Sinister

Ef það er eitthvað sem leggst sérstaklega illa í mitt þol þá eru það klisjukenndar og metnaðarskertar hrollvekjur, þessar sem fara beint eftir föstum formum án þess að virkja ímyndunaraflið þegar tækifæri gefst til þess. Hins vegar er sagan önnur þegar gengur upp að búa til klisjuhrollvekju sem er þokkalega skrifuð og með úthugsaðan metnað fyrir því að fríka út áhorfandann, sem er nákvæmlega markmiðið sem Sinister setur sér. Hún er ekkert að vesenast við það að finna upp nýjungar og kýs í staðinn að nota gömul brögð, en nota þau rétt. Það er vel sloppið að gera mynd fyrir litlar þrjár milljónir dollara sem er hugsanlega ein af bestu hrollvekjum síðustu missera – þótt samkeppnin sé ekkert voða mikil. Gölluð mynd, vissulega, en afar drungaleg og mögulega sálarskemmandi fyrir hina viðkvæmustu, sem þýðir að hún virkar!

Á yfirborðinu er þetta nokkuð frísk nálgun á draugahúsamynd sem tekur skemmtilegan (bókstaflegan) snúning á „found footage“ hugmyndina, en inn við beinið er þetta klisja út og inn þó öflug sé. Atburðarásin er nokkuð dæmigerð, næstum því OF dæmigerð, en hún er ansi spennandi, lendir aldrei á sjálfstýringu og grípur sjaldan til ódýrra bregðusena án þess að ganga alla leið með þær (semsagt að gefa manni vægt hjartaáfall). Þegar öllu er á botninn hvolft er þetta mynd sem hefur mestan áhuga á því að vera truflandi hægt og bítandi frekar en að hræða brækurnar af smápíkum með athyglisbrest – þótt ég efa alls ekki að það muni einnig virka! Uppbyggingin skiptir mestu og einfaldleikinn er nýttur út í allar áttir. Loksins er að minnsta kosti hægt að segja að Scott Derrickson hafi gert góða mynd.

Derrickson hefur lengi verið með áhugann á réttum stað en ekki alveg verið með nægilegan skilning á gæðum. Það segir sig sjálft að hann hefur betrumbætt sig helling síðan hann fór að fikta við hryllingsmyndir fyrst (enn hefur mér ekki tekist að gleyma hörmunginni sem hét Urban Legends: Final Cut). Samt, þegar hann gerði t.d. Exorcism of Emily Rose þá tók hann athyglisverða hugmynd og bjó til frekar máttlausa og óspennandi blöndu af særingarmynd og réttardrama. Árið 2008 reyndi ég síðan að taka á móti endurgerðinni á The Day the Earth Stood Still með opnum örmum en ég held að Derrickson hafi bara lent í of mikilli stúdíópressu til að geta skilað af sér góðri mynd. Með Sinister hefur hann lent á efni sem hentar honum afar vel. Og með sama og ekkert fjármagn í höndunum hefur hann fengið fullkomið frelsi til að gera það sem hann vildi. Væntanlega afslappaðri framleiðsla og miklu meira svigrúm. En jákvæði afraksturinn hjá Derrickson er samt að mörgu leyti samstarfsfélaga hans að þakka.

það er alltaf ljótupeysudagur hjá Ethan Hawke

Ég get ekki annað en stutt það í botn að gefa (nörda)gagnrýnendum oftar tækifæri til að skrifa bíómyndahandrit þegar þeir hafa eitthvað fram að færa. Sá sem skrifaði handritið með leikstjóranum er frekar óþekktur (en samt ekki) gæi að nafni C. Robert Cargill, sem var áður þekktur sem Massawyrm á Aint it Cool eða Carlyle á Spill.com. Í mörg ár hafði ég fylgst með skrifum Cargills og að mínu mati kemur stór hluti af hans persónuleika til skila hér. Leikstjórnin er fagleg á flestan máta ef andrúmsloftið er til umræðu en það sést samt að einhver hugsun hefur verið lögð í það á blaði hvar og hvernig er best að byggja upp gæsahúðarstemmninguna. Það og samtölin eru alls ekki illa skrifuð. Cargill og Derrickson mynda frábært teymi og takmarkaða fjármagn þessarar framleiðslu hefur leyft þeim að leika sér helling með regluna þar sem minna þýðir meira. Ethan Hawke bætir líka miklu við býsna athyglisverðan og fjarlægan karakter sem leitast eftir að upplifa gömlu frægð sína aftur. Hlutverkið er ekki fjölbreytt, því eins og gengur oft og gerist í svona myndum snýst þetta oft um að labba hægt um og sýna viðbrögð, en a.m.k. er örlítil persónusköpun sem fylgir hér með inn á milli.

Ef mér skjátlast ekki þá var þessi mynd skotin með því hugarfari að fara ekki í hærri aldursstimpil heldur en PG-13 í Bandaríkjunum. Það er mjög lítið ofbeldi, engin nekt og blót í einkennilegu lágmarki. Á endanum hlaut myndin hins vegar R-merkið ógurlega og þá fyrir það eitt að vera alltof „intense“ og hugmyndalega grimm fyrir unglinga. Ég tel það vera hið ótrúlegasta afrek fyrir mynd af þessari tegund og satt að segja finnst mér það segja nákvæmlega allt um fíling og andrúmsloft myndarinnar. Sinister er ekki að fara vinna nein stig fyrir óútreiknanleika en hún heldur rétt á spilunum og kemur að manni eins og ferskur en samt drungalegur vindblær og eftir allar þessar glötuðu hrollvekjur upp á síðkastið er auðvelt að undirstrika það að hún er nokkuð vel þegin, allavega þangað til hún byrjar að leysast upp í skammtímaminninu.

god

Besta senan:
Endirinn tbh.

6 athugasemdir við “Sinister

  1. Sláttuvélin er góð, en þegar leið að lokaskotunum var ég snögglega farinn að leita að Spongebob-bangsanum mínum svo ég gæti knúsað hann…

  2. Er hún öll found footage eða? Annars flott gagnrýni!

  3. Old school hryllingsmynd sem tekur sér nægan tíma til að byggja upp persónur og spennu. Sagan er áhugaverð og grípandi. Ethan Hawke er frábær í þessari mynd þegar þráhyggjan fer að byggjast upp og leyndardómarnir hlaðast upp. í hóp með betri hryllingsmyndum undanfarinna ára.

  4. Jónas:
    Nei, ekki öll found footage. Langt frá því :)
    Hins vegar fjallar myndin um mann sem bókstaflega finnur gamlar filmuupptökur (i.e. „found footage“) og spilast mikið af gæsahúðaratriðum í kringum það concept.

  5. Ótrúlega vel uppbyggð spenna alla myndina án þess að hún fari út í öfgar með ógeðissemi. Ein besta hryllingsmynd seinni ára. Þessi found-footage atriði eru öll mjög góð.

Sammála/ósammála?