Two Missed Calls

Seint mun ég gleyma þessu. Mann grunar aldrei að þessir litlu hversdagslegu hlutir geti staðið svona sterkt upp úr í minningunni og í þessu tilfelli er ég að tala um eitthvað sem er einfaldlega svo óeftirminnilega hversdagslegt að langtímaminning hefði aldrei átt að vera í spilunum fyrir það fyrsta.

„Two missed calls!“ er það sem kemur fyrst upp í hugann. Mjög ómerkileg pæling og með því eðlilegasta sem maður sér yfir daginn. Minningin er voða skýr, en samt eitthvað svo óljós á sama tíma en slíkt er væntanlega eðlilegt þegar tilfinningalega meðlætið skyggir á. Árið er 2007. Dagurinn hófst eins og hver annar afmælisdagur, fyrir utan það að ég svaf lengur út vegna þess að ég gerði forfeður mína stolta kvöldinu áður – enda nýorðinn tvítugur.

Ég var sérstaklega viðkvæmur gagnvart hávaða þennan morgun, eins og gengur og gerist þegar þynnkuguðirnir vekja mann með þrumuhöggum sínum, en dagurinn fór mjög hægt af stað. Líkaminn gat ekki meðtekið miklar hreyfingar, þannig að markmiðið var ekkert annað en að hafa það konunglega þægilegt.

Seinniparturinn af þessum fagnaðardegi endaði á (hvað annað?) spontant bíóferð eftir að lokið hafði verið við ómótstæðilegan kvöldverð. Maður á svo sem ekki að hafa neina eftirsjá í lífinu en skiljanlega setti ég símann minn á hljóðlausa stillingu. Síminn hringdi stuttu eftir að sýningin byrjaði, en ég tók ekki eftir því. Hálftíma síðar hringdi hann aftur en ég varð ekki var við það fyrr en eftir bíóið (sýningin var hlélaus).

Ég komst að því eftir á að símtalið hafði komið frá fárveikum föður mínum, sem bjó erlendis og hafði hljómað mishraustur mánuðina á undan. Ég gerði í smástund ráð fyrir að þetta væri þetta hefðbundna foreldrasímtal á afmælisdeginum sem ég hafði misst af á meðan á háværri Hollywood-hasarmynd stóð. Kaldi svitinn læddist loksins að mér þegar ég áttaði mig á að svo var ekki raunin og það var ekki fyrr en stjúpmóðir mín að utan hringdi fáeinum tímum síðar til að segja mér slæmu, óvæntu fréttirnar.

Þar fór sénsinn á að segja bæ.

4 athugasemdir við “Two Missed Calls

  1. Ótrúleg tjáning. Maður missir sig stundum í því að horfa á manneskjur dáldið einhliða (er ég að meina að þú skrifar bíógagrýnir og maður einblýnir sér aðeins á því) og gleymir því að þær eru manneskjur. Þú ert awesome gæji!

  2. Man eftir þegar ég las þetta í sumar á kaffistofu vinnustaðarins, langaði að senda pappírs-pésa-knús í pósti. Einlægt, opinskátt, vel orðað, og segir mikið um manneskjuna á bak við pennan. Þetta segir það sem allir vilja heyra, að einhverjum öðrum sé ekki sama.

    ‘Everything in life is a lesson we can learn from’
    Trúi því seint að þetta sé að kenna þér að hafa kveikt á símanum eða svara öllum símtölum sem þú færð. Frekar segir þetta þér að fólk geti ekki verið til staðar fyrir allt, jafnvel ef það langar til þess.
    Það er aldrei of seint að segja bless ef þú trúir því sjálfur.

    Væmnisálfur away!

Sammála/ósammála?