The Impossible

Sannsöguleg bíómynd um fjölskyldu sem lendir í náttúruhamförum er ekki eitthvað sem er erfitt að festast í, og engan veginn þegar endursögnin er svona vönduð og sterk. Flóðbylgjan í Tailandi um jólin 2004 kostaði yfir 220 þúsund manns lífið, þannig að varla er hægt að skilja hvernig er ekki hægt að nálgast efnið smekklega og með gríðarlegri nákvæmni og virðingu. Það eru mörg atriði í The Impossible sem ættu heima í einhverju meistarastykki. Þau eru tense, átakanleg og trúverðug, sem þýðir að hún gerir nákvæmlega það sem allar stórslysamyndir eiga að gera: að láta manni líða eins og maður sé á staðnum. Myndin þyrfti ekki einu sinni að vera sönn til að vera svona kröftug, en það sem tekur af henni allt vald til að verða að ómetanlegu skylduáhorfi er hversu fast og oft hún reynir að sjúga úr þér tárkirtlana til þess þú hættir ekki að sjúga upp í nösina.

Það er rétt aðeins skimað yfir hryllinginn sem fylgdi þessu atviki til að geta sagt meira upplífgandi sögu um von þegar líkurnar eru ekkert rosalega góðar. Ég hefði verið til í að sjá sjóndeildarhringinn stækkaðan með fleiri þemum og (eins ljótt og það er að segja það) aðeins meiri áherslu á grimmdina til að áhorfið sæti sem lengst í kollinum. Þó Juan Antonio Bayona sitji við stjórnvölinn (hann er sá sami og gerði hina ágætu El Orfanato) finn ég óttalegan Spielberg-þef af þessari mynd, á bæði vondan og góðan hátt.

Mynd af þessari tegund ætti samt aldrei nokkurn tímann að þurfa að draga mann á þá staði (þ.e.a.s. tilfinningalega) sem maður vill sjálfur komast á þegar sannsögulegi krókurinn er svona kröftugur. Ef það væri til reglubók sem sýnir hvernig best væri hægt að fara að því að gera mynd sem er truflandi en örugg til að græta áhorfendur, þá myndi þessi mynd vera hlaðin fáránlega mörgum punktum úr henni. Sagan sem hún hefur að segja er sannarlega ótrúleg en handritið er ekkert meira en þokkalegt. Gott drama verður ósjálfrátt til úr atburðarásinni en stundum er farið aðeins of langt yfir línuna, á máta sem væmni-Spielberg væri ótrúlega stoltur af. Hins vegar eru líka kaflar sem djarfi-Spielberg hefði dýrkað. Þetta er skrítið jafnvægi, því öflugustu atriðin eru nokkuð erfið og sum jafnvel hjartnæm. Svo eru önnur tilfelli þar sem músíkin drekkir góðum mómentum í talsverðu melódrama. Þetta er mynd sem segir „Ég ÆTLA að sjá til þess að þú grátir!“ Upp úr lokin er orðið smávegis vandræðalegt hversu margar tilraunirnar eru orðnar. Kannski eiga áhorfendur að metast um hver getur grátið meira ofan í heila fötu.

Ég rétt slapp undan vælubílnum en góðu atriðin standa hátt upp úr minninu, nema þegar samtölin eru í klisjukenndari kantinum. Slíkt gerist en leikararnir eru svo frábærlega tjúnaðir inn í myndina. Allir eru í krefjandi hlutverkum og dáist maður mikið að því hversu andlega berskjölduð þau Naomi Watts og Ewan McGregor eru, einkum hvað þau leggja á sig. Börnin hafa það augljóslega ekkert auðvelt heldur. Elsti krakkinn, Tom Holland, er ekki fullkominn en ber sig mjög vel í næsterfiðasta hlutverkinu á eftir Watts. Mér gekk samt eitthvað illa að hafa tölu á því hversu oft allir grétu, en varla er það óeðlilegt í þessu tilfelli. Sjokkerandi er að vísu hve mikil áhersla er lögð á það, eins og maður hafi ekki alveg fattað það fyrr hvað aðstæður eru hræðilegar.

Sennilega hefði ég íhugað hærri einkunn ef tónlistin hefði verið aðeins lágstemmdari ef ekki bara fjarverandi í völdum atriðum. Framleiðslan yfir heildina er óaðfinnanleg en þegar öllu er á botninn hvolft er þetta hálfgerð „tour de force“ vasaklútamynd, en mjög mikilvæg sem slík, sem betur fer. Það verður fljótt rakt í salnum/herberginu/stofunni ef margir tilfinninganæmir koma sér saman til að horfa á hana. Þeir sem sýna nákvæmlega engin viðbrögð á þessum tveimur tímum eru af ómannlegri gerðinni sem er oftast kennd við sálarleysinga og sósíópata. Tilraunin er að kanna sjálfur á hvorum endanum maður lendir. Svo er miðjan alltaf opin.

god
Besta senan:

Flóðbylgjan – frá sjónarhorni Naomi Watts!

Sammála/ósammála?