Safety Not Guaranteed

Ég veit ekki alveg hversu margir muna eftir myndinni K-PAX, en þar var á ferðinni lágstemmt en notalegt drama sem kitlaði mann með „hugsanlegum“ sci-fi hugmyndum. Skrautleg en vinaleg persóna var kynnt til leiks og áhorfandinn átti stöðugt að spyrja sig hvort hún væri hálf geðbiluð eða í rauninni að segja sannleikann. Þessi sannleikur myndi þá opna söguna fyrir stærri hugmyndum og segja til um hvort myndin væri í rauninni dulbúin vísindaskáldsaga eða ekki. Fínasta mynd. Pínu sjarmerandi en einnig fyrirsjáanleg og auðgleymd. Safety Not Guaranteed er svona hálfpartinn eins og indí-útgáfan af K-PAX. Stefnan er svipuð en sagan öðruvísi.

Áhorfandinn sér þessa mynd í allt öðru ljósi þegar hann sér hana í annað skiptið, þ.e.a.s. þegar hann er þegar kominn með lykilsvarið í hendurnar, en það er nú reyndar ekki eins og það sé ekki frekar fyrirsjáanlegt nú þegar við fyrsta áhorf. Á blaði finnst mér þessi mynd vera fjandi fersk og skemmtileg, allavega hugmyndalega séð. Myndin í sjálfu sér heppnaðist ágætlega, fyrir utan það að vera ekki eins ómótstæðilega heillandi og hún vill og reynir að vera. Kannski hefði bara átt að taka aðeins flippaðri, hressari tón á söguna eða fara betur yfir handritið (sem hefði í rauninni átt að gera hvort eð er) því hún er hvorki nógu fyndin sem gamanmynd né nógu aðlaðandi sem indí-drama. Hún er afar einlæg, hugguleg og oft með húmor en samt var mér eitthvað svo merkilega sama um hana allan tímann og náði ég sjaldan tengingu við sérkennilegu persónurnar.

Aubrey Plaza er leikkona sem hefur lengi fangað athygli mína. Ég fíla hvað hún er hress… en þá án þess að vera hress. Að vera „deadpan“ virðist ekki bara vera helsti leikstíllinn hennar, heldur eina stillingin sem hún hefur, en hingað til hefur hún oftast kunnað að nota hana rétt. Í Safety græðir hún á því að vera með þokkalega skrifaðan karakter sem er tilfinningalega óljós – á góðan hátt, í stað þess að vera bara einhver liðsauki. Hún á líka fínan samleik við Mark Duplass (úr The League), þótt það vanti algjörlega neistann á milli þeirra. Það er líka lúmskt krefjandi að halda upp á þau sem einhvers konar par þegar sagan er með annan fótinn í því að reyna að fá mann til að halda að hann gæti verið sérvitur klikkhaus allan tímann. Merkin eru breytileg en a.m.k. ræður Duplass við pínu brothætt hlutverk. Aðrir leikarar eru fínir og ekki persónuleikasnauðir.

Myndin er einföld og fyllir svosem vel upp í þessar litlu 80 mínútur en eftir að hafa kíkt á hana tvisvar finnst mér voða erfitt að hundsa það að það er heill aukasöguþráður – sem er samt beintengdur við aðalsöguþráðinn – sem hangir alveg í lausu lofti í lokin. Þetta kemur karakternum við sem er leikinn af þessum Jake Johnson (helvíti er þetta einstakt nafn), gæjanum úr hinum ofmetnu New Girl-þáttum. Það fer frekar mikill tími í það að sýna samband hans við gömlu menntaskólaástina sína en svo á síðasta snúning er bara sagt skilið við þetta sub-plott án þessa loka því. Voða spes, eins og það vanti eitt eða tvö atriði í myndina.

Það er vel sloppið að geta gert mynd eins og þessa fyrir minna en milljón dali og það er í sjálfu sér mesta afrek hennar, en á meðan áhorfi stóð fannst mér vanta meiri hnyttni, meiri sjarma og meiri óútreiknanleika.

fin

Besta senan:
Þetta með eyrað. Nokkuð ljúft móment.

Sammála/ósammála?