Silver Linings Playbook

Aldrei bjóst ég nú við því að David O. Russell, yfirleitt álitinn einn reiðasti og erfiðasti maðurinn í bransanum, myndi nokkurn tímann eiga svona svakalega sterka „fílgúdd-mynd“ í sér (mynd sem reyndar, kaldhæðnislega, gengur einnig töluvert út á það að hemla á bræðis- og geðsýkisköstum …) en hér gengur hann þá afskaplega fínu og viðkvæmu línu á milli húmors og alvarleika. Ég veit ekki alveg hvernig – mögulega með rosalega einbeittum tón, vel skrifuðu handriti og stórskemmtilegum leikurum – en hér hefur tekist að búa til heldur „edgy“ rómantíska gamanmynd sem gengur fyrst og fremst út á persónurnar í staðinn fyrir formúlurnar. Tónaskiptingin er ekki alltaf fullkomin en sama hvað ég reyndi mikið að streytast gegn geðveiku töfrum hennar þá er Silver Linings Playbook bara nokkuð mikið æði og hálfgerður höfðingi innan síns geira.

Fyrirsjáanlega uppskriftin er vel til staðar, eðlilega, en unnið er reglulega gegn henni með ofurjákvæðum hápunktum, þá bæði meinfyndnum atriðum sem og ótrúlega hjartnæmum, sem hvort tveggja eru óvenjulega góðir kostir fyrir mynd af þessari tegund. Kannski er þetta óhjákvæmilegur afrakstur þess þegar þaulreyndir leikstjórar, sem leggja mikið upp úr því að vanda sig, taka sinn snúning á formúlukenndasta geira sem til er. Russell tæklar nefnilega þessa mynd með afar svipuðum hætti og þegar drama- og spennufagmaðurinn Edward Zwick gerði (hina gríðarlega vanmetnu) Love & Other Drugs, þar sem raunsæ og áhugaverð samskipti „gallaðra“ aðalpersóna taka athyglina af hefðbundna strúktúrnum. Rómantískar gamanmyndir rista yfirleitt mjög grunnt og tína oftast bara hráefni sín af hillunni í leit að sápukúluléttmeti en Playbook hefur hins vegar eitthvað mikilvægt að segja. Hún er ekki sú djarfasta í heimi en klárlega sú besta sinnar tegundar sem ég hef séð síðan Drugs kom út. Svipaðar myndir en samt svo gerólíkar.

Russell er oftar en ekki hrifinn af óaðlaðandi hverdagsleika og að geta skellt því saman við mynd sem hefði léttilega getað orðið miklu geldari verður að teljast vel að verki staðið. Samtölin eru flest mjög góð en það sem betra er að leikararnir móta þrívíðar persónur sem manni verður frekar mikið annt um. Bradley Cooper virðist vera nokkuð meðvitaður um hversu skemmtilegur og sjarmerandi hann getur verið, en þegar hann er rétt nýttur er fáránlega gaman að hafa hann. Í Silver Linings Playbook hefur hann tekið við einu besta hlutverki sínu frá því hann byrjaði, sem hefur líklega eitthvað með það að gera að hann spilar óaðfinnanlega með þá styrkleika sem hann veit að hann hefur. Cooper getur verið afbragðsgóður sem sjálfhverfur aumingi, ónýtur hvolpur, gallaður ljúflingur og sömuleiðis viðkunnanlegur töffari. Þessar lýsingar eru allar mjög breytilegar og léttilega má endurraða orðunum, en hvað ferilskrá varðar eru fáar myndir sem leyfa honum að gera eins mikið í einu. Það segir líka heilmikið um hina dásamlegu og brjálæðislega kynþokkafullu Jennifer Lawrence þegar sést svona greinilega að hún er jafningi Coopers að öllu leyti, ef ekki betri.

Það er eitthvað við Lawrence sem mér þykir bara eitthvað svo ómótstæðilegt. Hún kann auðvitað að leika en lýsir alltaf upp rammann með meira en einungis flottum líkama og sannfærandi tilþrifum. Hún hefur oftast góðan persónuleika og mikla útgeislun. Kemistrían á milli hennar og Coopers virðist líka virka að mörgu leyti vegna þess að myndin hoppar aldrei beint með þau út í ástarsamband. Aðall sögunnar liggur í því hvernig vinasamband þeirra styrkist í gegnum ákveðna baráttu við geðraskanir. Að megninu til eru hlutirnir á platónísku nótunum og með þeirri taktík hitna hlutirnir enn meira á milli þeirra. Aukaleikararnir taka samt stóran þátt í því að gera myndina frábæra, einna helst Robert De Niro (sem hefur ekki verið svona góður bara… MJÖG lengi), Jacki Weaver og John Ortiz. Síðan er merkilegt að loksins tókst einhverjum að finna Chris Tucker, eftir öll þessi ár, og hann er bara nokkuð skemmtilegur þegar hann fær gott handrit og kann að hafa hemil á sér. Merkilegt það.

Það er alltaf eins og Silver Linings Playbook sé að reyna að ganga þá línu að vera bæði mainstream-mynd handa klisjusjúka markhópi sínum en líka eitthvað örlítið bitastæðara til að ganga í augun á kvikmyndaáhugamönnum. Trikkið er mjög erfitt og þegar liðið er á seinni helminginn verður hún aðeins dæmigerðari en aldrei missir hún heilasellurnar eða dampinn. Þvert á móti verður hún e.t.v. ánægjulegri og meira fullnægjandi því meira sem klisjum fjölgar, því handritið finnur sér oftast leiðir til að lífga aðeins upp á þær. Það er líka auðveldara að afsaka svona standard hefðir þegar sagan heldur athygli manns og skjáparið hefur allan stuðning áhorfandans.

Myndin fékk mig til að hlæja oftar en ég bjóst upphaflega við og greip þéttar utan um sálina en ég þorði að ímynda mér fyrir fram. Svona rómantísk gamanmynd sem gerð er fyrir fullorðna og af manni sem virðist vita hvað hann er að gera er akkúrat fyrir mig. Það eru alltaf margar myndir í þessum geira sem þykjast stefna svo hátt en vita síðan ekkert hvað snýr upp eða niður þegar kemur að útfærslunni. Þessi á skilið að vera kölluð geðveik í fleiri en einni merkingu og hún er bara djöfull sátt með það.

atta
Besta senan:
Stóra veðmálið sett í gang. Og danskeppnin!

3 athugasemdir við “Silver Linings Playbook

  1. Hér er ég gjörsamlega sammála þér, vissi ekkert hvað ég væri að ganga útí þegar ég fór að sjá þessa mynd og hún kom ansi skemmtilega á óvart.

  2. Sammála Villa og Tomma! Mynd sem maður býst ekki við neinum hlutum af en slær svo skemmtilega í gegn.

  3. Sammála! :)

    Skemmtilega öðruvísí fílgúd-mynd sem fékk mig til að brosa stanslaust í heilan dag :)

Sammála/ósammála?