Les Misérables

(heitið er borið fram “Ley Miserab,” fyrir þá sem ekki vita, en yfirleitt segja flestir bara “Ley Miz.” Ókei?)

Það tók Ley Miz sama og engan tíma að toga mig (hér um bil bókstaflega) til sín. Strax um leið og stúdíólógóin hverfa dúndrast músíkin í gang og frussar hún aldeilis framan í mann mikla epík sem deyfir kjálkann, svo það sé alveg örugglega ljóst að það sem koma skal verði afar stórbrotið. Tímabilið er sett, söngurinn byrjar, gæsahúðin hverfur ekki, og fer ekki á milli mála að opnunin er, því miður, bara ansi hreint geðveik! Að minnsta kosti endist þessi fína tilfinning í fjórar mínútur eða svo, en fjórar góðar mínútur.

sama hve stór fáninn er, þá er alltaf jafn erfitt að kaupa hann sem Frakka

Hlutirnir breytast snöggt þegar Russell Crowe þykist allt í einu geta sannfært heiminn um að hann sé staddur í hlutverki sem hann á heima í. Ég held mikið upp á manninn, en það hentar ekki alveg röddinni hans að syngja. Þarna er kominn fyrsti hjallinn, af nokkrum. Ekki er ég alveg viss hvort hann skáni með tímanum eða maður sé bara orðinn skringilega vanur honum. Crowe eyðileggur samt varla neitt, eða allavega tókst mér að fyrirgefa honum, því hápunktarnir sem finnast í þessari miklu mynd eru vel tímans virði… nema ef viðkomandi kann ekkert að meta (há)dramatíska óperusöngleiki. Þá er þessi mynd algjör DAUÐI og breytist áhorfandinn í staðinn í stærsta vesalinginn.

Þessi gígantíska saga er sko innilega ekkert grín, eins og sést á titlinum, og liggur við að þetta eigi að vera það fyrsta sem kemur upp þegar orðið „drama“ er flett upp í samhengi bóka, leikhúss, músík og mynda, því núna hefur þessi sígilda sköpun Victors Hugo gengið í gegnum alla þessa miðla, með og án tónlistarinnar (en aldrei kvikmynduð áður með henni). Það má eiginlega segja að Ley Miz sé eins og Hringadróttinssaga dramasöngleikja. Allur sjóndeildarhringurinn er dekkaður: fátækt, ást, afbrýðissemi, hetjudáðir, heiður, örvænting, eymd… Það er hægt að kalla þetta tilfinningaklám eða táratogara en væri sagan ekki svona góð og hjartnæm á köflum væri ég kannski meira sammála því. Leikurinn er líka svo tilþrifaríkur (þó söngrödd sé vissulega annað mál hjá sumum) að annað kemur ekki til greina en að fljóta með þessari tignarlegu búninga- og sviðsmyndaveislu. Hljómar bara vel finnst mér.

Ley Miz veitir manni sterka stórmyndaupplifun (þrátt fyrir að kosta minna en $70 millur) og býr einnig yfir líflegum leikhúsanda, sem hittir beint í mark hjá mér. Burtséð frá því er tónlistin auðvitað mergjuð, langlíf af gildri ástæðu og góður helmingur lagana situr heillengi í heilabúinu (Look Down-lagið ber þar af). Það eru fullt af atriðum sem byrja aaaðeins að reyna á þolinmæðina (var í alvörunni nauðsynlegt að hafa ÖLL þessi sóló-atriði??) en þegar leikarnir leggja svona mikið á sig er maður límdur á sama tíma og manni leiðist pínu.

Hugh Jackman hefur ekki verið svona magnaður lengi, mögulega aldrei. Frammistaða hans sem Jean Valjean er með ólíkindum. Áhorfandinn er fljótur að stökkva á bakið á Valjean og styður hann út allt ævintýrið. Jackman sprengir sig allan út og syngur vel. Crowe, eins og áður var nefnt, gerir það ekki, en hann leikur samt frábærlega og gerir athyglisverðasta karakter myndarinnar prýðileg skil. Það er svosem enginn rangur í sínu hlutverki ef söngurinn er lagður til hliðar. Eddie Redmayne, Samantha Barks og Amanda Seyfried eru mjög fín ásamt rest. Þau Helena Bonham Carter og Sacha Baron Cohen vekja upp nokkrar Sweeney Todd minningar og salta aðeins pakkann með skemmtilegum ruddaskap og húmor. Þetta síðarnefnda er sannarlega eitthvað sem þessi mynd þurfti lífsnauðsynlega á að halda. Sérstaklega frá Cohen.

Anne Hathaway er ein og sér efni í heila umfjöllun. Hún er nefnilega hjarta og sál myndarinnar fyrir mér og bæði einn allra stærsti kosturinn við myndina og galli. Það er eitt að vera framúrskarandi en Hathaway ber höfuð og herðar yfir alla aðra á skjánum. Það mun enginn mótmæla því hversu sympatísk persónan er og öflugustu atriðin koma öll frá leikkonunni, sem aldrei hefur staðið sig betur á glæstum ferli. Gallinn er hins vegar sá að senurnar hennar eru svo kröftugar að myndin nær aldrei aftur að toppa sig í dramanu, sem er pínu vont í ljósi þess að persóna hennar hverfur áður en fyrri helmingurinn er liðinn, og þá er tæplega einn og hálfur tími eftir af lengdinni. Leikstjórinn reynir að toppa þetta með seinni köflunum, en Hathaway er bara alltof, alltof góð. Ég var farinn að sjúga fast upp í nefið eftir I Dreamed a Dream sönginn, þegar kameran dvelur þokkalega lengi á grenjandi andliti hennar, og eftir hann fann ég aldrei fyrir öðrum eins áhrifum. Eins mikið og mig langaði.

lesmis2

Ley Miz söngleikurinn gagnast fullt á því að vera færður á hvíta tjaldið af sviði. Umgjörðin gefur stærðinni á efninu meira svigrúm, augljóslega, til dæmis bara með því að bæta við öllum þessum hestum (því varla eru þeir í sviðssýningunni?), svo e-ð sé nefnt. Þetta er saga sem nýtur sín í bíóformi útlitslega en strúktúrinn á henni býður upp á nokkra erfiðleika. Kannski virkar það betur á sviði að kynna mjög seint til leiks mikilvægar persónur sem ætlast er til er að öllum sé annt um, en í myndinni gengur það ekki eins vel upp. Í fyrri helmingnum tengist maður Jackman og Hathaway sterkum böndum en síðan breikkar sagan í kringum miðjuna og fer að snúast meira um Redmayne, Seyfried og Barks. Öll þrjú eru viðkunnanleg en eiga ekki séns í umhyggju mína gagnvart hinum tveimur. Þegar Hathaway er horfin byrjar sagan að dala örlítið. Jackman heldur henni ágætlega á floti þangað til hann verður smátt og smátt meira fjarverandi þegar byltingin byrjar og karakterum fjölgar um svona 300%.

Upptökustíllinn á myndinni er óvenjulegur en samt mjög sérstakur á góðan hátt. Mér líkaði við steadicam ofnotkunina og fannst stundum en alls ekki alltaf sniðugt að halda leikurum lengi í nærmynd í óslitnum tökum. Ákvörðunin, eða sénsinn öllu heldur, að taka upp lögin á staðnum virðist þó hafa borgað sig. Varla er annað en krefjandi að taka upp söng og þurfa síðan að lip-synca miklu seinna, ásamt því að reyna að leika! Ley Miz notaði þá aðferð að leyfa leikurunum að stýra músíkinni, frekar en að músíkin stýri takti leikaranna eins og hefur verið gert áður. Þetta gefur öllum betri tækifæri til að opna sig alveg á sínum hraða, sem skiptir eiginlega meira máli heldur en búningarnir, settin og brellurnar, eins gallalaust og allt þetta þrennt er.

Tom Hooper er vægast sagt hæfileikaríkur leikstjóri með einstakt blæti fyrir períódubúningum. Ég var t.d. virkilega hrifinn af John Adams-seríunni hans og þykir mér The King’s Speech bara nokkuð dásamleg – og alls ekkert ofmetin, eins og stóru Óskarsmyndirnar eru oft. Hooper má vera ótrúlega stoltur af Ley Miz, þótt hún sé alls ekki meistaraverkið sem hún vill vera – og ætti að vera. Sterkustu punktarnir í henni eru klikkaðslega eftirminnilegir og það er of mikill metnaður í þessu öllu til að draga ekki út meðmælin.

thessi
Besta senan:

Ég dreymdi draum.

PS. Ég mæli eindregið með ’95 útgáfunni frá Claude Lelouch. Hún tekur mjög áhugavert „twist“ á upprunalegu söguna. Aftur á móti skal láta Liam Neeson-myndina frá ’98 í friði.

Sammála/ósammála?