Rise of the Guardians

Hér er eitthvað sem ég þoli ekki: þegar frábærum tækifærum er sóað í miðlungsgóðar bíómyndir. Rise of the Guardians er nákvæmlega ekkert annað en stórkostlega útlítandi sóun á góðu tækifæri til að gera eitthvað athyglisvert og djúsí með sniðuga „team up“ hugmynd með mikla möguleika. Það er algjörlega sanngjarnt að segja að þetta geri nokkurn veginn það sama fyrir (erlend) smábörn og The Avengers gerði fyrir unglinga og nörda, nema lokaafraksturinn á ekki jafnmikið erindi til eins breiðra hópa.

Í eina teiknaða hasarmynd er búið að sameina Jólasveininn (sem er viðbættur þeim æðislega vinkli að vera rússneskur töffari), Páskakanínuna, Sandman (öðru nafni Óli Lokbrá), Tannálfinn og Jack Frost í eina rassasparkandi grúppu af engri spes ástæðu, fyrir utan að það hljómar kúl, selur vel og býður upp á alls konar hlaðborð af skemmtilegum fantasíuhugmyndum. Til að gera söluræðuna betri er Guillermo Del Toro einn af framleiðendunum. Þess vegna skil ég ekki hvernig í fjandanum myndin getur verið svo óspennandi, eins og það myndi í alvörunni skaða hana að sýna smá metnað. Heill hellingur gerist í henni en samt þaut þetta allt framhjá mér á meðan mér stóð á sama um langflestar senurnar, nema þessar sem voru skuggalega fyndnar og/eða frumlegar. Það er nógu mikið af þeim til að gera myndina ekki leiðinlega, en samt ekki nógu mikið til að gera snjalla ævintýrið og hugmyndanýtinguna fullnægjandi. Það. Er. Fúlt.


Ég ætla að láta það í friði að velta mér of mikið upp úr því hversu asnalegt það er að skíra þessa mynd Rise of the Guardians, því í upphafi sögunnar eru þessir Guardians-gæjar löngu búnir að rísa (í klassískri merkingu orðsins). Það sem hins vegar mest angrar mig við myndina er hvernig hún rís aldrei sjálf upp úr því að vera annað en hreint og beint krakkafóður. Ekkert að því svosem, enda efa ég ekki að börn í kringum 10 ára og yngri elski hana í botn. Stundum er samt eins og myndin vilji að hinir fullorðnu njóti sín líka, en það gerist svo sjaldan að maður verður aðeins pirraðri gagnvart heildarmyndinni. Guardians græðir hvað mest á því að vera hröð og hasardrifin grafíkveisla en hún tekur þá stefnu á kostnað þess að vera pappírsþunn, frekar tilfinningadauð og fárveik í frásagnardeildinni þegar allt kemur til alls.

Raddirnar eru fínar (fyrir utan Alec Baldwin, sem er FRÁBÆR sem rússneski Sveinki) og útlitið vel í lagi, en einhvern veginn líður manni orðið eins og það sé sjálfsagðasti hlutur í heimi þegar teiknimynd kostar í kringum 150 milljón dali. Hún er meira að segja sérstaklega hönnuð með það í huga að virka á mann eins og 3D rússíbani fyrir börn með dýnamískri skothönnun og flugsenum í miklu magni. Ég hefði reyndar ekki verið ósáttur með að fá betri tónlist með þessu öllu, eða í það minnsta eitthvað soundtrack sem hægt er að raula og gerir hetjufílinginn betri, epískari eða merkilegri. Það virkaði dásamlega í Avengers! Myndinni virðist vera eitthvað svo sama með það hvað sameiningin á þekktu fígúrunum hefði getað léttilega átt heima í vandaðri og fullorðinslegri mynd. En helsti markhópurinn er greinilega það eina sem skiptir.

Íslensk börn geta því miður ekki notið Rise of the Guardians á sama stigi og þau erlendu, ekki án þess að nokkur þeirra klóri sér í hausnum af og til. Á klakanum er augljóslega engin páskakanína, ekki einn alþjóðlegur jólasveinn heldur þrettán, Íslenskir og perralegir, og man ég ekkert eftir neinni eftirminnilegri tilvísun í okkar menningu í karakter að nafni Jökull Frosti (þ.e. Jack Frost… döö). Annars er svo bjánalega augljóst hvað Guardians er mikið að reyna að vera peningasegull. Goðsagnahrærigrautur af þessari gerð er nógu mikið peningaplokk út af fyrir sig en myndin getur allt eins sett upp textaskilaboð í lokin þar sem á stæði: „Við viljum búa til fanchise-merki úr þessu!“ Til að kóróna það er þetta hin fullkomna afsökun til að gefa út teiknimynd sem vill bæði vera páska- og jólamynd á sama tíma, sem er líklegast ódýrasta en á sama tíma snjallasta lausnin til að tryggja sér lengra líf hjá markhópnum. Best kýs ég samt að kalla þetta fínustu barnapíu, en í þessu tilfelli er barnapían ekki að lokka mig nógu mikið með töfrum sínum, en þó eitthvað.

meh
Besta senan:
Operation: tennur

8 athugasemdir við “Rise of the Guardians

 1. Hann birtist á næstu dögum, takk fyrir áhugann :)
  Ætla fyrst að sjá Zero Dark Thirty og Sessions til að kanna hvort þær eigi erindi þangað. Annars ætti hann að vera reddí.

 2. Minn til gamans. Á samt eftir að sjá The Master, Django og Zero Dark Thirty.

  10. Magic Mike.
  9. Lawless.
  8. 21 Jump Street
  7. The Cabin in the Woods
  6. The Avengers
  5. Moonrise Kingdom
  4. Skyfall
  3. Looper
  2. The Dark Knight Rises
  1. Cloud Atlas

 3. Góður listi. Það er ekkert value í því hvort sem er að ræða um Rise of the Guardians þannig að fólk getur allt eins bara póstað árslistunum sínum hér :D

 4. Top 10 frá 2012 að mínu mati (á samt eftir að sjá fullt sem eru líklegar að komast inná listann)

  10. Skyfall: 9/10
  9. Argo: 9/10
  8. End of Watch: 9.5/10
  7. Silver Linings Playbook: 9.5/10
  6. Looper: 9.5/10
  5. The Hobbit: An Unexpected Journey: 9.5/10
  4.Life of Pi: 10/10
  3. The Dark Knight Rises: 10/10
  2. Cloud Atlas: 10/10
  1. The Impossible: 10/10

 5. Djók.

  10. The Cabin in the Woods
  9. The Avengers
  8. Moonrise Kingdom
  7. Skyfall
  6. Killing Them Softly
  5. Looper
  4. The Master
  3. Django Unchained
  2. The Dark Knight Rises
  1. Cloud Atlas

Sammála/ósammála?