http://biofikill.com/2012/11/29/killing-them-softly/

Killing Them Softly

Það er ekki hægt að segja það nógu oft: Brad Pitt verður stöðugt betri leikari með árunum, sem er alls ekki leitt fyrir kauða í ljósi þess að hann hefur staðið sig vel yfir mestallan ferilinn, með aðeins útvöldum undantekningum. Ég geri samt ráð fyrir því að „þroskaðri“ sé rétta orðið, því einhvern veginn tekst honum að gera meira við minna þegar hann er vopnaður áralangri reynslu á miðaldrinum.

Mér finnst erfitt að mæla ekki með Killing Them Softly út af þremur ástæðum.
Númer eitt: Pitt túlkar leigumorðingja sem sinnir starfi sínu með léttvægum pirringi eins og hverri annarri vinnu af heilmikilli sannfæringu. Hann er í alvörunni nokkuð frábær, og svalur! Leikhópurinn í kringum hann er kannski ekki af sama stjörnuskalanum, en fantafínn engu að síður. Ástæða númer tvö: Myndin finnur oft húmor í heilmiklum ljótleika. Og númer þrjú: Hápunktarnir eru nokkrir með þeim betri sem ég hef séð á árinu. Restin er algjört aukaatriði, eins og t.d. innihaldið, eða undarlega mikill skortur á slíku. Myndin hefur margt skemmtilegt að segja en það þarf aðeins meira en tennur og reiði til að grípa þétt utan um áhorfandann. Myndin er samt góð yfir heildina; Köld, dökk, brútal, beinskeytt og vel skrifuð í samræðum en atburðarásin er ekkert sérlega spennandi, sumir leikarar eru vannýttir og myndin dílar við að halda erfiðu jafnvægi með því að hlaða sig með efnahagsskilaboðum og svartsýnni tilgerð. Ég þoli ekki að nota orðið „pretentious“ en þessi er nokkuð nálægt því að eiga það skilið.


Þetta er þriðja mynd ástralska leikstjórans Andrew Dominik á heilum tólf árum. Ég hef sýnt honum mikinn áhuga alveg síðan ég bar augum fyrst á Chopper. The Assassination of Jesse James by the Coward Robert Ford (17 atkvæði, takk fyrir!) tel ég enn vera eina af bestu myndum ársins 2007 og jafnvel þótt Killing Them Softly sé engin tilvonandi krimmaklassík þá er þetta að mörgu leyti skörp og hugrökk kvikmyndagerð, þriðja skiptið í röð hjá leikstjóranum, sem gerir það ansi hæpið að kalla myndina vonbrigði.

Áður en lengra er haldið finnst mér ég þurfa að verja gamla heitið á myndinni (þ.e. Cogan’s Trade, sem er MUN flottara nafn), því nýi titillinn er alltof ræfilslegur, líka því hann minnir óhuggulega mikið á Killing Me Softly-lagið eða erótíska sorann þar sem Heather Graham fór mikið úr fötunum. En burtséð frá ljótu nafni spilast þessi mynd út eins og gömul, bitur blanda af Scorsese- og Tarantino-mynd, en bara miskunnarlausari og með sterkari kvenfyrirlitningu. Ekkert að því svosem (þannig séð). Myndin er með gott bit en það er eins og hún sé of meðvituð um hversu snjöll hún er, eða vill að minnsta kosti vera.


Það sem best einkennir þessa mynd er markmið hennar að vera eins konar allegoría fyrir fjárhagsstöðu ríkisstjórnarinnar og undirstrikað er hversu grimm og þreytandi áhrif kreppan hefur á mafíustéttina. Þessi athyglisverða hugmynd býður upp á ýmis skemmtileg móment og skondnar pælingar en vandinn liggur í meðhöndluninni. Oft eru í gangi pólitískar ræður (annaðhvort í sjón- eða útvarpi) á meðan senur í mafíuheiminum eru að reyna að endurspegla þær á skýran og/eða óljósan máta. Þegar skilaboðin garga svona í bakgrunninum er pínulítið eins og leikstjórinn sé að vanmeta gáfur áhorfenda sinna, t.a.m. þeirra sem myndu nokkurn tímann sjá gildi í mynd af þessari gerð. En Dominik hefur svosem lítið verið hlynntur „minna-þýðir-meira“ reglunni.

Táknsagan hefði sannarlega mátt vera minna æpandi en hnútarnir með öllum skilaboðunum eru að vísu prýðilega hnýttir með dýrindis, rólegri lokasenu. Síðasta línan pakkar myndinni í dásamlegan svartsýnispakka með grimmri raunsæisslaufu. Ég get að vísu ekkert metið hvernig myndin kemur út í samanburði við bókina sem hún er byggð á – og ég hef ekki lesið – en Dominik var með ofsalega góðan grunn hérna til að gera eitthvað magnað úr þessu. Stíllinn auglýsir sig svolítið en kvikmyndatakan er eins og eitthvað sem ætti heima í meistaraverki og ég sat hér um bil agndofa í sætinu yfir einu eða tveimur ofbeldisatriðum. Ein sena leggur sérstaka áherslu á það að ofbeldi í bíómyndum er ekki alltaf töff, heldur hryllingur á alla kanta og einn (afar vannýttur) leikari fær ógeðfellt mikið að kenna á því. Svakalegt atriði, og fleiri í boði, í ekki-svo-svakalegri mynd. Ég hef samt enn trú að Dominik geti gert aðra mynd sem mun rata á virðulegan topplista.


Besta senan:

Bíll, slow-mo og byssukúlur. GJÖÖÖÐveikt!

Sammála/ósammála?