Fast & Furious... á hjólum

Premium Rush

Premium Rush snýst öll um hraða. Hún fjallar um reiðhjólasendil sem kærir sig ekki um annað en að losa sig við bremsurnar (!) og rjúka út í allar allir með engu stoppi nema þegar áfangastaðnum er náð. Myndin og uppsetningin á henni heldur sér alveg í takt við þessa hugmynd. Hún flæðir eins og raketta, tekur aldrei pásur eða stoppar nema þörf þess eru til að fylla í litlar plotteyður eða (tvívíðu) persónusköpunina og gengur í rétt rúmlega 80 mínútur, án kreditlista. Efniviðurinn er óneitanlega ferskur enda efast ég um að margir geti sagst hafa séð mikið af léttum spennumyndum sem eru stútfullar af eltingarleikjum með reiðhjólum. Maður sér sjaldan svona mikið reiðhjólaklám koma frá lítilli stúdíómynd. En skemmtilegt er þetta nú samt. Oggulítið.

Þetta er frekar guilty pleasure-mynd með fjörugum stíl í stað þess að vera eitthvað til þess að mæla með gegnum hefðbundinn standard. Formúluskammturinn er mikill, lógík er oft í ruglinu (af hverju rústaði skúrkurinn aldrei hjóli aðalpersónunnar þegar hann hafði nokkur fullkomin tækifæri til þess?!) og væntumþykja gagnvart persónunum er furðu takmörkuð. Myndin hefur hjarta en litla sál, aðallega púls. Joseph Gordon-Levitt er samt ómótstæðilegur, að venju, og vanmetni snillingurinn Michael Shannon ofleikur eins og fagmaður (og talandi um að djúsa upp óspennandi hlutverk!). Mér stóð á sama um flesta aðra leikara í myndinni þó liðið hafi verið sæmilega litríkt, en það skiptir nú varla neitt annað máli en þessi blessuðu reiðhjól og klikkuðu áhættuatriðin sem fylgja bæði þeim og hraðanum á sögunni.

Í sinni stuttu lengd er Premium Rush stundum nálægt því að þynnast pínulítið út, sennilega því hlutirnir endurtaka sig aðeins of mikið. Að vísu heldur hún höfði og kemur sér að lokametrunum áður en maður veit af því. Þetta er ekta „style over substance“ mynd sem hefur nóg af litlum trixum (og skemmtilega aðalleikara, vitaskuld) til að hífa sig upp úr því að vera föst í meðalmennskunni. Það besta sem ég get sagt um hana er að hún gefur manni öðruvísi álit á hjólasendlum, fyrir utan það að vera langbesta myndin sem mistæki handritshöfundurinn David Koepp hefur nokkurn tímann leikstýrt. Segir samt minna um myndina og meira um hann.

fin
Besta senan:
Hver einasta sena þar sem JGL „reiknar“ út hentugustu leiðirnar sínar… með smá hjálp frá bullet time-inu.

Sammála/ósammála?