Django Unchained

Í raunsæjum heimi ætti meistari eins og Quentin Tarantino að vera sama og útbrunninn. Á tímapunkti, fyrir mörgum árum síðan, gat ég alveg ímyndað mér að egó og sjálfsdýrkun hans myndi verða honum að falli vegna mikillar pressu sem hefur fylgt hverri einustu mynd. Hann getur aðeins sjálfum sér kennt um að setja standardinn svo hátt snemma á ferlinum, þannig að líkurnar voru álíka litlar og háar. Hins vegar virðist heilinn á þessum sérvitringi ekki lifa í raunsæjum heimi. Stíl- og ofbeldisbræðingarnir hans hafa allir verið misjafnlega safaríkir en af Django Unchained að dæma hefur þessi brenglaði snillingur þroskast mikið og þróast í réttu áttina án þess að tapa kúlinu sínu eða röddinni sem hann hefur alltaf verið þekktur fyrir. Hingað til hefur ekki sést stærri, lengri, kvikindislegri en jafnframt mannlegri og ef til vill svalari ræma frá Tarantino. Ég legg öll mín spil niður og segi að hún sé líka sú besta.


Einkenni spagettívestrana hafa lengi verið æpandi en loksins hefur leikstjórinn ákveðið að láta vaða með því að sníða sinn eigin, sem að sjálfsögðu notfærir sér klassíska stílinn en tekur líka blaxploitation-vinkilinn á þetta. Allir þeir kostir sem hafa áður prýtt bestu myndir mannsins finnast hér í stórum, dreifðum og gylltum skömmtum. Django sveiflast stöðugt á milli þess að vera hörð, ljót, spennandi og sprenghlægileg. Það er bílhlass af atriðum sem eru strax orðin sígild við fyrstu kynni og smalast þetta allt í kringum ferskan fíling og stórskemmtilega, óútreiknanlega atburðarás frá byrjun til enda. Oft er leikstjórinn aðeins of örlátur með lengd á senum en aldrei fann ég fyrir því hér, sem segir frekar mikið miðað við lengdina sem þessi mynd þarf að glíma við. Aldrei dauður punktur og ekkert tilfelli þar sem sena spilast mikið lengur út en þörf eru (nema þegar Franco Nero mætir hetjunni – en það er gott móment fyrir þá sem fatta). Og eins og oft áður sækist Tarantino í langar, hægar en markvissar senur og nýtir síðan hvert einasta skot til fulls þegar ofbeldið springur út á réttu augnablikunum.

Sagan rígheldur; glæsilega samsett og enn betur skrifuð. Það er ekki eitt einasta atriði sem Tarantino hugsar ekki út með ástríkri smámunasemi og vildi ég rétt svo óska að fleiri leikstjórar myndu brennimerkja vörurnar sínar með svona áþreifanlegri ánægju fyrir vinnunni sinni. Aðeins manneskja sem andar að sér kvikmyndum í stað andrúmslofts getur blandað svona einstakan og abstrakt skemmtilegan bíókokteil með því að virða gamla skólann en semja einnig eigin reglur. Auga skrautfuglsins fyrir flottri kvikmyndatöku verður sömuleiðis betra með aldrinum og eyru hans fyrir vali á gömlum stefjum eða gleymdum lögum eru hreint út sagt undursamleg. Ekki veit ég alveg hvað maðurinn er að reykja til að geta myndað svona gallalausa tengingu á milli atriða sinna og tónlistar en ég vona að hann leggi það ekki frá sér.

Ég held að Pulp Fiction verði alltaf mín uppáhalds Tarantino-mynd, sennilega vegna þess að replay-gildi hennar hefur ávallt verið ódauðlega sterkt að mínu mati, en Django er á marga vegu sú fullkomnasta sem hann hefur gert hingað til, eflaust sú mikilvægasta líka. Þetta er önnur myndin í röðinni sem bæði vitnar beint í hundgamlan titil (án þess að endurgera fyrirmynd sína beint) og leikið sér er með mannkynssöguna eins og hún spilast út í sturlaða hugarheimi leikstjórans. Það er hvergi gengið svo langt með *stórar* breytingar, eins og að fara með seinni heimsstyrjöldina í þá átt sem sögubækur myndu aldrei samþykkja, en í staðinn er lögð átakanleg áhersla á þrælahald í suðurríkjunum. Gengið er gjörsamlega alla leið með hugrökku meðhöndlunina og kemur hvergi til greina að fegra hlutina. Hellað djörf ákvörðun ef á að segja eins og er, og myndin styrkist ótrúlega á þessu. Amistad getur átt sig. Ég mana samt fólk til að taka viskískot í hvert skipti sem einhver segir orðið „Nigger.“ Bara til að sjá hvort það endist út fyrri helminginn.

Tarantino hefur undanfarinn áratug verið fastur í sínum refsigjarna hefndargír. Karlmenn sem gengu of langt með að níðast á kvenfólki fengu sérdeilis að kenna á því, fyrst í Kill Bill og síðan Death Proof. Svo fengu náttúrulega gyðingarnir sína útrás gegn nasistunum í Inglourious Basterds og að þessu sinni fá hvítu djöflarnir að finna vel fyrir því á verstu stöðum fyrir að vera ekkert annað en skítseiði í besta falli gagnvart þrælum. Með hverri mynd á þessari öld hefur leikstjórinn þrepað sig aðeins upp í reiðinni, sem er engin ástæða til þess að kvarta. Það er nú fátt sem djúsar meira upp yfirdrifið bíóofbeldi eins og fórnarlamb sem lætur engan fokka í sér. Þess vegna er titilkarakterinn í þessu tilfelli umsvifalaust kominn í hóp eftirminnilegustu Tarantino-karakteranna. Sá listi er þegar orðinn nokkuð langur, en eiginlega allir sem eru í aðalhlutverki í þessari mynd vísa sér sjálfkrafa inn á hann. Það kemur einhvern veginn bara ekki annað til greina.

Tarantino virðist alltaf ná því besta úr leikurum sínum þegar þeir túlka karaktera sem eru að öllum líkindum frábærir á blaði og verða þar af leiðandi betri á skjánum. Jamie Foxx, Christoph Waltz og Leonardo DiCaprio eru býsna fullkomnir hér, enda skiljanlegt að þessir menn séu upp á sitt besta með svona góðar persónur og traust handrit. Foxx er glerharður, manneskjulegur og almennt til fyrirmyndar sem Django. Saman á hann meiriháttar samleik við Waltz, sem enn masterar Tarantino-samtölin betur heldur en flestir. Ef hann verður ekki fastagestur áfram verð ég ógurlega leiður.

Samuel L. Jackson, í ruddalega kjörkuðum gír, hefur ekki verið svona öflugur í áraraðir. Hann á alveg jafnmikinn leiksigur og hinir og varð ég fljótt hrifinn af því hvað Kerry Washington gerði mikið með krefjandi hlutverk sem býður upp á mjög mikið af litlum smáatriðum sem þarf að negla rétt. Það gerir hún, en DiCaprio fær sennilega besta hrósið fyrir það eitt að gera eitthvað allt, allt öðruvísi en maður sér hann vanalega gera – og standa sig snilldarlega í því. Það kæmist ekki hver sem er upp með það að leika mennskan viðbjóð sem er athyglisverður og bráðskemmtilegur á sama tíma. Ef eitthvað ætti séns í að skaða myndina að einhverju leyti er það ákvörðun leikstjórans að setja sjálfan sig í lítið hlutverk. Hann á ekki nema örfáar línur og klúðrar þeim öllum með skelfilegum áströlskum hreim, eða eitthvað sem líktist lélegum Suður-Afrískum hreim miklu frekar. Lukkulega tekst þessum manni að finna brilliant leið til að réttlæta það að staðsetja sig þarna.

Hvað frásögn varðar er Django kannski sú „hefðbundnasta“ (athugið gæsalappirnar, gott fólk!) frá manninum en sagan gerir honum kleift að brýna hnífinn betur en nokkru sinni fyrr. Samt, á bakvið stílinn, kjaftinn, ofbeldið, grimmdina, svarta húmorinn og bíómyndalegan töffaraskap sem gefur manni þrumuspark í klofið þá er Tarantino orðinn miklu tilfinningaríkari, en þá án þess að selja sig út fyrir mýkt og melódrama. Hér segir hann sögu um hugrekki, fórn, vináttu og ást en rækilega er gætt þess að hafa skrautið sem mest og hápunktana nógu fullnægjandi. Ef villtur vestri (eða réttara sagt „suðri“) í klassískum og ófyrirsjáanlegum Tarantino-dúr er það sem áhorfandinn vill, þykir mér ólíklegt að nokkur sem kallar sig aðdáanda mannsins verði ósáttur. Hrein og subbuleg SNILLD. Og standardinn hækkar enn á ný.

meistaraverkBesta senan:
Að velja eitt atriði úr þessari mynd er álíka erfitt og það er ósanngjarnt. Ég skýt á jafntefli á milli grímuatriðisins (kom þar hættulega nálægt því að míga á mig úr hlátri) og „Say Goodbye…“

PS. Ég krefst þess að Don Johnson fái oftar vinnu þessa dagana!

2 athugasemdir við “Django Unchained

  1. Fyndnasta atriðið var Ku-Kux-Klan rifrilfið. Gæsahúðin reis samt hæst í atriðinu nálægt endanum þar sem Broomhilda bíður í kofa, segi ekki meir svo ég spoili ekki óvart. Tónar Ennio Morricone „Un Momumento“ hjálpuðu mikið að gera það að einu bestu mómenti myndarinnar.

Sammála/ósammála?