Breaking Dawn: Part 2

Það er ekki fyndið (eða jú, það er reyndar mjög fyndið) hvað þessi Stephenie Meyer þykist vera sniðug þegar hún gengur svona svaka langt með yfirnáttúrulega ímyndunarafl sitt. Best hefði verið ef Twilight-serían hefði aldrei grætt svona mikinn pening því „rithöfundurinn“ taldi sig trú um það með vinsældum bókanna að hér væri eitthvað dýrmætt í höndunum. Ef þetta á ekki að vera snjöll og drepfyndin ádeila til að gabba gelgjur í það að opna buddurnar sínar þá er ég viss um að konan tali akkúrat öfugt tungumál við mig ef orð eins og töff, rómantískt eða grípandi eiga að fylgja þessu. Glitrandi blóðsugur, lúðalegir varúlfar og „codependant kvenhetja“ var einungis byrjunin. Málin versnuðu með stefnulausum ástarþríhyrningi, enn meiri tussuskap og hlægilegum skírlífsboðskap. Breaking Dawn sagan í allri sinni dýrð trompar allt þetta með öskrandi skilaboðum gegn fóstureyðingum, fjölgandi staðalímyndum og krípí undirtónum í tengslum við samband fullorðins drengs við ungabarn/litla stelpu.

Fjórar bækur. Fimm myndir. Þeir sem bera virðingu fyrir úthugsaðri hugmyndasmíði, rit- og frásagnarlist geta aðeins þolað x mikið hormónarugl í einu þegar grunnurinn er svona fínn. Lógískt séð á það að vera kúl að blanda saman varúlfum og vampírum. Er það virkilega svona erfitt??

Best skal orða þetta svona: Breaking Dawn: Part 1 var ekki beinlínis ein af mínum uppáhaldsmyndum frá árinu 2011 og Part 2 er hvorki verri né skárri. Að vísu eru persónurnar allar orðnar (sem betur fer!) aðeins þroskaðri og þar að auki gerist meira í henni en í öllum hinum myndunum til samans, en sjálfsagðara gerist það samt ekki ef þetta á að heita lokamyndin. Eins og með allar hinar myndirnar þá tekur þreytulega langan tíma að koma öllu í gang en í þessari lotu er loksins eitthvað „payoff“ sem skilar sér í formi hasars og átaka sem eru ekki afgreidd á aðeins tveimur mínútum. Part 2 býður upp á bandvitlausan, hallærislegan en samt nokkuð skemmtilegan lokabardaga þar sem skepnur hegða sér loksins eins og skepnur. Þessi atriði vekja upp góða tilfinningu í smástund þangað til mottunni er síðan snöggt kippt undan manni með ógeðfelldri úrlausn í lokin. Fyrr á árinu upplifði ég svipaða tilfinningu með Savages, nema hér er svindl-pirringurinn toppaður með fullu afli. Þeir sem hafa séð Savages hljóta að gera sér grein fyrir því hversu stór orð þetta eru.

Meyer er einfaldlega bara glataður sögumaður sem hafði líklegast ekki hugmynd um hvernig væri best að enda seríuna sína. Ef marka má sögusagnirnar þá endaði Breaking Dawn-bókin víst á lágstemmdari nótunum, en það gengur ekki upp að fara eins að í fokdýrri kvikmyndaaðlögun því óþarfi er að leyfa vondu að versna. Það var algjörlega skrefið í réttu áttina að bæta við rugluðum og þægilega ofbeldisfullum lokabardaga (þar sem hausar fjúka. Bókstaflega. Oft!), ef ekki bara til að dæla örlitlu fjöri í steindauða stemmningu. En svo eftirá tekur við ein versta ákvörðun sem hefur verið tekin frá því að fyrsta myndin fór í framleiðslu. Ég tek vægt til orða þegar ég segi að Meyer, sem framleiðandi myndarinnar, hafi gert ofsalega ódýra tilraun til þess að ganga ákveðinn milliveg, með því að vera trú bókinni sinni en á sama tíma reyna að þóknast mainstream-bíógestum. Að myndinni lokinni gat ég ekki verið fegnari yfir því að þessi aulasaga væri búin, þótt þetta hafi reyndar ekki verið neitt minna en glitrandi, perralegt miðjumoð.

Kristen Stewart er ekki orðin betri í hlutverkinu en þó smávegis líflegri, sem er eðlilegt miðað við persónuþróun hennar í byrjun sögunnar núna. Taylor Lautner heldur í hefðina með því að eiga fyndnustu senuna í hverri einustu mynd – nema fyrstu. Hann reynir það sem hann getur til að selja smekklegu ást sína gagnvart kornungri stelpu á meðan Robert Pattinson hefur aldrei brosað jafnoft í allri seríunni, sem er stórmerkileg þróun hjá þeim báðum í samanburði við fyrstu myndirnar. Tríóið er í heild sinni töluvert skemmtilegra núna en áður og aukaleikararnir eru áfram sprækir og pínu skemmtilegir (en bara þessir föstu, ekki þeir sem leika stereótýpur). Sem fyrr bera Peter Facinelli og Billy Burke mest af, en einhverra hluta vegna ná þeir best til mín og hafa alltaf gert. Ég hef einnig lengi kunnað við Kellan Lutz, því það er alltaf eins og hann geri sér grein fyrir því hversu mikil steypa þetta er. Michael Sheen gerir síðan það sem hann er farinn að sérhæfa sig svolítið í: að ofleika eins og það sé honum annað tungumál. En ofleikandi Michael Sheen er svosem betri en enginn Michael Sheen.

Það er auðvelt að skilja það að öllum finnist gaman að telja peninga. Framleiðendur Twilight-seríunnar mega eiga það að kunna að sópa til sín seðlum áreynslulaust. Markhópurinn étur sögurnar upp með glampa í augum og með því að gefa út eina bíómynd á ári síðan 2008 er séð til þess að áhuginn haldist ferskur með svona stuttu millibili. Það er eins og aðstandendur átti sig á því að aðdáendur geti hvenær sem er fengið leið á þessu og með því að gera hverja mynd á rétt svo ári er ávísun á nokkuð óvönduð vinnubrögð, enda serían drukknandi í þeim. Leikstjórarnir sem hafa tekið þátt í þessari tískubólu hafa t.d. allir sýnt útliti myndanna lágmarksáhuga en almennt séð hafa myndirnar þeirra verið fljótt unnin verk og auðfenginn launaseðill. Mér finnst líka ótrúlegt hvernig fjárhagsplanið hækkar alltaf með hverri mynd en samt verða tæknibrellurnar alltaf lélegri og lélegri. Þær geta verið alveg hryllilegar hér. Tölvugerða andlitið á Renesmee-ungabarninu fær mann til að velta fyrir sér hvort leikstjórinn sé nokkuð með heilbrigða sjón. Varla hefði verið hægt að samþykkja skotin ef ástæðan er önnur.

Handritshöfundar hafa annars í fjölmarga áratugi þjappað stórum bókum í tveggja tíma bíómyndir. Það krefst bara smá vinnu að finna réttu formúluna. Harry Potter náði kannski að púlla þetta, en ekki þessi sería. Af innihaldi þessarar og síðustu myndar að dæma hefði alveg verið hægt að þjappa Breaking Dawn-söguna í eina kvikmynd, en það myndi þýða að of mikil vinna færi í það að skrifa metnaðarfulla aðlögun á stórri bók. Það kostar meira að gera tvær bíómyndir en handritsvinnan hefur eflaust orðið auðveldari fyrir vikið. Og augljóslega með því að gera tvær Breaking Dawn-myndir í stað einnar verða vasar framleiðenda ennþá dýpri. Sorglegt.

Part 2 drepur mann aldrei úr leiðindum og gefur manni ýmislegt til að hlæja að, en hverri góðri ákvörðun hjá leikstjóranum fylgir oftast ein margfalt verri (eins og að vera með handahófskennda, óreglulega voice-over notkun, sem poppar upp undarlega seint). En ég býst annars við því að allt sem fer í mínar fínustu er partur af öllu því sem aðdáendur taka léttilega í sátt. Réttast er bara að brosa til þeirra með kurteislegum samúðarsvip.

Besta senan:
Taylor Lautner afklæðist fyrir framan Billy Burke. Stórmeistari í sjálfsparódíu, þessi gaur!

2 athugasemdir við “Breaking Dawn: Part 2

 1. Sammál þér með að Meyer er ekki besti sögumaðurinn, endirinn í bókinni var einmitt of daufur en færði aðdáendum þetta ,,happily ever after“ svo þeir gætu lifað eftir að bækurnar kláruðust. Annars fannst mér endirinn í myndinni snilld
  VARÚÐ SPOILER
  þegar Carlisle hleypur í átt að Volturi og það *Gerist* veinaði ég næstum því ég vissi að endirinn var öðruvísi en þetta stefndi í harmleik
  svo kom hvert áfallið á eftir öðrum þangað til allt í einu sat ég í salnum í tómri þögn þar sem allir voru í annað hvort svo miklu áfalli eða dauðfegnir, when you see it…… you’ll understand
  Leikararnir voru að mínu mati bestir í þessari, Robert var kátur alla myndina og nánast enginn brúnaþungur svipur, Taylor lautner með sín dramatísku setningar pullaði þær betur þar sem hann fékk að vera oftar í fötum í þessari
  Stewart var „skárri“ en það er bara af því að mínu mati var hún hræðileg í part 1 og ég gerði engar væntingar til hennar
  Andlitið á vélmennabarninu var fáránlegt, alveg hægt að nota normal barn.
  Að lokum vil ég bara segja að fyrir aðdáendurna þá var fínt að skipta bókinni í tvennt því þá komu öll fínu detailinn í myndirnar í stað þess að klippa allt út eins og þeir gerðu með nánast allar Harry potter myndirnar (nema 2 síðustu).
  Að mínu mati ágætasta umfjöllun og með þeim skárri

Sammála/ósammála?