Leikstjórinn talar: Marteinn Þórs (XL)

Marteinn Þórsson er nettur gæi. Einn af athyglisverðustu dúddunum sem dunda sér við kvikmyndagerð um þessar mundir á landinu. Þó menn megi lengi deila um verkin hans þá er Matti og Ólafur Darri einstakt teymi. Allir sem misstu t.d. af Roklandi voru ekki að gera sér greiða með því að sleppa henni. Hún er alltof vanmetin.

En nú snúum við okkur að drykkjudramanu XL…

Ath. Þetta er lengri útgáfan af viðtali sem ég birti í Séð og Heyrt sem kom út 13. des 2012.

Í hnotskurn, hvernig mundirðu lýsa myndinni og hvernig varð hún til?

Kvikmyndin er um þingmann, Leif Sigurðarson, sem lendir í aðstæðum sem hann ræður ekki við og smátt og smátt koma hlutir í ljós sem voru vandlega faldir undir yfirborðinu. Hugmyndin kviknaði upphaflega þegar við Elma Lísa og Darri vorum að ræða um að gera mynd um alkohólisma þegar Rokland var í vinnslu svo þróaðist þetta svona. Ég skrifaði fyrsta uppkast að handriti í nóvember í fyrra (2011), það var tilbúið um jólin, svo tók Guðmundur Óskars við (sem skrifaði Bankster) og við fórum í tökur í febrúar á þessu ári (2012). Við fjármögnuðum tökurnar sjálf en fengum eftirvinnslustyrk frá KMÍ núna í nóvember. Þess má geta að Sambíóin komu inní myndina áður en þeir höfðu séð nokkuð nema trailer og keyptu sýningarréttinn í sumar og finnst mér það sýna frábært frumkvæði og þor sem aðrir dreifingaraðilar mættu taka sér til fyrirmyndar.

Hvernig var mórallinn á setti og hver er munurinn á XL og fyrri myndum þínum?

Mórallinn var frábær. Það vildu allir taka þátt í að gera þessa mynd því þeim þótti handritið spennandi og fólk sætti sig við lág laun á tökutímabilinu en við vorum með alveg frábæran mat frá þeim Ástu Hrönn og Jóni á Scandinavian á Laugaveginum. Það skiptir miklu máli, góður matur. Ef það er góður matur þá má sætta sig við ýmislegt. Eftir að við fengum framleiðslustyrkinn þá gátum við borgað öllum full laun.

Helsti munurinn á XL og fyrri myndum er sá að ég er núna í fyrsta skipti að framleiða mynd í fullri lengd (með Ólafi Darra, Ragnheiði Erlingsdóttur og Guðmundi Óskarssyni) og ræð því meira sjálfur. Einnig var þróunin frá handriti til fullvinnslu myndar mun hraðari af því að við fórum ekki í gegnum þróunarferli sjóðanna. Ferlið er einfaldara og hnitmiðaðra, hugmyndaflæðið koðnar ekki niður eins og vill oft verða og allt er ferskara og ekki eins ritskoðað (hvorki af mér sjálfum né öðrum). Myndin er kraftmeiri og graðari fyrir vikið.

Má búast við jafn virku hugmyndaflæði í Xl eins og í Roklandi eða One Point O? og stigmagnast myndin meira vegna sögunnar sem XL fjallar um?

Já, algjörlega og jafnvel meira. Myndin er byggð upp eins og rússíbanareið nema vagninn fer af brautinni og þeysist útí óminnið. Það fer allt úr böndunum. En hún er með svona “happí” endi, held ég.

Hvenær ákváðuð þið Óli Darri að þið vildu gera þessa mynd og hvernig er að vinna saman?

Við Darri náum rosalega vel saman af einhverri ástæðu, ég veit ekki hvað hann sér í mér enda er ég erfiður, sjálfhverfur, mislyndur og miklu spengilegri en hann en í honum hef ég fundið svona fullkominn leikara og samstarfsaðila. Við höfum mikið áhuga á sömu hlutum, sömu myndum og viljum ögra okkkur sem listamenn og sprengja soldið formið. Með stafrænni tækni og ódýrari vinnsluaðferðum kvikmynda sjáum við okkur fært að gera hluti sem annars fengju ekki náð fyrir augum þeirra sem að öllu jöfnu leggja fé í dýrari kvikmyndagerð. Það er æðislegt fyrir leikstjóra að finna leikara sem treystir manni fullkomlega og öfugt og ég held að við hjálpum hvor öðrum að vaxa. Svo erum við báðir miklir matgæðingar, eigum dætur á svipuðum aldri og erum með gyðjum sem eru langt fyrir ofan okkur í andlegum, félagslegum og fegurðarlegum skilningi.

Eru þemu í myndinni sem ber að taka eftir eða hafa í huga þegar maður sér hana?

Þetta er mynd sem maður getur auðveldlega séð tvisvar. Fyrst á maður bara að upplifa hana eins og hún birtist manni, bara taka þátt í partýinu, rússíbanareiðinni og gleyma sér í þessum heimi sem við höfum skapað. Mér finnst alltaf best að gleyma mér á myndum fyrst þegar ég sé þær og svo að pæla í þemum í seinni skiptin. En auðvitað eru þarna þemu sem ég fjalla mikið um: einmanaleiki, samskiptaörðugleikar fólks, stjórnleysi, meðvirkni, og auðvitað ástin og þráin eftir einhverja æðra og svo auðvitað grátbrosleg staða mannsins í heimi sem hann á erfitt með að skilja.

Ég vil líka taka skýrt fram að þetta er ekki svona “mórölsk boðskaps” saga, svona “víti-til-varnaðar”, ekki þessi hefðbundna “góðu-maður-lendir-í-vandræðum-verður-vondur-lærir-af-reynslunni-og-verður-betri-maður-í-lokin” saga. Mér leiðist svoleiðis. Mér leiðist öll forsjárhyggja og það er ekkert leiðinlegra en fyrrum reykingamenn og óvirkir alkóhólistar sem hafa breyst í besservissera og vita hvað er best fyrir aðra. En verstir eru þó þeir sem hafa aldrei reynt neitt og/eða farið neitt en vita samt betur en allir aðrir. Lífið er hérna til að lifa því.

Einhverjar markverðar uppákomur á setti?

Tja, þú mátt spyrja Frosta Gnarr og ég vil koma á framfæri innilegu þakklæti til þeirra á Norðurpólnum fyrir að hafa lánað okkur tökustaði, þau eru svo frábær.

Sammála/ósammála?