The Matrix Reloaded & Revolutions

Að búa til framhald af The Matrix er eins og að búa til framhald af 12 Angry Men, Memento eða Fight Club. Þegar toppnum hefur verið náð með meistaraverki sem virkar vel sem sjálfstæð saga með fullnægjandi endi er ansi erfitt að fylgja henni eftir. Það var aðeins tvennt í boði fyrir hörðustu aðdáendur þegar The Matrix Reloaded kom fyrst út: Að sætta sig við það fyrirfram að myndin gæti aldrei náð hæðum forvera síns, þannig að best væri að taka á móti hennar stefnum með bjartsýni. Eða gera sér þær langsóttu vonir að myndin þyrfti að finna upp hjólið í annað sinn til að standast væntingar. Þetta gæti verið ástæðan af hverju margir hata Matrix-framhaldsmyndirnar. Mér dettur svosem margar ástæður í hug, en ég er ekki frá því að sumir hafi bara verið svo svekktir að hafa ekki fengið meistaraverk að einungis gallarnir lentu undir smásjánni, þótt þær séu nú LANGT frá því að vera fullkomnar.

Þær eiga kannski ekkert í fyrstu myndina, en Reloaded og Revolutions eru annars vegar miklu dýrari, þar af leiðandi mun flottari, undarlegri og stækka hugmyndirnar og heiminn alveg svakalega vel. Þegar ég lít á allar Matrix-myndirnar sé ég samt ekki þríleik, heldur þessa fyrstu, sem er úrvalsmynd, og svo hina… ömm… söguna, sem vill svo til að sé brotin upp í tvær einingar. Báðar framhaldsmyndirnar voru teknar upp saman og gefnar út með hálfs árs millibili. Mér finnst yfirleitt skemmtilegra að horfa á þær saman á löngu bíókvöldi frekar en í sitthvoru lagi, þannig að mér finnst vissulega sanngjarnt að fjalla um þær saman. Kaldhæðnislega er líka á þeirri skoðun að það hefði verið frekar sniðugra að gera eina tröllvaxna, þéttpakkaða túrbóhasarmynd frekar en tvær tveggja tíma myndir.

THE MATRIX RELOADED:

Ánægðastur er ég að þessi fyrri hluti „stóru framhaldsmyndarinnar“ hafi ekki selt sig út. Reloaded hefði svo auðveldlega getað orðið að svona týpískri, hugmyndasnauðri framlengingarmynd en hún er bara alls engan veginn þannig. Þvert af móti er hún alveg springandi af hugmyndum og…tjah… stórskemmtilegu rugli! Verst er bara að myndin er ekki alveg nógu góð í að tjasla saman almennilegum söguþræði í kringum allt þetta góða. Þess vegna finnst mér eins og frekar hefði átt að gera eina mynd, þá bara úr plottinu sem hefst eftir fyrstu 20 mínúturnar af Revolutions, ásamt fáeinum æðislegum molum úr þessari mynd að sjálfsögðu.

Að horfa á rándýra „kung-fu/live-action-anime“ mynd sem slefar af ímyndunarafli er ekki amaleg skemmtun. Hápunktarnir eru hreint dýrindislegir. Neo vs. Smiths bardaginn er sögulega skemmtilegur (en kannski pííínu langdreginn), eltingarleikurinn á hraðbrautinni sturlaður en magnaður og Arcitecht-senan vægast sagt athyglisverð og einkennileg. Pælingarnar eru flestar góðar, hugmyndirnar metnaðarfyllri en áður og, jú, ég reyndar verð að viðurkenna að Zion-klámið virkaði pínulítið á mig líka. Sömuleiðis er þetta ögn langdreginn kafli – sem gerist oft í myndinni – en þarna er eitt af fáum tímabilum í öllum þremur myndunum til samans þar sem persónurnar hegða sér eins og alvöru manneskjur. Eðlilegar, sveittar og graðar. Eitt af því sem angrar mig nefnilega mest við Reloaded og Revolutions er að leikstíllinn kemur oft þannig út að leikararnir líta út eins og þeir séu að deyja úr leiðindum. Þegar þetta gerist, þá talar fólk rólega og starir hvort á annað með dautt augnaráð. Gloria Foster, Lambert Wilson og Hugo Weaving eru þau einu sem brjóta þessa reglu. Keanu Reeves vill síðan sjálfur halda að hann sé að brjóta regluna, en hann er eiginlega bara að leika Keanu Reeves.

Það sem Wachowski-dúóið gerði sér kannski ekki alveg grein fyrir þegar handritin á framahaldsmyndunum voru í vinnslu, að það væri verið að ætlast til að Reeves þyrfti að sýna það sem kallast krefjandi leiktilþrif á góðri íslensku. Neo þarf í þessari lotu að sýna aðeins fleiri svipbrigði en í allri fyrstu myndinni, sem sleppur svosem, en þegar ljóst verður að myndin er í rauninni öll abstrakt cyberpunk-ástarsaga, með tilheyrandi rómantík og kærustufaggastælum, þá versna málin hjá Reeves. Hann á heldur enga kemistríu við Carrie-Anne Moss. Að horfa á þau er eins og að sjá systkini þykjast vera ástfangið par. Atriðin með Neo og Trinity vekja aldrei upp þau áhrif sem þau eiga að gera, en það er í sjálfu sér engum að kenna. Ekki vissu leikstjórarnir að þau tvö ættu varla eftir að smella saman þegar sagan í fyrstu myndinni bauð varla upp á alvöru strauma á milli þeirra. Þau voru ráðin upphaflega til að vera svöl í sitthvoru lagi en ekki sem skjápar. Það er heldur ekki eins og Wachowski-teymið hefði sætt sig við aðra í hlutverkunum. Reeves og Moss eru bara engir snilldarleikarar. Það er bara þannig. Ekki samt vorkenna þeim of mikið. Þetta eru ólöglega fríðar manneskjur.

Plottið í Reloaded er ótrúlega grunnt og óspennandi, eins og gamall, furðulegur þrautatölvuleikur þar sem Neo (núna kominn í God Mode!) neyðist til að flakka á milli umhverfa og tala við fullt af fólki til að komast áfram (spilandinn þarf þá oftast að velja umræðurnar rétt, svona eins og í LucasArts-leikjunum klassísku).
Dæmi: Fyrst þarf Neo að tala við „spákonuna“ svo hægt sé að vísa á manninn sem geymir einstaklinginn sem passar lykilinn að sögunni. Allt þetta leiðir svo til skrautlegs samtals við KFC-gaurinn sem gefur síðan spilandanum/áhorfandanum/Neo tvo mikilvæga valmöguleika rétt áður en ævintýrið klárast í bili. En í algjörri hnotskurn er plottið svona: Fólk þarf að endalaust að komast frá A til B svo atburðarásin geti boðið upp á vandaðan en handahófskenndan hasar – oftast slagsmál. Þannig er öll myndin. Skemmtileg á meðan hún er í gangi, en grunn og teygð. Afþreyingargildið reddar öllu og get ég ekki annað en elskað brellurnar, útlitsblætið, hugmyndirnar og opnu umræðurnar sem þær skapa. Tónlistin er líka helluð!

Kannski best að orða þetta svona: Gat orðið betra, gat orðið verra. Ég er allavega nokkuð sáttur.THE MATRIX REVOLUTIONS:

Þá byrjar alvöru fjörið! En samt ekki. Fjörið var mestallt í Reloaded þó svo að allt plottið í henni hafi ekki í raun gert margt fyrir heildarsöguna. Eitthvað, en ekki margt. Í Revolutions er allavega sagan komin á það stig að menn þurfa að duga eða drepast. Annar helmingur þessarar epísku framhaldssögu (þ.e. Reloaded) er eins og klikkuð tölvugerð, kung-fu veisla, með bjartari tón og aðeins meira stuði. Seinni hlutinn er þar sem stríðssagan er komin á fullt og svört ský farin að verða miklu meira áberandi en fyrr.

Söguþráðurinn í Revolutions er andskoti töff, og á blaði held ég að allt nema fyrstu kaflarnir hafi verið gargandi snilld. Endirinn á sögunni þykir mér persónulega mjög djarfur, óvenjulegur en fullnægjandi. Ég er sáttur með þróunina á mestöllu (fyrir utan það hvað Laurence Fishburne fær lítið að gera!) og hnútarnir eru vel hnýttir í þægilega opnum endi. Ef ég hefði lesið þessa sögu sem bók eða handrit hefði álit mitt ekki verið nálægt því að vera eins og þegar ég horfi á sjálfa myndina. Að vísu er öll spekin farin að þreytast alveg hroðalega, eiginlega strax um leið og hún byrjar, en hún heldur sér engu að síður á floti, þó bærilega. Stærstu ókostirnir koma samt aðallega leikstjórninni við. Leikararnir eru enn oft svo dauðir eða þurrir, sem vissulega kemur í veg fyrir tilfinningalegan þunga og lætur prýðileg samtöl hljóma eins og leiðinleg samtöl. Ég fíla einnig hugsunina að draga úr spekinni og leyfa þessum kafla að njóta sín í botn sem stríðssaga. Revolutions virkar skítsæmilega sem hasarmynd frá A-Ö nema mikilvægustu atriðin – eins og t.d. árásin á Zion – verða einhverra hluta vegna bara afskaplega þreytandi.

Zion-árásin er að vísu gott dæmi um „overkill“ á tæknibrellunum. Þessi partur af myndinni hefði tvímælalaust átt að skila sér í sögubækur kvikmynda sem ein öflugasta orrusta allra tíma, og klárlega ein sú öflugasta frá árinu 2003 á eftir Return of the King. Gallinn er bara sá að bardaginn er ekki beint mótaður í kringum neinar athyglisverðar persónur. Við fylgjumst bara með fullt af einhverju óspennandi liði skjóta á tölvugerðar skepnur og mér finnst ég nánast geta séð beint í gegnum það að tökurnar hafi flestar verið fyrir framan blátt eða grænt tjald. Brellurnar eru auðvitað meiriháttar góðar, en þetta þreytist allt óvenjulega fljótt. Það er frekar fúlt miðað við það að þetta er sú stund sem er mest búið að byggja upp. Súperslagurinn hjá Neo og Smith bætir reyndar upp fyrir sumt af þessu. Hann er alveg dúndur! Ekki of langur, ekki eins áberandi tölvuhannaður og fjölbreytni er allsráðandi.

Fyrstu 20 mínúturnar af Revolutions eru voða gagnslausar. Ég sé engan tilgang með þessu Trainman-dæmi, dáinu og sömuleiðis þessari Sati-persónu sem leikin er af dúllulegri, Inverskri stelpu. Ekkert af þessu bætir neinu sérstöku við söguna. Þetta kemur bara út eins og uppfylling, eins og svo margt annað í Reloaded. Svo tala ég nú ekki um þessa déskotans Powerade-auglýsingu, sem dró athygli manns alveg frá því sem var í gangi annars staðar í rammanum. Ég taldi 4-5 þvingaða Powerade-ramma í miðri hasarsenu. Alls. Ekki. Kúl!

Ef aðeins er farið út í hugmyndirnar þá finnst mér stefnurnar í bæði Reloaded og Revolutions vera geysilega sniðugar og ef myndirnar væru betur skipulagðar hefði verið hægt að gera eitthvað goðsagnarkennt úr þessu. Þessar framhaldsmyndir eru oft gagnrýndar fyrir að fara með söguna í leiðinlegar áttir en því er ég engan veginn sammála. Útfærslan er aðalvandamálið en þessar myndir eru samt unnar af svo miklum metnaði og áhuga að þær munu aldrei flokkast undir lélegt bíó í minni bók. Ég digga Reloaded, þrátt fyrir sína galla, en Revolutions nær ekki að afsaka sig eins vel. Í henni skipta tilfinningarnar mestu máli og ef þær eru óviljandi strípaðar burt stendur lítið eftir annað en töff mynd með mögnuðu útliti sem manni er því miður skítsama um.

Þetta gat svo sannarlega orðið mikið, mikið betra. Er ekkert alltof sáttur en ég lifi.

Bestu senurnar:
Eltingarleikurinn á hraðbrautinni og þegar Neo & Trinity sjá sólina í raunheiminum.

Ein athugasemd við “The Matrix Reloaded & Revolutions

Sammála/ósammála?