Flaggað í hálfa stöng

Ó, hvað tímarnir hafa breyst. Þegar þessi játning er skrifuð hef ég verið að fitla við kvikmyndatengd skrif í rúmlega ellefu ár og síðan 2004 verið einn af aðalumsjónarmönnum á stærstu vefsíðu landsins sem sérhæfir sig í mínu heittelskaða hobbýi, eða sérhæfði réttara sagt.

Fyrir stuttu síðan var mér sagt upp sem ritstjóra Kvikmyndir.is. Þetta var reyndar það fyrirsjáanlegasta sem nokkurn tímann gat komið upp, enda voru eigendur vefjarins búnir að ákveða að fara með hann í meira „commercial“ áttir, eins og að vera með aukna umfjöllun á frægt fólk og meira streymandi flæði á hlutlausum fréttum.

Skal taka nokkur dæmi:

Ánægð með umhverfisvænt kynlífsleikfang

Gloria fær mömmu í heimsókn

Stríðsástand í Modern Family

Saklaus Bynes?

Tatum er kynþokkafyllsti maður í heimi

Meira mainstream og minna af nördum, má segja. Skiljanleg stefna svo sem, a.m.k. ef ætlast er til þess að hafa einhverjar tekjur af síðu eins og Kvikmyndir.is. Ég var samt aldrei nógu ánægður með stefnuna sjálfur, og heldur ekki pennarnir sem voru ágætlega lengi undir minni ritstjórn. Eitt af því sem ég var svo ánægður með var persónuleikinn sem var farinn að myndast á vefnum í gegnum 5-6 penna sem allir höfðu ólíkan ritstíl og mismunandi skoðanir. Í sinni núverandi mynd finnst mér vanta allan sjarma á síðuna og ég vissi að það ætti ekki eftir að breytast svo lengi sem „nördisminn“ væri ýttur til hliðar. Þess vegna tók ég þá ákvörðun að yfirgefa síðuna. Mér var boðið stöðu að vera stjórnandi áfram, en ég taldi mig vera að svíkja lit ef ég myndi ekki berjast fyrir bíónördann. Mín vinna hófst líka sem hugsjónarstarf, ekki til að vera partur af pressu-rekstri með innbyggðum slúðurpakka.

Að slíta mig frá Kvikmyndir.is nafninu er ein skrítnasta ákvörðun sem ég hef tekið, en jafnframt ein sú besta. Planið samt núna er að sitja ekki auðum höndum, sérstaklega þar sem enn eru flinkir og fínir pennar sem eru í leit að bíóvef til að moka skoðunum sínum inná. Það geta svosem allir stofnað blogg, en í alvörunni, hversu leim er það? ;)

Kvikmyndir.is er óneitanlega orðinn stór partur af persónuleika mínum og lífi. Ég hef haldið utan um vefinn, notið hans og ræktað lengur heldur en ég hef nokkurn tímann stundað sambúð með kvenmanni. Það sem byrjaði sem áhugamál endaði síðar á því að breytast í hluta af lifibrauði mínu og á endanum lykilmarkmið sem ég ákvað að setja mér: að skapa fjölbreytt og skemmtilegt athvarf fyrir íslenska kvikmyndaáhugamanninn, þar sem hann gæti rætt um og rifist við aðra einstaklinga af sömu tegund (því það er svo gaman, ekki satt?). Það er reyndar bara brot af markmiðinu og burtséð frá því að geta notið góðs af vefsíðu, sem vonandi væri rekin af auðséðum áhuga, vildi ég líka geta boðið uppá Blu-Ray/DVD leiki og, mitt persónulegt uppáhald, forsýningar:

Kvikmyndir.is forsýningar eru/voru elskulegar gjafir sem vefurinn átti til gefa notendum sínum, þótt hafi verið borgað fyrir þær (en það kostar líka morðfjár að halda þetta). Tilgangur þeirra var annars að sameina íslenska kvikmyndaáhugamenn og mynda góða og þétta stemmningu yfir (vonandi) traustum myndum sem boðið var upp á. Upplifunin er allt og gott getur oft orðið betra þegar flestir í salnum hafa brjálaðan áhuga á því að vera þarna. Þetta hefur sést á sýningum sem haldnar voru á myndum eins og Inglourious Basterds, District 9, Kick-Ass, Inception, Scott Pilgrim, Jackass 3D, Expendables (1 & 2), Super 8, Harry Potter (7 & 8 saman), Captain America, Tintin, The Dark Knight Rises og Looper svo eitthvað sé nefnt. Það má alveg færa rök fyrir því að þetta séu allt toppmyndir, ef ekki þá ekta stemmaramyndir.

Kick-Ass (apríl 2010) – Búningakeppni á undan
Inception – (júlí 2010) – jakkafataþema + kynnir og happdrætti f. sýningu

Scott Pilgrim (ágúst 2010) – happdrætti á undan sýningu

Deathly Hallows (p1 og p2 saman – júlí 2011) – búningaþema!

The Dark Knight Rises (júlí 2012) – búningakeppni!


Ef þú, yndislegi lesandi, hefur farið á flotta Kvikmyndir.is forsýningu (eða Nexus-sýningu, þær eru yfirleitt betri, fyrir utan það að mitt úrval af bíótitlum hefur oftast verið breiðara) þá veistu örugglega hvað ég er að tala um. Ég valdi yfirleitt myndir til þess að sýna sem ég hafði áður séð og eingöngu þær myndir sem mér fannst góðar og taldi líklegt að stórir hópar gætu kunnað að meta. Það þótti mér mikilvægt. Ég reyndi semsagt alltaf að sjá til þess að gæðin voru í fyrirrúmi. Auðvitað voru bíógestir ekkert alltaf sammála mér en það er hvort eð er mikilvægur partur af áhugamálinu; að rökræða og vera ósammála.

Ég elskaði þessa eventa jafnmikið og hægt er að elska gott bíó og mig langar að halda áfram að bjóða upp á þá. Þetta vefst allt saman inn í framtíðarplanið mitt ef allt gengur vel. Í bígerð núna er glæný kvikmyndasíða sem mun vera rekin á sömu forsendum og „gamla“ Kvikmyndir.is. Hún verður ódýrari, smærri, kannski (en vonandi ekki) ljótari en markmiðið mun vera það að geta gefið íslenska kvikmyndaáhugamanninum eitthvað sem hann finnur ekki á mörgum öðrum innlendum síðum. Annaðhvort veit ég nákvæmlega hvað ég er að gera, eða ég er að verða gamall. Ég er samt á sama aldri núna og upprunalegu snillingarnir sem stofnuðu Kvikmyndir.is, áður en þeir seldu vefinn í kringum 2007.

Teinarnir eru lagðir, hópurinn er samansettur og áhuginn hefur aldrei verið meiri! Loforð mitt er samt að reyna að standa undir væntingum og gera eitthvað töff. Ef lesendur gefa þessu séns og sýna því stuðning er ótakmarkað hvað við getum gert í sameiningu.

Sjáumst svo inná nýja bíóvefnum.

Kv.

PS. Það er til haugur af fleiri ljósmyndum. Kannski ég stilli þeim öllum upp einhvers staðar.

5 athugasemdir við “Flaggað í hálfa stöng

 1. Ég hlakka til, líst ekkert smá vel á þetta. Ég hef alltaf farið reglulega á Kvikmyndir.is en þessi nýja stefna er alveg að drepa stemminguna. Einu sinni fór maður og las kommentin og svona á henni en núna finnur maður þau ekki lengur fyrir fréttum af því að Ariel Winter sé Dóra landkönnuður. Þannig að, það vantar svona síðu og gangi þér vel.

 2. Þetta eru góðar fréttir! Þvílik vonbrigði sem það eru að kíkja á kvikmyndir.is núna. Leiðinlegt að segja það, síða sem ég hef heimsótt bókstaflega daglega í 4-5 ár.
  Og eins og var sagt hér áður, maður var vanur að skoða kommentin líka, þekkist ekki lengur.
  Það er eins gott að þú sert að stefna á nýja síðu! Búinn að vera bíða eftir þessari frétt svipað mikið og að frétta hver mun leikstýra nýju Star Wars.
  Annars óska þér góðs gengis og bíð spenntur eftir nýju síðunni. Ég held ég geti lofað þér því að bíónördarnir sem sakna gömlu kvikmyndir.is séu ekki að hafa áhyggjur af því að ný síða muni líta ódýrari út eða eitthvað slíkt, það er innihaldið sem skiptir!
  Kominn tími til að svarthöfði fái alvöru samkeppni.

  Lengi lifi bíónördinn!

 3. Helvíti góðar fréttir! Var orðinn brjjálaður af þessum slúður fréttum sem tóku yfir Kvikmyndir.is.

  Bíð spenntur eftir þessari síðu :)

Sammála/ósammála?