Speed Racer

Speed Racer er hiklaust svarið ef einhver skyldi nokkurn tímann hafa velt því fyrir sér hvernig tilfinningin er að vera laminn í klessu af litum. Aldrei skal nokkurn tímann vanmeta það hvað þessi eina barna-/fjölskyldumynd getur verið ódauðlega mikil pop-art bomba, eins og heilinn á manni hafi farið í gegnum regnbogatripp á 200 km hraða. Svona myndum ætti að fylgja með skilaboð til þeirra sem eru með aðgang að eitruðum sveppum, því þó freistandi sé þá myndi ég láta það í friði að horfa á Speed Racer undir svo sterkum áhrifum, svona helst svo að stílsúpan myrði mann ekki. Myndin reynir nógu mikið á augað þegar maður horfir á hana edrú, en það er alls ekki meint í neikvæðri merkingu. Hún er bara svo… öðruvísi! En öðruvísi er ekki slæmt þegar djarfir hugsjónarmenn sitja við stjórnvölinn, eins og óðir krakkar í kappaksturstölvuleik, með anime-glampa í augunum sem fáir eða engir aðrir kanar geta skákað.

er 2 player möguleiki?
Það er vægt sagt að stíllinn sé í aðalhlutverki. Stíllinn ER nánast öll myndin! Og hann er gríðarlega fallegur. Lagt er svo mikið upp úr þessu blessaða útliti, bæði til að gera rammana meira grípandi og til að gefa hinum rólegustu senum mikið líf. Andstæðan gildir þó um senur sem eru ekki svo rólegar, því t.d. þegar bifreiðar eru farnar að urra (og slást?) er eins og teiknimyndafjandinn sé algjörlega laus. Annars eru tvær stórar ástæður fyrir því að myndin gengur alveg upp að mínu mati; hún gefur fyrst og fremst orðinu sjónarspil uppfærða og steiktari merkingu og svo að auki dáist ég mikið að því hvernig myndinni tekst að vera akkúrat það sem hún ætlar sér að vera, án þess að skammast sín fyrir það í eina mínútu. Wachowski-systkinin eru ekkert smeyk við það að ýkja allt upp á réttum stöðum til að vera beint í takt við snargeðveiku anime-fyrirmyndina og er öruggt að segja að talsvert hugrekki hafi farið í þá ákvörðun að gefa mynd af þessari tegund út í 130 mínútna lengd.

Wachowski-dúóið étur greinilega dirfsku í öll mál, sem eitt og sér undirstrikar mikilvægi þeirra í iðnaðinum. Systkinin stefna hátt og ná einstaka sinnum meistarastiginu en alls ekki alltaf, sem bíttar samt litlu því með hverri einustu mynd er prufukeyrt eitthvað nýtt og ferskt. Mér finnst eitthvað pínu svalt við tilhugsunina að læv-aksjón anime-mynd (meint í orðsins fyllstu merkingu!) renni yfir tvær klukkustundir en á sama tíma er lengdin helsta undirstaða þess að myndin er góð en ekki frábær. Söguþráðurinn er frekar beinn og þunnur og safnast ábyggilega upp 10-15 mínútur af atriðum sem eru kannski ekki alveg tilgangslaus, en hafa skaðleg áhrif á heildarflæðið.

Miðað við mynd sem gengur nær alfarið út á hæper kappakstur tel ég það nokkuð kaldhæðnislegt hversu hæg framvindan er og þar að auki koma oft upp langar perdíódur þar sem fyllt er í mismikilvægar upplýsingar. Það er hæga keyrslan sem fær mig til að forvitnast um hvort þetta sé í rauninni klikkuð og yfirdrifin barnamynd handa fullorðnum (eða barninu innst inn í fullorða fólkinu), en svo er eins og unnið sé gegn slíku markmiði þegar söltuð eru út skelfilega barnaleg móment, sem tengjast vanalega yngsta bróðurnum Spritle og apanum hans, Chim-Chim. Allt er a.m.k. gott í hófi og ég hefði ánægður viljað halda þeim tveimur í hófi. Það er eitt að vera yfirdrifið, því myndin liggur stolt í yfirdrifnum barnaskap, en svo er annað að stíga út fyrir tóninn og vera bara mökkpirrandi.

Super Mario og fjölsk???

Leikararnir standa sig allir frábærlega og er hver og einn í réttum gír miðað við leikstílinn sem er krafist af þeim. Allir eru mátulega ýktir en samt nógu jarðbundnir til að gera mannlegu þættina ekki of tilgerðarlega. Svo virðist ímyndunaraflið hafa virkað hjá öllum þeim sem hafa þurft að leika í adrenalínatriðum sem voru öll tekin upp fyrir framan grænt tjald. Emile Hirsche er góður, Christina Ricci er algjör dúlla og Matthew Fox gerir sitt besta til að fela innri Matthew Fox-leikann sinn, sem getur verið ágætt. Sérstakt hrós verð ég að vísu að gefa John Goodman (vegna þess að… ja… hver elskar ekki John Goodman þegar sálin hans skín í gegn?), Susan Sarandon (því hún er fullkomin í hlutverki miðaldra móður) og Roger Allam.

Það er eitthvað við Allam og hans takta sem gerir hann að illmenni sem er auðvelt að hata. Oftast reyni ég að hundsa það hvað hann er fáránlega líkur Al Gore, en ég geri ráð fyrir að systkinin þekki styrkleika þessa manns mjög vel. Hann lék nú einnig argasta skíthæl í V for Vendetta, en hér fær hann alveg að sleppa sér sem stórfyrirtækjafíflið sem vill halda utan um alla tauma og traðka á draumum litla mannsins. Reyndar hafa systkinin ekki farið leynt með það að barátta titilhetjunnar í myndinni við stórlaxanna endurspegli nokkurn veginn hvernig þau hafa upplifað Hollywood-bransann. Að gera eitthvað beint eftir hjartanu er ekki alveg eitthvað sem peningamaskínurnar eru sammála og að mörgu leyti er Speed Racer ein sú persónulegasta mynd sem leikstjórarnir hafa gert.

Sagan er voða lala og alls ekki neitt til að grípa í hjartað eða gefa manni ástæðu til þess að fagna en sem betur fer eru kappaksturssenurnar – og brautirnar sjálfar – nógu fjölbreyttar til að halda lengdinni rúllandi þegar hún er hætt að skríða. Tónlistin hefur einnig föst tök á andrúmsloftinu og sjónræna gildið er alveg næg ástæða til þess að setja myndina í gang annað slagið, a.m.k. fyrir þá sem hafa anime og leikstjórasystkinin í háu áliti. Speed Racer er nefnilega ekki veisla fyrir augað heldur heil árshátíð! Þetta er eitthvað sem maður þarf að sjá í sjónstingandi háskerpu, því það er eina leiðin til að hún njóti sín. Retró-framtíðarlúkk býður ekki upp á annað.

hiiiiighway tooo... ðö...daiin-ger  zone

Ljósa og litadýrðin poppar svo sterkt út og kvikmyndatakan (með mergjaðri lýsingu og skotuppsetningu sem nýtir 2:39 hlutföllin glæsilega) gengur aldeilis alla leið með teiknimyndafílinginn, t.d. með því að hafa flesta ef ekki alla rammana í fókus, alveg sama hvað er í for- eða bakgrunni. Ef heildarlengdin væri styttri og hnitmiðari væri hér ábyggilega efni í absúrd meistaraverk, eða svo gott sem, miðað við það sem er í boði. Ég dýrka stílinn, dýrka leikaranna og elska hvernig myndin gefur manni eitthvað sem maður hefur aldrei séð áður í leikinni Hollywood-mynd.
Er það ekki eitthvað?

god
Besta senan:
Þegar kameran zúmmar inn á hringinn á Goodman. Þið hljótið að fatta.

Ein athugasemd við “Speed Racer

  1. Langar að elska hana, eins og ég elska útlitið í kappökstrunum og hugmyndaflugið, en hún er aðeins of sérstök fyrir minn smekk.
    Bakgrunnavinnslan fer sérstaklega í mig á köflum, þá aðallega utan biluðu brautanna. Blöndunin á raunverulegu og tölvubrellum er eins og örlítið dýrari Spy Kids á köflum og tóninn er ÚT UM ALLT.
    Sammála því sem þú segir myndina gera rétt (eða reynir), ég get bara ekki fílað hana eins sterkt og mig langar. Hefði hún samræmst stiklunum meira hefði ég verið muuuun hrifnari af Speed Racer.

Sammála/ósammála?