Ruby Sparks

Hey, ég veit! Tökum þrjár æðislegar, frumlegar gamanmyndir með dramatísku ívafi og hrærum þeim saman til að sjá hvað kemur út úr því. Ef tekst vel að bæta við sérstæðum persónuleika er ekkert sem segir að það getur ekki gengið upp. Ruby Sparks er vel skrifuð og metnaðarfull samblanda af Stranger Than Fiction, Adaptation og (500) Days of Summer, sem allar eru í miklu uppáhaldi mín megin. Það er ekki vont að vera með tvær brilliant myndir og eina mjög góða sem fyrirmynd þegar tilraunin er svona einlæg og (eins og mátti kannski búast við) furðuleg. Þetta er ein af óvæntari „litlu“ myndum ársins en að sama skapi veldur hún örlitlum vonbrigðum á síðustu skrefunum. Ég sætti mig samt við þann galla því hún er vel þess virði að sjá.

Það er orðið nokkuð langt síðan leikstjórahjónin Valerie Faris og Jonathan Dayton sendu frá sér Little Miss Sunshine, sem er mynd sem hefur verið töluvert oft spiluð á mínu heimili. En síðan 2006 beið ég spenntur eftir að sjá hvort þessi skötuhjú gætu búið til sambærilegan gimstein aftur og persónulega finnst mér Ruby Sparks vera alls ekki langt frá því að vera yndisleg mynd með langt líf framundan á meðal þeirra sem sjá sannleikann í henni. Leikstjórarnir ná flottum tökum á fersku en undarlega gölluðu handriti og haldið er þétt utan um gott flæði með sterkt tillit til leikarasamspils, sem skiptir öllu í þessari sögu. Sem betur fer vill það líka til að stelpan sem skrifaði handritið reynist vera skrambi góð leikkona í titilhlutverkinu.

Zoe Kazan er enn af óþekktari gerðinni, fyrir utan það að vera barnabarn leikstjórans Elia Kazan. Það eina sem ég mundi eftir henni úr var lítið hlutverk í Revolutionary Road (þ.e. krúttlega viðhaldið sem sást á búbbunum) og It’s Complicated sem partur af þreytandi tríói. Henni hefur annars tekist að sýna fyrirtaks merki um frumkvæði með því að skrifa býsna snjallt og þýðingarmikið handrit þar sem hún eignar sér titilhlutverkið. Það skaðar heldur ekki að akkúrat þetta hlutverk býður upp á mikla fjölbreytni og tileinkar hún sér það alla leið (og ég vissi ekki einu sinni að hún væri handritshöfundurinn fyrr en eftir að ég sá myndina). Ef Ruby hefði ekki virkað, þá hefði myndin strax dáið. Og ef Kazan hefði ekki átt svona gott samspil við viðkunnanlega furðufuglinn hann Paul Dano, þá hefðu mikilvægustu og erfiðustu senurnar dottið alveg í sundur.

(þau Kazan og Dano eru saman í raun, fyrir þá sem ekki vita – sem vekur upp spurningar um hversu margt af því sem sést er tekið úr alvöru lífi þeirra)

Dano er hæfileikaríkur en ekki sá fjölbreyttasti sem til er. Bestur er hann yfirleitt í aukahlutverkum en hér kemur hann hrikalega vel út sem mjög gallaður einstaklingur sem erfitt er að halda upp á (viljandi gert, að sjálfsögðu). Það besta sem handritið býður upp á er þessi stúdering sem er tekin á mismunandi stig sambanda sem og mismunandi týpur af samböndum. Kazan gerir sér sérstaklega grein fyrir því hvernig annar aðilinn getur verið stjórnsamari en hinn og hér er ýkta dæmisagan tekin upp á allt annað level (sérstaklega þegar annar karakterinn gerir átakanlegar tilraunir til þess að „laga“ sambandið). En þótt fantasíukennd sé tapar hún aldrei auganu fyrir raunsæjum skilaboðum. Sambandskrufningin er virkilega góð, enda jaðar myndin við það að vera skylduáhorf þangað til cirka 20 mínútur eru eftir af lengdinni. Þá velur hún ódýru leiðina út og fer í mjög dæmigerðar, ófullnægjandi áttir, eins og hún þykist vera dýpri en allur fyrri helmingurinn gaf til kynna. Myndin verður eiginlega bara frekar „smögg“ og tilgerðarleg í lokaköflunum, þó svo að hún reyni að afsaka sig, hvort sem má túlka það beint eða óbeint.

Ruby Sparks situr uppi sem skemmtileg, nútímaleg fantasía sem segir sannleikann beint út án þess að berja hann ofan í mann. Það er margt í myndinni sem fólk getur tengt sig við og er nálgunin á efninu þægilega létt en hræðist þess heldur ekki að daðra við skugganna þegar á líður. Traust mynd, en leikstjórarnir hefðu átt að plata Kazan í að endurskrifa stóran hlunk í seinasta þriðjungnum.

PS. Fær Steve Coogan aldrei leið á því að vera endalaust ráðinn í sama skíthælahlutverkið?

Besta senan:
Stjórnsemi í orðsins fyllstu merkingu. Skerí sena. Myndin nær sér aldrei aftur upp eftir þetta atriði.

Sammála/ósammála?