Bachelorette

Fyrir mér er það skynsamlegri hugmynd að stunda skyndikynni við atvinnutrúð heldur en að kíkja á Bachelorette í leit að húmor. Í það minnsta er það eftirminnilegra en að horfa á svona fíflalegt, druslulegt og þreytandi afrit af (vitaskuld) Bridesmaids með hliðarskammti af Hangover-hamagangi. Hvaða bræðingur sem hún er, þá kemur niðurstaðan út á því sama: RUSL.

Margir hafa reyndar gagnrýnt Bridesmaids fyrir að vera langdregin og bjóða upp á óviðkunnanlegar og fráhrindandi persónur, svo mikið að sumir áhorfendur (oftast karlmenn) stimpla sig bara út áður en helmingur er liðinn. Ég skil svosem hvaðan þessi gagnrýni kemur, en ég er ekki alveg sammála henni. Eftir að hafa séð Bachelorette skal ég ánægjulega nota þessar sömu lýsingar á hana í staðinn og kasta í hana enn fleiri. Það þarf yfirleitt mikið til að ég verði almennilega móðgaður eftir að hafa horft á gamanmynd, en eftir þessa varð ég bara að komast í sturtu til að skola burt minningarnar. Að vísu var það eftir að ég kíkti á Melancholia til að koma mér í gott skap aftur.

Í þessari skelfilegu (ítrekað: skelfilegu!!) bíómynd hegða allir sér stanslaust eins og fífl án þess að raunsæi eða húmor afsaki það. Áður hélt ég í alvörunni að myndin hafi verið skrifuð og leikstýrð af kvennahatandi mannfýlu frekar en konu sem ætti að vita betur. Aðalpersónurnar þrjár (leiknar af Kirsten Dunst, Lizzy Caplan og Islu Fisher – sem allar eru í alltof háum gír) eru allt annað en til fyrirmyndar. Þær eru TÍKUR. Tussulega orðað en það er enginn að fara að mótmæla því sem hefur séð myndina – og vonandi eru það sem fæstir. Myndin vill að við hlæjum að þeim, hlæjum með þeim og höldum síðan upp á þær því lengra sem á líður. ÞAÐ, að mínu mati, er stærsti djókurinn.

Greddubrandararnir missa allir marks, hart, og í rauninni fann ég ekki eina einustu senu sem gerði það ekki á einhverju stigi að allt sem átti að vera fyndið skaust bara beint í ógeðfelldan ‘obnoxious’ pytt. Leikkonurnar lifa sig svakalega inn í myndina og virðast þær greinilega halda að þetta sé allt rosalega mikið gríngull. Þær fá punkta fyrir áhugann en Bachelorette setur svartan blett á ferilskránna hjá þeim öllum. Hann mun lifa miklu lengur heldur en blóð- og sæðisklessur á brúðarkjól, og aldrei verður hægt að hreinsa þetta burt. Bridesmaids á repeat í heilan dag væri skynsamlegri kosturinn.

drasl

Besta senan:
Ég elskaði hvað ég hataði atriðið þegar Æla Fisher ælir.

PS. Hversu steikt er það að sjá Rebel Wilson, AF ÖLLUM stelpum í heiminum, leika mest „normal“ gelluna í einhverri mynd??

Sammála/ósammála?