The Hobbit: An Unexpected Journey

Lengi hafði ég óskað þess að sjá einn af tveimur draumum rætast varðandi Peter Jackson; að annaðhvort sjá hann koma sér aftur í gamla splatter-gírinn, sem er óskhyggja dauðans og mun eflaust aldrei ske, eða ferðast aftur með honum um Miðgarð. Þetta síðarnefnda hefur greinilega orðið að veruleika, þó það sé löngu orðið greinilegt að leikstjórinn er – eðlilega – ekki alveg sami maður og hann var fyrir áratugi síðan. En það er líklegast hvort eð er of seint að biðja um Guillermo Del Toro aftur…

Eins og svo margir aðrir fylltist ég meiri kvíða en ánægju þegar Jackson tilkynnti sjálfur að hann ætlaði að teygja úr efninu – sem upphaflega var myndað með tvær bíómyndir í huga – yfir í þríleik. Það má vera að The Hobbit sé æðisleg og viðburðarík bók (líka mikið, mikið skemmtilegri en Lord of the Rings, í þeim skilningi), en sagan er einföld, áberandi kaflaskipt og endurtekur sig furðu oft. Tvær myndir úr þessari sögu með viðbættu kjöti hefði verið himneskt og þegar þetta er ritað á enn eftir að leiða í ljós hvort ákvörðunin um að skipta þessu í þrjá búta hafi verið til hins verra eða ekki. Það er fullt af góðu dóti eftir, en af fyrsta þriðjungnum að dæma er lafþunnt innihald og örlát lengd það fyrsta sem stendur óþægilega upp úr. Góð byrjun. Ekki meiriháttar eða laus við mörg vandamál, en góð samt sem áður.

„Gott“ er aftur á móti töluvert skref niður þegar maður lítur á stórvirkið sem LotR-trílógían er. Ég býst við að þetta séu óhjákvæmileg áhrif þess þegar löngu búið er að gera aðalréttinn með öllu tilheyrandi meðlæti, og útbúa hann óaðfinnanlega, því er lítið annað hægt að gera en að vinda sér í forréttinn ef skal skella sér í Miðgarðshlaðborðið aftur. Jackson reyndar dressar þessa einföldu og hraðskreiðu bók alveg svakalega upp og pakkar sögunni með ýmsu auka, sem segir manni að hann ætli sér að gera þetta að eftirrétti í stað forréttar.

Gallinn er eiginlega sá að tímaskynið hjá þessum leikstjóra hefur brenglast síðan hann yfirgaf Miðgarð seinast. Gekk hann þá pínulítið út af sporinu með lengdina á Return of the King, þó ekki fyrr en í lokin. Eftir það framkvæmdi hann hið ómögulega, með því að endurgera mynd frá ’33 og tvöfalda á henni lengdina. Frá og með Hringnum hefur Jackson stundum átt í erfiðleikum með flæði og verið of örlátur á lengd. Verst er samt þegar báðir ókostir eiga við um sömu mynd.

Hver einasta Lord of the Rings-mynd pakkaði miklu í þriggja tíma langlokur. MIKLU! Hobbitinn þarf að toga sig út í allar áttir til að fylla meira en 8-9 tíma allt í allt. Það er vægt hægt að segja að ég sé forvitinn að sjá hvernig næstu tvær myndir spilast út, sem er út af því að An Unexpected Journey er á mörkum þess að vera allt of löng. Hún er þunn, langdregin á köflum og nær manni varla með neinu öðru en hellað fínu afþreyingargildi. Það er ekkert hægt að gera í því, en samanburður við hinn þríleikinn poppar oft ósjálfrátt upp. LotR var dýpri, þyngri skepna með miklar tilfinningar. Fyrsti hluti Hobbitans er skemmtilegur en ekkert rosalega grípandi. Ævintýralega fallegur og fullur af lífi en líka eitthvað svo holóttur og kraftlaus.

An Unexpected Journey sýnir manni það samt að andrúmsloftið er oftast vel í takt við bókina. Hobbitinn er léttari, teiknimyndalegri saga en áhorfandinn finnur samt allan tímann fyrir því að þetta þræðist allt inn í sama efni og Tolkien-heimur Jacksons er unnin úr. Nú er Miðgarður barnalegri, hlýrri en ennþá samt dökkur í senn, og þessi heimur er alveg jafnríkur og dásamlegur og hann var fyrir áratugi síðan. Maður springur stundum úr fantasíuaðdáun og veit innst inni að meistari Tolkien hefði verið sáttur með hvernig Jackson stuðar svona svakalegu lífi í þessi ódauðlegu verk.

Útlit og hönnun er enn til fyrirmyndar og framleiðslugildið í toppgír. Sem fyrr eru fáeinar undantekningar með viss brelluskot, enda hefur pixlaáhugi Jacksons aukist hættulega á undanförnum árum. Sumt kemur snilldarlega út (eins og Gollum, sem er enn mögnuð sköpun) en annað fellur inn í ofsalega týpíska CG-ofnotkun, bara töluvert skrípalegri og ýktari til útlits en seinast. Pixlarúnk hjá WETA er nú samt ekkert til þess að kvarta undan, þó vankantar finnist stundum.

An Unexpected Journey er einkennilega mikið drifin af nostalgíu, þá gagnvart fyrri þríleiknum og notfærir sér allar mögulegu leiðir til þess að tengja þetta allt saman. Cameo-in eru flest öll frekar tilgangslaus ef þau komu ekki bókinni eða aðalsöguþræðinum við. Howard Shore semur sömuleiðis frábæra nýja tónlist en er aðeins of oft að endurtaka gömlu stefin sín til að leggja meiri kraft í tengingarnar og nostalgíukitlið. Þrátt fyrir að hópurinn nýi jafnist engan veginn á við gamla föruneytið eru leikararnir samt í góðum málum. Martin Freeman er feiknagóður sem yngri-Bilbo og Ian McKellen er auðvitað ekkert annað en yndislegur og endurkoma Gandalfs Gráa er mér kærkomnari en allt, líka því hann er miklu hressari og fyndnari en sá Hvíti. Andy Serkis hleypur síðan burt með alla myndina eftir að hafa eignað sér eina af betri senunum.

Nýju leikararnir eru hingað til flestir að standa fyrir sínu, fyrir utan það að meira en helmingurinn af 13 dvergapersónum myndarinnar rennur alveg saman í eina, kramda minningu. Dvergarnir eru ágæt grúppa og ég naut söngatriðana með þeim í tætlur, en þeir einu sem stóðu almennilega upp úr voru Richard Armitage, Aidan Turner, James Nesbitt, þessi gamli (þá bara því hann er hundgamall) og þessi feitasti (…bara því hann er mjööög feitur). Kannski það lagist í næstu myndum en oft er erfitt að þekkja hina í sundur. Armitage er reyndar sérstaklega sterkur og ég veit ekki hvar myndin væri án Nesbitt-gæjans.

Fyrir utan ímyndunaraflið var Tolkien aldrei gallalaus rithöfundur og best sést það í Hobbit þegar hlutirnir endurtaka sig einum of oft. Stundum er jafnvel eins og Gandalf sé eingöngu staðsettur í sögunni til að vera deus ex machina-reddingin við helstu hraðahindrunum. Kannski myndi þetta bögga mig minna ef myndin væri stanslaus rússíbanareið af upplýsingum og fjöri, eins og hún ætti að vera, eins og hinar voru. Sagan hefur stórt hjarta en það tekur stundum á þegar maður finnur fyrir hvað Jackson tefur hlutina oft með ekkert svo réttlætanlegri niðurstöðu. Það hefði alveg mátt bæta ofan á persónusköpunina í staðinn fyrir þær gagnslausu uppfyllingar sem er oft gripið í. Og meira að segja í góðu atriðunum er stundum eins og klipparinn hefði mátt rífast oftar við leikstjórann. Síðast er ég vissi var The Hobbit barnabók, og miðað við það hvað myndin heldur sér oft í ærslafullum stíl virkar það eins og mótsögn þegar hlutirnir dragast svona þvílíkt á langinn. Stundum er eins og Jackson sé að reyna að reyna að búa til eitthvað í öðruvísi stíl en svo koma fyrir tímapunktar eins og hann sé enn fastur í gamla þríleiknum, tónalega séð.

Kannski mun þetta virka betur í stærra samhengi en þegar þessi fyrsti (set-up) kafli er metinn sem sjálfstæð eining er klárt að kalla hann traustan en aðeins fullnægjandi í skömmtum. Myndin byrjar vel og endar á háum nótum en þynnist út í kringum miðbikið. Eins og áður kom fram eru senur (m.a.s. fínar hasarsenur) stundum alltof langar en hápunktarnir eru almennt góðir, jafnvel þótt enginn þeirra toppi neitt úr LotR. An Unexpected Journey hefur reyndar voða Fellowship-legan brag á sér en maður fær minna út úr henni ef þetta snýst um að vera meira en bara skemmtilegt ævintýri. Þetta hefði getað orðið betra, en þegar ég hugsa stöðugt aftur til þess hvað Jackson fór illa með Lovely Bones-bókina er ég sáttur að þetta hafi ekki endað verr. Er meira en til í næsta skammt, þó ég muni eflaust reglulega út næstu árin detta í nokkrar „hvað ef“ pælingar í tengslum við hvað Del Toro hefði getað gert með þetta ef hann hefði aldrei stungið framleiðsluna af. Og varla er ég sá eini…

thessi

PS. Ég sá myndina í bæði 48 römmum á sek. í 3D og 24 römmum í 2D. Hvort tveggja hefur sína kosti og galla. Yfirleitt býður mér við þessu sápuóperulega HD lúkki þar sem manni líður eins og myndin sé komin á væga Fast forward-stillingu en með eðlilegri hljóðrás, að vísu getur oft verið bara andskoti töff að horfa á myndina í 48 römmum (SÉRSTAKLEGA í brelluatriðum)… þ.e.a.s. um leið og augun eru búin að aðlagast (eftir góðan hálftíma eða svo!). Gæðin eru betri, áferðin sérkennilegri og gerist áhorfandinn allt öðruvísi þátttakandi í því sem hann horfir á. Hins vegar vantar þennan notalega „cinema“ fíling og finnur maður töluvert betur fyrir honum í 24 römmum, en tölvubrellurnar koma oft verr út. Ef Ian McKellen myndi miða löngu priki upp að enninu á mér og skipa mér að velja á milli, þá myndi ég velja 48 rammanna, þó ég geti ekki sagt að valið sé auðvelt.

Besta senan:
Gátur og Gollum.

9 athugasemdir við “The Hobbit: An Unexpected Journey

 1. „LotR var dýpri, þyngri skepna með miklar tilfinningar. Fyrsti hluti Hobbitans er skemmtilegur en ekkert rosalega grípandi. “

  Það er voða lítið hægt að gera í því þar sem LotR bækurnar eru miklu dekkri og tilfinningaríkarari heldur en Hobbitinn sem er nánast barnaævintýri, björt yfirleitt og meiri gleði og húmor í henni. Það er því ekki að ástæðulausu að Hobbitin var gerður bjartari en LotR.

 2. „Það er því ekki að ástæðulausu að Hobbitin var gerður bjartari en LotR.“
  Hárrétt hjá þér, enda er bjarta stílnum hrósað (þótt gamli tónninn svífi einnig stundum yfir). En þú tekur fyrri setninguna svolítið úr samhengi. Ég er ekki beinlínis að setja út á Hobbitann fyrir að vera ekki jafnþykk og mikil og Lordinn, en eins og var nefnt þá er óhjákvæmilegt að bera þetta saman. Af hverju er það? Nú því augljóslega er um að ræða einn best heppnaða þríleik allra tíma.

  Fannst rosalega mikið eins og Hobbitinn væri að reyna að teygja sig í það markmið að vera jafnepísk og stór og allt hitt, á meðan ég hefði glaðlega viljað meira straightforward barnaævintýri eins og bókin var. Ég fkn DÝRKA Hobbit-bókina.

 3. ég er ekki búinn að lesa bækurnar, enn ég var að detta inn eftir að horfa á hobbitan 3D lúxus í smáranum, og var ég alment mjög ánægður með myndina, nema endirinn. Já hann fór pínu í taugarnar á mér.

  Það er fullt af hlutum í þessum fyrsta hluta af þrem sem vísar í LotR, og er ég nokkuð sáttur við hvernig það er gert. Nema ernirnir, f#ck hvað ég væri til í að vita aðeins meira um þá forsögu.

  Fyrsta LotR VS tHaUJ þá er hobbitin meira léttur ævintýrafýlingur, svona kannski best(hvað mig varðar allavega) að lýsa henni sem PG á meðan LoTR er PG13

 4. Geðveik umfjöllun. Gott að lesa frá áhorfanda sem er ekki „allt eða ekkert“, því mér fannst ég sjálfur finna ekki þessa tilfinningu sem allir fengu, annað hvort elska eða hata þessa mynd. Er mjög sammála þér með allt sem þú segir um The Hobbit (eins og hversu mikið hún var teygð, besta atriðið, hvað Gandalf var skemmtilegur og nostalgíukastið) nema um 48 fps. Ég gat bara ekki þolað þessa tækni, útaf tvem ástæðum: Þreyttir augun og verulega böggandi.

  En cheers fyrir umfjöllunina.

 5. Hlakka til að sjá hana. Finnst það samt slæm þróun í kvikmyndum að þær „verði“ að vera um 3 klst á lengd ef stórmynd á að vera. Af hverju ekki minna magn, meiri gæði??

 6. Mér fannst eiginlega allt geðveikt við 48 ramma! Myndin var líka skemmtilega góð, fór inn með engum væntingum og fór út sáttur maður.

 7. Flott grein. Sammála þér að mestu leiti, sat eftir með pínu „meh“ bragð í munninum. Ég gæti ýmindað mér að mér hefði fundist myndin lengri ef ég hefði ekki lesið bókina.

 8. „Hringur á putta“ skotið var skemmtilegur refferance.
  Þetta er samt allt öðruvísi tegund af mynd en lotr. Þeir sem halda að þeir séu að sjà lotr 4: the Hobbit verða fyrir vonbrigðum.

 9. „Þetta er samt allt öðruvísi tegund af mynd en lotr. Þeir sem halda að þeir séu að sjà lotr 4: the Hobbit verða fyrir vonbrigðum.“

  Góður punktur, nema Jackson sjálfur er ekki alveg sammála þessu. Hobbitinn og LOTR ætti að vera gerólíkt dæmi en Jackson greinilega *vill* að við tengjum þetta saman og þess vegna býr hann til svaka hybrid tón, sem sameinar barnabókafílinginn við LOTR-andrúmsloftið.
  Þess vegna kemst nærri því enginn hjá því að halda að þeir séu að sjá „LOTR 4“ (tæknilega séð LOTR -2).

Sammála/ósammála?