Jack Reacher

Sumir í heiminum þurfa að sætta sig við hlutina eins og þeir eru. Ef það er einhver sem kann sitt fag sem commercial bíóstjarna, þá er það Tom Cruise. Þessi maður getur tekið að sér hin ótrúlegustu hlutverk og verið mjög svo sannfærandi í þeim, en harðsoðni naglinn er aldeilis ekki eitt þeirra, sérstaklega ekki þegar fyrirmyndin á að vera tveir metrar á hæð með fullkominn prófíl. Að leika töffara er ekki það sama og að vera töffari. Spyrjið bara Idris Elba.

Krúsarinn finnur sér reyndar alltaf leið til að láta fara vel um sig, sama hvaða eða hvers konar karakter hann leikur, en stundum er hann bara röng stjarna í réttri mynd – án þess að hann fatti það endilega sjálfur. Jack Reacher markar að vísu stóran kafla hvað hans feril varðar á þessu stigi, og stubburinn hefur ekki passað svona illa í umhverfi sitt síðan hann lék nasistahermann fyrir fjórum árum. Heldur hefur hann ekki verið svona þvingaður með „kúlið“ sitt síðan hann þaut um með sítt hár, sólgleraugu og í leðurjakka á mótorhjóli í kringum aldamótin. Það er eitt að horfa á lélega John Woo-mynd, en það er miklu vandræðalegra að vera andstæðan við töffara í John Woo-mynd.

Mér þykir orðið ómetanlegt hvað Cruise hefur lengi verið að reyna að breyta sér í James Bond-týpu Bandaríska mannsins. Svona eins konar sexí karlmannsfantasíu um ósigrandi hetju sem berst fyrir réttlæti í nafni þjóðarinnar – eins og Bond. Þó yfirdrifinn sé er Jack Reacher alveg ótakmarkað svalur karakter (á blaði, athugið það!) sem gerir ýmislegt kúl, en að mínu mati er það aðeins bíóstjarnan sem fittar ekki í klæðaburðinn. Þegar maður horfir á Jack Reacher þá sér maður ekki fígúruna, heldur Tom Cruise, leikara og stórstjörnu að þykjast vera að brillera á nýjum sviðum. Handritið á myndinni er reyndar undarlega gott, kannski fullhefðbundið, gamaldags á slæman hátt og kjánalegt stundum, en það er ýmislegt brútal og bítandi til staðar. Leikstjórinn virðist bara ekki vera að sjá hlutina í réttu ljósi.

VS.

Hausinn á mér var að springa á meðan þessari mynd stóð. Stundum er hún grafalvarleg, stundum kómísk, stundum fjarstæðukennd. „Á þetta að vera svona? Er ég að horfa á paródíu?“ spurði ég gjarnan sjálfan mig. Jack Reacher-myndin er oft svo hallærislega yfirdrifin – en samt með áhuga á köldum raunveruleikanum – að heilasellurnar fóru ósjálfrátt að hoppa í hringi. Myndin sem poppaði hvað oftast í hausinn á mér til samanburðar var MacGruber, nema hún var augljóslega að reyna að vera grín, annað en þessi. Jack Reacher væri vel heppnuð en kannski ekkert alltof eftirminnileg ádeila ef það væri það sem hún vildi vera, en hún er í staðinn bara misheppnuð tilraun að B-mynd sem vill svo innilega vera harðari, merkilegri A-mynd.

Efniviðurinn hefði pottþétt getað gengið upp í mynd með öðruvísi tón og öðrum leikara í titilhlutverkinu. Díalógurinn er stundum skemmtilegur en flutningurinn gerir áferðina alla svo ósannfærandi og neyðarlega. Það er ástæða fyrir því að svona þægilegt er að hafa fædda harðhausa til þess að leika í myndum sem ganga ekkert út á annað en að sýna hvað þeir búa yfir sterkri nærveru. Allt við Reacher-rulluna er samt svo ofaukið að venjulegir töffarar myndu jafnvel eiga erfitt með að púlla hana án þess að myndin væri keyrð sem eitt stórt grín. Cruise tekur samt ekkert eftir þessu. Hans hugsun út alla myndina er þrennt: 1. Að líta vel út (og reyna eftir bestu getu að fela réttu stærð sína). 2. Að reyta af sér stórsnjalla one-linera. 3. Sýna heiminum hversu svalur hann er með því að búa yfir gallalausasta hetjuprófíl í heimi!

Reacher lætur engan yfir sig vaða og er dáður af hverjum einasta kvenmanni sem lítur í áttina til hans. Einnig er hann föðurlandsvinur, hermaður, spæjari; góð skytta, brilliant ökumaður og expert í slagsmálum. Hann er m.a.s. svo flinkur í líkamlegum átökum að hann sér til þess að óvinirnir rústi sér sjálfum þegar hann liggur niðri særður (!). Ég sé ekki betur en að þetta sé eins og alvarleg, „jarðbundin“ útgáfa af skopstælingunni sem hann lék í Knight & Day og ég er heldur ekki frá því að sá karakter sem hann lék þar hafi verið trúverðugri sem gölluð, manneskjuleg persóna heldur en Reacher.

Tónninn ræður öllu og miðað við hvernig Christopher McQuarrie tæklar leikstjórnina er eins og hann vilji síður gera eitthvað heilalaust og frekar að áhorfendum þyki söguþráðurinn og framvindan ofsalega spennandi. Það er hún alls ekki, þó ég geti alveg séð fyrir mér að þetta gangi betur upp sem skáldsaga. Ég skil samt ekki alveg hvernig McQuarrie breyttist svona fjandi mikið. Þetta virðist ekki alveg vera sami maðurinn og skrifaði The Usual Suspects eða leikstýrði The Way of the Gun (sem er hræðilega vanmetin!), en reyndar átti hann líka þátt í myndinni Valkyrie, þar sem Cruise átti heldur ekkert erindi í aðalhlutverkið. Ljúffeng kaldhæðni.

Hiiiiiighwayyyy 2... the... DANger Zone!!

McQuarrie er langt frá því að vera slakur leikstjóri. Útlitið á myndinni kemur vel út og kvikmyndatakan ber næstum því af (og ekkert shaky cam, sem er oftast plús!). Það eru góðir kaflar hér til staðar, eins og fjörugur bílaeltingarleikur og skemmtilega grimmt ofbeldi (sem hefði orðið 10x svalara með öðrum í aðalhlutverkinu), en mér gat ekki staðið meira á sama um allt vegna þess að vandræðalegheitin þvælast bara fyrir. Að halda aftur léttum hlátri er síðan ómögulegt þegar tilfinningaklám birtist upp úr þurru eða þegar titilhetjan kýs að fara í gegnum allar helstu klisjur sem til eru (þar á meðal ómótstæðilegan einvígisslag í dramatískri rigningu, eftir að vopnin hafa verið lögð niður). Það að Cruise nái að framkvæma alla þessa hluti með eðlilegan svip gerir það erfitt fyrir mann að sjá hvort hann sé bara að fokka í áhorfendum eða þykjast meira meira en hann er.

Það reyna allir svo stíft á sig, sem segir að leikararnir hafa allir lagt mikið traust til leikstjórans, og hálfóþægilegt er að sjá Rosamund Pike, Robert Duvall, Richard Jenkins, Werner Herzog (af öllum mönnum – sem illur manndjöfull) og fleiri leggja það á sig að leika eins og þau séu stödd í þriðja flokks sjónvarpsþætti eða pulp-trylli sem er tveggja áratuga gamall. Jack Reacher kemur þokkalega út í afþreyingargildinu, en ekki á þann máta sem hún ætlast til. Það ætti að vera hægt að njóta hennar án þess að rýna fullmikið í hana, en sama hvaða hlið hún er skoðuð frá mun hún lifa stutt í minninu.

Sæt tilraun, en Cruise skal framvegis halda sig við það hlaupa frekar en að pósa og ganga með stæl.

meh

PS. Jack Reacher er… EKKI… töff… nafn.

Besta senan:
Eflaust eltingarleikurinn, eða afleiti „Lethal Weapon“ slagurinn.

Sammála/ósammála?