Life of Pi

Ef ég tryði á forgjafir hvað einkunnir á bíómyndum varðar þá væri það bókað mál að ég myndi veita Life of π heila sexu, ef ekki sjöu, bara fyrir það að vera einhver mest útlitslega grípandi mynd sem ég hef séð á öllu síðastliðnu ári. Mér þykir þetta að minnsta kosti vera næg ástæða til þess að sjá myndina og upplifa hana, jafnvel þótt hún væri stillt á Mute og það skipti í sjálfu sér engu máli hvort hún væri góð eða ekki. Í rauninni er samt alltaf ástæða til þess að sjá það sem Ang Lee gerir. Myndirnar hans eru sumar langt frá því að vera meistaraverk en maðurinn er engu að síður algjör meistari í óvæntum fjölbreytileika og með ómetanlegt listrænt auga, hvort sem fegurðin blasir við eða ekki.

Yfirleitt hefur mér tekist að éta allt upp frá þessum leikstjóra, mismikið að sjálfsögðu, en mann grunaði það svosem frá byrjun að hann af öllum gæti gert athyglisverða mynd með sterkum trúarlegum skilaboðum um dreng sem festist á báti með tígrisdýri út hálfa myndina. Fegurðin er mikil en þegar hún er strípuð er þetta nokkurn veginn eins og að horfa á indversk-ættaða Cast Away í barnamessu, sem er alls ekki endilega meint á slæman hátt.

Life Of Pi Poster

Ég er ekki beinlínis sammála trúarlegu skilaboðum myndarinnar en hún flytur þau samt á svo einlægan og meinlausan máta að manni yljar pínulítið. Það er aldrei verið að lesa yfir manni en óneitanlega tekur sagan ákveðna stefnu í lokin sem gæti snert hörðustu trúleysingja á óviðeigandi stöðum. Myndin hefur samt nóg að segja og miðað við „artí“ þroskasögu í fjölskyldumyndabúningi ber hún klæðnaðinn ósköp vel. Hún hefur líka gott flæði og heldur manni við einfalda efnið út þægilega lengd. Endinn var ég sérlega sáttur með, þrátt fyrir augljósa afstöðu í honum og bar ég mikla virðingu fyrir því að sjá Lee taka þá ákvörðun að sýna miklu, miklu minna heldur en hann þurfti. Hann græðir á því og finnur einhvern veginn þetta fullkomna jafnvægi að gera mynd sem talar til fullorðinna jafnt sem krakka, en fjölskylduvæni ævintýrafílingurinn er samt alltaf til staðar. Og almáttugur á priki hvað hann er dáleiðandi!

Í sínu litla en mikilvæga aukahlutverki er Irrfan Khan mjög indæll og knúsanlegur. Öll myndin er þó borin uppi af einum leikara sem mér skilst að hafi aldrei nokkurn tímann leikið áður. Bravó, segi ég nú bara, því hinn 19 ára Suraj Sha(wa)rma er afskaplega traustur sem titilkarakterinn sem kenndur er við annaðhvort gríska táknið eða hland (ekki spyrja hvers vegna). Það er eitt að vera nýliði, en svo er annað þegar mótleikarar eru svona fáir. Krakkinn fær meira að segja það erfiða hlutverk að þurfa að leika á móti tígrisdýri og það skiptir engu máli hvort það hafi verið tölvubrella eða á staðnum (væntanlega í mjög öruggu umhverfi). Bæði tvennt er krefjandi á sinn hátt. Annars kemst maður hvergi hjá því að hrósa þessari mynd fyrir þessar sjúku tæknibrellur (ásamt þrívídd sem er ein sú besta sem ég hef séð með Avatar og Hugo). Dýrin líta t.d. alveg hrikalega vel út og það er sjaldan sem aldrei að maður kaupir ekki atriðin sem þau tilheyra.

Ljúf tónlist og mögnuð uppsetning ramma gerir Life of Pi að einni eftirminnilegustu myndum ársins. Svo er hún áhrifarík að auki. Reyndar ekkert stórkostlega áhrifarík en hún náði allavega til mín með saklausa anda sínum. Það finnst mér alltaf frábært þegar hæfileikaríkir kvikmyndagerðarmenn nota mikla stúdíópeninga til að styrkja óvenjulegar frásagnir og skera sig aðeins út úr. Klárlega er þetta mynd sem sker sig út úr.

geggt
Besta senan:
Styttri, nútímalegri sjávarútgáfa af „Stargate“ senunni. Takið samlokur með.

2 athugasemdir við “Life of Pi

  1. Ótrúlega góð mynd. Helvítis upplifun maður ;_;

  2. Helvíti flott mynd, algjört heaven fyrir VFX gæja eins og mig

Sammála/ósammála?