Revolutionary Road

Það þekkja allir ástarsöguna af fátæka listamanninum Jack og yfirstéttargellunni Rose. Alveg sama hvað viðkomandi fannst um Titanic, þá mynduðu þau Leo DiCaprio og Kate Winslet klárlega eitthvert eftirminnilegasta skjápar kvikmyndasögunnar (enda sáu ALLIR þessa mynd). Fyrirfram fannst mér eitthvað hálf brútal við að setja þessa tvo sömu leikara í akkúrat þessa mynd, s.s. Revolutionary Road. Venjulega tengdum við þetta par við ástfangið fólk sem hittist á röngum stað á réttum tíma, en burtséð frá því þá hélt maður svolítið upp á þau. Góðar minningar, ekki satt? Núna eru þau aftur snúin sem par nema í þetta sinn eru þau svo mikið í hárinu á hvoru öðru að maður er ekki frá því að annar aðilinn slátri hinum óhugnanlega áður en lokatextinn rúllar.

Eins og persónur myndarinnar þá kann Sam Mendes að blekkja það sem augað sér á fljótu bragði. Revolutionary Road lítur út eins og gleymd Hallmark-sjónvarpsmynd við fyrstu sýn, en hver sem mun berja þessa mynd augum getur heldur betur séð að það er svo miklu meira á bakvið hana. Það þarf ekki annað en að sjá sýnishornin til að sjá að hún er gríðarlega vel leikin. Burtséð frá því er myndin bara svo brjálæðislega sterk að nærri öllu leyti. Myndin er heldur ekki að mjólka út þvinguðu melódrama. Handritið er vandað og vekur mann til umhugsunar um þær „grímur“ sem maður setur upp fyrir framan aðra. Það sýnir einnig hvernig sumir geta virkað fullkomlega eðlilegir eina stundina en verið bældir eða snargeðveikir innan um lokaða veggi heimilisins hina stundina. Myndin spyr þá spurningu hvort það sé heilbrigt að láta sig dreyma og vera hvatvís eða hvort maður eigi bara að sætta sig við raunsæjar aðstæður.

Subtext-ið er aðalmál þessarar myndar. Hún spannar tvo tíma en rennur hjá á dúndur hraða, sem er skrítið að segja því tónlistin í henni er ofsalega niðurdrepandi, þó áhrifarík sé. Myndin sjálf er reyndar tiltölulega hæg í keyrslu en heldur manni föstum við skjáinn allan tímann. Hún verður líka smátt og smátt meira spennandi þegar lengra líður á hana, og þá á ótrúlega lævísan hátt. Framhaldið er gjörsamlega ófyrirsjáanlegt. Dramað er ávallt í góðum höndum Mendes, sem gerir myndina meira óþægilega (á góðan hátt) heldur en melódramatíska. En það kemur svosem ekki á óvart að Mendes hafi forðast það svona vel að gera myndina að algjörri vælu. Honum tókst frábærlega að byggja upp spennu milli fólks í American Beauty einungis með áköfum leik. Hér gerir hann svipað, nema bara meira af því og e.t.v. mun kröftugra.

Revolutionary-Road-revolutionary-road-31305455-1680-945Ég kemst ekki yfir það hversu góð þau Winslet og DiCaprio eru. Leo er ótrúlega góður, en Winslet er snilld! Hlutverk hennar er að vísu kröfuharðara. Þau hafa bæði vaxið sem leikarar síðan þau mynduðu greddumóðuna í bílnum í Titanic, og að fylgjast með þeim er upplifun í sjálfu sér. Eins og ég gaf í skyn þá rífast þau mjög mikið í myndinni (sennilega svona 50% af heildarlengdinni), en það er líka stór partur af því sem þessi mynd hefur að segja. Engu að síður eru þessar rifrildissenur svo sjúklega raunverulegar. Það tekur nánast á taugarnar að horfa á þær og oftar en ekki vill maður líta undan eða yfirgefa sætið. Einnig spilar handritið skemmtilega með mann út alla myndina varðandi persónur þeirra. Þú telur þig t.d. vita að annar aðilinn sé „góða manneskjan“ í dágóðan tíma, en síðan er mottan dregin undan þér og áður en þú veist af eru aðstæðurnar gerólíkar og allt í einu ertu farinn að halda með hinum aðilanum. Ég á enn eftir að sjá Hallmark-sjónvarpsmynd sem skapar svo nett áhrif á mann.

Aukaleikararnir mega alls ekki gleymast þó parið taki upp allan forgrunninn. Kathryn Hahn og David Harbour segja ótrúlega margt með fáum orðum um persónur sínar, Dylan Baker gerir merkilega mikið með óminnisstætt aukahlutverk, Kathy Bates feilar aldrei og Michael Shannon stelur öllum sínum atriðum sem geðveiki nágranninn, sem gæti hugsanlega verið heilbrigðasta manneskjan í myndinni.

Þegar myndin var búin kom það mér mikið á óvart hversu lagaskipt hún reyndist vera. Hún skilur þónokkrar spurningar eftir sig, ekki bara í tengslum við söguna, heldur sambönd yfir höfuð. Kvikmyndatakan (í umsjón snillingsins Roger Deakins) fangar einnig fullkomlega þetta eymdarlega líf allra, og gerir fallegu úthverfin að furðulega dauðum og leiðinlegum stað. Endirinn er reyndar örlítið kraftlaus (a.m.k. miðað við margar aðrar senur sem leiða upp að honum) en vanlíðan kemst prýðilega til skila. Áhrifin sem Mendes er að reyna að skapa eru mjög þung og e.t.v. meira niðurdrepandi heldur en músíkin. Myndin gengur samt upp alla leið sem þessi kexruglaða þroskasápuópera og lokar þessu öllu með æðislegri lokasenu sem rétt aðeins kemur manni í betra skap aftur.

Þegar öllu er á botninn hvolft er eins og Revolutionary Road gangi út á það að að sannfæra áhorfendur sína um það að lifa lífinu til þess ítrasta í stað þess að velta sér upp úr dagdraumum, löngunum og eftirsjá. Ef fýlusvipurinn á þér verður fullsterkur eftir þetta áhorf þá mæli ég með Away We Go, sem Mendes gerði ári seinna. Hún er meira eða minna andleg andstæða við þessa, en þó ekki alveg eins góð.

niu
Eitt neyðist ég samt til að kommenta á, og það er hversu skelfilega stuttar kynlífssenurnar í myndinni voru. Ekkert að því svosem nema hvað að þær eru látnar spilast út í heilum tökum án þess að það sé klippt inn í þær, og endast svo ekki lengur en í kannski 30 sekúndur. Frekar lélegt úthald hjá karlmönnunum í myndinni, verð ég að segja… Skil vel af hverju Winslet er svona pirruð.

Besta senan:
Allt með Michael Shannon!

Sammála/ósammála?