta var farið að þreytast en hélt þó smávegis dampi í þriðju myndinni, en núna er ljóst að sagan skipir engu máli lengur. Það er bara verið að reyna að fríka menn út með sama bragðinu í fjórða sinn.

Þessi alvarlegi skortur á hugmyndaflugi, metnaði og áhugasömum vinnubrögðum sýnir manni aðeins það að framleiðendum er skítsama um taumhald á gæðum og ætlast bara til að fylla vasanna á eins auðveldan máta og að smella fingrum. Ef þetta heldur svona áfram þá munu einungis viðkvæmustu skræfurnar standa eftir og punga út pening í svona skömmustulegt déjà vu kast. Enginn vill tilheyra þeim hópi, er það nokkuð?

Ég hata ekki Paranormal 4, ég vorkenni henni bara. Svona aumkunarvert afrit af afriti ætti varla að kallast kvikmynd. Það er margt neikvætt að segja um myndina sem kom á undan henni en hún opnaði a.m.k. nýjar dyr, þá sérstaklega í lokaatriðunum. Þessi hefði átt að rugla aðeins í formúlunni og stækka sjóndeildarhringinn pínu ef á að ætlast til að maður nenni að leggja í eintak nr. 4. Útkoman er sú sama en ég veit ekki hvort er sorglegra, það að þessi mynd fylgir uppskriftinni aumingjalega sterkt, eða að eini áhugaverði kaflinn í henni á sér stað í kringum lokarammanna. Það er ekkert í henni sem er jafnsterkt og endasprettirnir á fyrstu eða annarri myndinni og gæsahúðin bítur aldrei eins og t.d. í seinni Bloody Mary-senunni í mynd nr. 3.

Paranormal 4 bætir litlu við hugmyndafræðina. Það eru nokkrar litlar nýjungar, en það er vægt til orða tekið að segja að payoff-ið í þessari mynd sé frekar veikt. Endirinn minnti mig svolítið á The Last Exorcism, að því leyti að einmitt þegar eitthvað athyglisvert byrjar að gerast, þá er myndin búin. Fínn leikur, nokkur ágæt skot og aðeins eitt gott bregðuatriði stendur upp úr. Annars er þessi sería löngu stigin yfir þá línu að vera orðin algjör paródía af sjálfri sér.

Besta senan:
Hmmm…

Sammála/ósammála?