Argo

Sko minn mann! Ef Ben Affleck heldur áfram að gera svona góðar myndir þá þarf ekki nema kannski tvær til þrjár í viðbót til að maður gleymi því að t.d. Raindeer Games og Gigli hafi nokkurn tímann orðið til. Það þarf annars engan ofurheila til að sjá það að vinnubrögð hans sem leikstjóri verða alltaf betri og betri enda er hver mynd alltaf töluvert metnaðarfyllri heldur en sú sem kom á undan. Ég ætla samt ekki að segja að Argo sé besta myndin hans til þessa þegar upp er staðið, en hún er sú merkilegasta í ljósi þess að langsóttur sannleikur er yfirleitt alltaf ótrúlegri en skáldskapur. Þó myndin sé samt byggð á sannri sögu er bíómyndalega dramatíseringin nokkuð gegnsæ, en spennandi og skemmtileg engu að síður.

Mér dettur ekki í hug marga þrillera þar sem taugatrekkjandi endaspretturinn gekk út á það að komast í gegnum blessaða tollinn á einum flugvelli, en Affleck þiggur áskorunina eins og snillingur. Seinustu kaflarnir í myndinni eru bestir, sömuleiðis þeir sem eiga mest eftir að halda áhorfendum við sætið. Athyglin helst óslitin en aldrei festist ég sjálfur við brúnina nema á einum tímapunkti, líklegast út af því að spennuuppbyggingin dettur fljótt í sömu klassísku nick-of-time formúluna. En stress-rússíbaninn í lokin bætir vel upp fyrir nokkuð óspennandi miðju, sem nær alls ekki hæðum fyrsta þriðjungsins.


(það þýðir ekki að fela sig á bakvið skeggið, Benni minn. Þú lékst samt í Surviving Christmas)

Myndin byrjar nefnilega alveg hreint ágætlega og er ekki lengi að koma öllu í gang. Söguþráðurinn rúllar vel af stað og tekin eru hressandi skot á bíóiðnaðinn (og eitt lúmskt á sjálfan leikstjórann) í fyrri hlutanum. Auk þess eru þeir John Goodman og Alan Arkin svo dásamlegir að myndin fer næstum því að þjást þegar þeir hverfa of lengi úr myndinni. Annars eru nú allir hér um bil gallalausir. Það er lítið rými fyrir einhver krefjandi Óskarstilþrif en aldrei verður neinn ósannfærandi, Affleck að sjálfsögðu meðtalinn. Hverjum hefði dottið það í hug áður að sá sem leikstýrir honum best væri… hann sjálfur? Mín vegna hefði hann samt alveg mátt láta það í friði að troða sér aftur fyrir framan vélina sína og velja einhvern af sama þjóðerni og maðurinn sem hann leikur. Affleck er ekki alveg nógu latino-legur…

Argo reynir að blanda saman pólitískt drama við „crowd pleaser“ njósnaþriller með húmor en stendur sig mun betur sem þetta síðarnefnda. Myndin er glæsilega kvikmynduð, útlitslega úthugsuð, þar sem þráhyggjufullt tillit er tekið til smáatriða og tónlistin gefur myndinni púls sem gagnast henni mikið þegar njósnatryllirinn er kominn í háan gír. Sagan sem er sögð er hreint út sagt mögnuð ef skal hugsa til þess að þetta gerðist í raunheiminum og myndin sjálf er vönduð, athyglisverð en í grynnri kantinum og tekur aðeins of stórar sveiflur í flæðinu. Hún er þó vel þess virði að mæla með og með þessu áframhaldi getur maður farið að efast sterkt um að Affleck muni nokkurn tímann ekki vanda sig fyrir framan og aftan vélarnar sínar.


Besta senan:
Sími. Panikk. Goodman og Arkin.

Ein athugasemd við “Argo

Sammála/ósammála?