Alex Cross

2012 þykir mér vera nokkuð gott ár fyrir illmenni í bíómyndum. Í fljótu bragði rámar mig í karaktera leiknir af t.d. Dane DeHaan, Damon Younger, Tom Hiddleston, Charlize Theron, Tom Hardy, Guy Pearce, Matthew McConaughey, Javier Bardem, Hugo Weaving ásamt geimverufóstrinu í Prometheus, Bin Laden og Mad Dog-gaurnum í The Raid. Alex Cross kemur þessum fyrirtaks lista í sjálfu sér ekkert við, fyrir utan það að Matthew Fox, besti vinur kvenmannsins, vill af öllum krafti og sál tilheyra þessum ágæta hópi. Illmennið sem hann leikur í þessari mynd er svo hallærislega þvingað og yfirdrifið að hálfa væri hellingur. Maður veltir fyrir sér hvort hann hafi ákveðið að ganga alla leið með illa skrifað hlutverk eða hann er bara að skemmta sér, líklegast þá vegna þess að hann hefur gert sér grein fyrir því hve flöt, úldin, óspennandi og bragðlaus þessi mynd er.

Rob Cohen á að vera löngu hættur að búa til bíómyndir. Það er lítið gagn í honum og hefur nánast aldrei verið, að því utanskildu að hann lét Sean Connery eitt sinn talsetja dreka. Alex Cross er bara alls, alls ekki góð mynd. Hún er of flækt í áratugagömlum formúlum til að geta átt séns í það að vera meira en miðlungsgóð vídeómynd, en síðan er handritið svo aulalega reglubundið, klisjukennt og leiðinlegt að heildinni hefur verið óviðbjargandi frá fyrsta tökudegi. Til þess samt að geta feilað þyrfti myndin að reyna eitthvað á sig til að byrja með. Ef hún hefði reynt að vera meira en hún er væri hún þá hræðileg. Myndin getur samt ekki verið hræðileg vegna þess að hún reynir bara ekki neitt. Ekkert! Hún vill bara að þeir sem horfa ekki mikið á kvikmyndir komi, borgi, festist smávegis í henni og svo fari. Ekkert að því, en almáttugur samt, var of mikið að biðja um að leggja smá svita í þetta fyrir aftan kamerurnar?

Tyler Perry hefur ekki alveg verið minn tebolli (eða greip-soda?). Hann er ekki lélegur leikari og hann er maður sem kann á sinn aðdáendahóp. Hann er í rauninni bara prýðilegur sem titiltöffarinn, svona þegar hann hrasar ekki á asnalegum setningum (sem er þó, vitaskuld, handritinu að kenna). Mér finnst Perry vera of auðvelt skotmark, en í alvörunni þá hrynur myndin ekki með honum, eins og örugglega margir halda. Hann er ágætlega sannfærandi en hans stærsti feill liggur í því að fylgja eftir Morgan Freeman í hlutverkinu. Og að nokkur leikari skuli þora að grípa hlutverk sem goðsögnin Freeman hefur leikið áður er mér óskiljanlegt. Kannski er hægt að afsaka það út af því að Along Came a Spider var svo hörmulega léleg, annað en hin þrusugóða Kiss the Girls. Annars er þetta ekkert ósvipað því og þegar Ben Affleck tók við af Harrison Ford sem Jack Ryan, nema bara stærra skref afturábak.

Allir aukaleikarar eru annaðhvort að taka sig of alvarlega eða ekki nógu alvarlega. Fox er undantekningin, enda algjör trúður í þessari mynd eða svo gott sem, en allir hinir eru eins og eitthvað úr lélegri sjónvarpsmynd. Edward Burns gæti ekki leikið töffara í dag frekar en David Schwimmer og ég trúi varla hvað John C. McGinley er fljótur að eyða góðum minningum um Dr. Cox. Stundum er bara eins og þessum leikara sé ekki annt um vinnuna sína, sem er ömurlegt því hann er oft svo skemmtilegur. Svo kom Rachel Nichols eitthvað fram við og við, en ég held að öllum hafi verið sama um hennar hlutverk. Þar á meðal hún. Sama með Jean Reno. Hann virðist bara vera að slaka á.

Alex Cross á að láta í friði. Að kíkja á hana einn daginn á RÚV, kannski grautþunnur og án hreyfigetu, væri ekki það versta í heiminum einn daginn, en hún kemur aldrei með brögð sem maður hefur ekki séð áður og notar þau efni ekkert sérstaklega vel sem hún hefur. Henni virðist vera frekar sama um sína áhorfendur. Ætti þá ekki áhorfendum að vera drullusama um hana á móti? Það held ég nú!

fjarki
Besta senan:
Þegar Matthew Fox… „went there…“. ÓSNAP!

2 athugasemdir við “Alex Cross

  1. Rob Cohen gerði nú eina ágætis sjónvarpsmynd sem kom út 1998. The Rat Pack, með Ray Liotta, Joe Mantegna, Don Cheadle og Angus McFadyen. Það plús Sean Connery að talsetja dreka og Dennis Quaid að vera „hilariousderp“ eru hans meistaraleguru verk :þ

  2. Það er víst rétt hjá þér. The Rat Pack var fín og greinilega mikið frávik fyrir leikstjórann. Sennilega ó-Cohen-legasta myndin hans. Eftir aldamótin fór hann að sjúga allan liðlangan daginn…

    Vel spottað með Quaid, en svo má aldrei gleyma David Thewlis sem douche dauðans!

    Nú VERÐ ég að horfa á Dragonheart aftur!

Sammála/ósammála?