Cloud Atlas

„Til hvers að hafa bíógeirana yfirleitt aðskilda í stað þess að mixa þá oftar saman?“

Þetta er sú merkilega spurning sem Andy Wachowski hefur opinberlega varpað fram.

Það er hægt að svara þessu auðveldlega og segja að ástæðan sé oftast sú að afrakstur þess að bræða saman ýmsar gerólíkar tegundir kvikmynda er vanalega bein áskrift að súper-óreiðu ef ekki er farið vandlega að verki. Þá meina ég MJÖG vandlega. Ég tala nú ekki um það ef ætlunin er að segja mismunandi sögur í mismunandi stíl, allar á sama tíma án þess að skipta þeim upp í staka kafla.

Þannig er einmitt Cloud Atlas-bókin (sem er stórkostlegur lestur), en það sem Wachowski-systkinin hafa afrekað í sameiningu með Tom Tykwer er að flytja kvikmyndagerð upp á glænýtt plan. Þessi vægast sagt einstaka „indí“-stórmynd brýtur fullt af reglum en semur sínar eigin á sama tíma, því öllum þeim bjánalega háu markmiðum sem hún setur sér er náð. Þetta er án efa með því metnaðarfyllsta sem ég hef séð. Punktur.

Í einum tæplega þriggja tíma ofurpakka er boðið upp á tvær (tæknilega séð þrjár) períódumyndir, samsærisþriller, breska „fílgúdd“ gamanmynd, dökka vísindaskáldsögu og eftirheimsendamynd. Ekki nóg með það að hver og ein einasta mínúta í þessari mynd er grípandi og útlitslega óaðfinnanleg – frá kvikmyndatöku til hönnunar – heldur stökkva leikstjórarnir þrír beint ofan í djúpu laugina með því að klippa reglulega á milli þessara ólíku tóna, sem í röngum höndum hefði getað misheppnast með skömmustulegum árangri að lágmarki.

Cloud Atlas nær þessu markmiði með svo ótrúlega sterkri nákvæmni í tengingu sagnanna. Almennt tel ég myndina í allri sinni dýrð vera ótvíræðan stórsigur á alla fronta en galdurinn liggur aðallega í útpældri uppbyggingu, BRILLIANT klippingu og snilldartónlist sem gefur myndinni magnað flæði. Aldrei líður manni eins og þetta séu margar litlar myndir í einni, heldur ein gígantísk ræma; djúp, falleg, sorgleg, bráðfyndin, spennandi og í rauninni bara allt. Ég væri til í að nota orðið tilfinningarússíbani ef myndin væri ekki svo miklu meira en það. Vissulega hljómar það eins og hæperból af verstu gráðu, og trúlega hittir myndin á kolvitlausa hnappa hjá sumum. En ef þú kannt að meta allt sem hún gerir þá ætti þér að öllum líkindum að finnast hún MÖGNUÐ.

Tengingarnar eru alls staðar. Þetta er bæði slagorð markaðssetningarinnar og grundvallarpunktur myndarinnar. Þessum skilaboðum er hamrað svo ákaft ofan í mann út lengdina, en af góðri ástæðu. Myndin er svo vandlega samsett og breið að ég er viss um að ég eigi ennþá eftir að uppgötva nýjar tengingar eftir 5 eða 6 áhorf. Cloud Atlas er alls ekki flókin mynd ef maður sýnir henni einungis þá kurteisi að fylgjast með henni alla leið, en hún er pottþétt ein af þessum myndum sem verður betri og betri því meira sem ég hugsa um hana og ræði. Sjálfur vildi ég helst sjá hana tvisvar til að geta metið hana almennilega. Maður drekkir svo miklum upplýsingum í sig í fyrsta áhorfi að litlu hlutirnir geta auðveldlega farið framhjá manni.

Ég varð ástfanginn af myndinni eftir fyrsta gláp en áður en langt var liðið á annað áhorfið vissi ég að ég væri að horfa á brautryðjanda-meistaraverk sem fólk á eftir að ræða mikið um og stúdera á komandi árum, hvort sem það elskar hana eða fyrirlítur. Þeir sem eru annars ekki dottnir inn í hana eftir hálftíma geta allt eins bara skellt sér í útifötin og leyft þeim sem vilja alvöru meðlæti með bíóinu sínu að njóta sín í friði. Cloud Atlas er sérstaklega gerð fyrir bjartsýna kvikmyndaunnandann í öllum, matreidd af þremur leikstjórum sem elska fyrst og fremst kraft kvikmyndatöfranna og hún er unnin af svo sjúkri fagmennsku og hjartaknúsandi umhyggju fyrir efninu. Fæddir fýlupúkar og þurrkuntur sem njóta þess að ofnota orðið „pretentious“ eiga ekkert erindi inn á verk sem hefur svona sterka sál. Ég verð hreinlega bara über lúmskt að vorkenna þeim sem finna sér ekki tengingu við mynd sem gengur svona mikið út á lífið sjálft, og þ.á.m. ástir, vináttu, von, frelsi, hugrekki, auðkenni og mikilvægi listaverka (bækur, tónlist, kvikmyndir) svo nokkuð sé nefnt.

Klassíska Wachowski-spekin er ekkert byltingarkennd en samsetningin og sömuleiðis stærðin á öllum striganum er það sem leyfir henni að tala til heimsins og fjölbreytta fólksins sem tilheyrir honum… en aðeins þeim sem gera vissar bíókröfur. Ég er ekki manneskja til að slá höndina við bíómyndum sem hugsa öðruvísi, eru framúrskarandi, þýðingarmiklar og tilfinningalega opnar. Cloud Atlas er blanda af þessu öllu, en hræðist þess heldur ekki að leyfa sér að vera yfirdrifin og kjánaleg með bestum hætti.

Leikstjórateymið sér til þess að halda kjarnanum á floti án þess að missa hraðann og er hvergi sena eða myndarammi sem fer til spillis á þessum 170 mínútum. Svo má ekki gleyma leikurunum, en þeir eru efni í heila ritgerð út af fyrir sig. Ég lýg því ekki. Venjulega finnst mér erfitt að sleppa því að tala um þá leikara sem standa upp úr, en til að spara einhæfar efnisgreinar læt ég það nægja að segja að sjaldan sér maður svona stórkostlegt leikaralið nýtt eins mikið til þess ítrasta. Það er enginn sem á ekki heima í hópnum og fjölbreytnin sem og þessi magnaða (en væntanlega umdeilda) förðun sem þeir ganga í gegnum gefur orðinu dirfska uppfærða merkingu.

Förðunin er sömuleiðis efni í langan pistil, en ég gæti hvort eð er sjálfur skrifað 50 blaðsíður um svona massífa mynd ef þetta snýst um að tína út hvern kost út af fyrir sig. Það sem ég fíla samt best við þessa einstaklega sérkennilegu förðun er að hvert gervi er úthugsað. Sumir leikarar eru faldir (fylgist með kreditlistanum, í guðs bænum) en yfirleitt viljandi er ætlast til að áhorfandinn sjái hver er hver upp á heildartenginguna að gera. Þetta er vissulega furðuleg sjón stundum en kemur aldrei illa út. Þessi rótering á leikurunum er alveg jafnmikill stórsigur fyrir þessa mynd og tæknivinnslan og samsetningin, og eitt af mörgum dæmum af hverju hún er alveg ein sinnar tegundar.

Cloud Atlas er kannski ekki allra en ég held að það sé ekki manneskja í þessum eða næsta heimi sem getur ekki kallað hana aðdáunarverða. Wachowski-systkinin hafa aldrei tekið stærri og þroskaðri skref, og Tykwer að sjálfsögðu líka, sem ég hef áður verið voða mishrifinn af. Íðilfagri Atlas-sextettinn sem hann samdi bætir samt upp fyrir hans slökustu myndir. Wachowski-Tykwer þrenningin er samt mögnuð að því leyti að hún sýnir að þrír leikstjórar geti haldið utan um eina sýn án þess að lenda í þessari klassísku bransapólitík þar sem einn gerir meira en annar. Onei, þetta er allt unnið í þeirra sameiningu og ég get varla undirstrikað það nóg hvað þau mega vera stolt af niðurstöðunni. Myndin er svo langt á undan sinni samtíð og flestir sem borga sig glaðlega inná ófyndnar grínmyndir eða fjöldaframleitt léttmeti eiga flestir eftir að bora í nefið við tilhugsunina um hana.

Leikstjórarnir hafa í rauninni best sagt þetta sjálfir. Þeim langaði til að gera mynd sem væri ólík öllu öðru sem sést hefur en þyrfti á sama tíma að minna á þær tegundir kvikmynda sem þeir höfðu margsinnis horft á (stórar, fallegar myndir með sterkum skilaboðum). Tríóið vildi hasar, drama, rómantík, brómantík, pólitískt gildi, meiri hasar og sögu sem gerðist í fortíð, nútíð og framtíð og tilheyrir ólíkum bíógeirum. Samnefnda bók Davids Mitchell kom þarna eins og kölluð og úr þessu varð ótrúleg aðlögun.

Það að takast þetta er með miklum ólíkindum, það að Cloud Atlas hafi verið gerð fyrir rúmar 100 milljónir með þekktum leikurum er ólýsandi árangur. Svona draumórar heppnast alltof sjaldan og fyrir mitt leyti er þetta langbesta mynd sem ég hef séð árið 2012 og þó snemmt sé að segja gæti hún alveg setið uppi sem ein af betri og merkilegri myndum áratugarins.

ficht
Besta senan:
Get ekki valið aðeins eina, eða jafnvel fjórtán. En James D’Arcy grenjandi yfir baðkari dugði mér ósköp vel.

4 athugasemdir við “Cloud Atlas

  1. Stórtkostleg mynd, epískt meistaraverk. Eftir að maður sá hana gat maður ekki hægt að hugsa um myndina sem er ótrúlega stór kostur, ég var enn þá týndur inn í myndinni löngu eftir að vera kominn heim!

Sammála/ósammála?