The Master

The Master er ekki bara titill á sérstakri, lagskiptri og ótrúlega, ótrúlega góðri mynd, heldur er þetta eitt fyrsta orðið sem mér dettur í hug þegar ég velti fyrir mér hvar Paul Thomas Anderson er staðsettur í áliti hjá mér. Mér er sama um hvað myndirnar hans eru, ég verð alltaf jafnspenntur fyrir þeim, því þessi einstaki kvikmyndagerðarmaður gæti allt eins búið til mynd um tilurð handsápunnar og það væri öruggt að eitthvað artí og aðlaðandi kæmi út úr því. Hann er einn af cirka fimm traustustu leikstjórum sem eru á markaðnum í dag, og einn af kannski þremur bestu í heiminum í hópi þeirra sem skrifa sín eigin handrit líka.

Margir gætu auðveldlega fært rök fyrir því að PTA býr til ofsalega „leiðinlegar“ myndir, en þær hafa aldrei verið allra. Ljóst er allavega að þeir sem fundu takmarkað gildi í fyrri verkum hans geta heldur betur gleymt því að sóa tímanum sínum í The Master. Hún er nær eingöngu fyrir kvikmyndaunnendur sem hræðast ekki viðburðalitlar og tormeltar kvikmyndir. Ekki „bíómyndir,“ heldur kvikmyndir. Þessar sem sýna meiri áhuga að spyrja mikilvægar spurningar frekar en að svara slíkum. Þessar sem varla hægt er að mynda fullmótað álit á fyrr en maður sér þær í annað (eða þriðja) sinn. The Master tilheyrir þessari lýsingu, og Anderson hefur aldrei krafist eins mikils af aðdáendum sínum. Þetta er að sjálfsögðu góður hlutur því hann víkkar sjóndeildarhringinn sinn gríðarlega. Þetta er óljósasta, þyngsta, lágstemmdasta og mest óaðlaðandi myndin hans til þessa. Hún tekur stundum rosalega á, ekki alltaf á góðan hátt, en eftirá gat ég ekki hætt að hugsa um hana.


Á marga vegu er The Master einnig ein sú mikilvægasta og hugrakkasta sem PTA hefur gert á ferlinum (og þar er skrambi mikið sagt!), en greinilega sú óaðgengilegasta. Aldrei hefur leikstjóranum verið meira sama um það hvort hann sé að skemmta áhorfendum sínum eða ekki. Hann kemur bara því út sem hann hefur að segja og áhorfandinn þarf nánast að vinna fyrir því hvort hann verði með eða ekki, enda fær hann nóg til að stúdera ef hann kýs að lesa á milli línanna. Myndin er annars ólöglega vönduð, frá köldu en sterku handriti til óaðfinnanlegra leiktilþrifa, þar sem leikarar sýna það besta sem í þeim býr og rúmlega það. Myndatakan er þar að auki sjúklega flott, og Anderson hitti naglann á höfuðið að skjóta myndina í 70 millimetrum til að gefa tímabilinu sem hún gerist á hárrétta væbinn. Litir, lýsing og áferðin almennt er heilt í listaverk í sjálfu sér. Tónlistin frá Johnny Greenwood styrkir síðan þennan einkennilega svip sem myndin hefur, sem og lagavalið sem er notað.

Að vísu er maður löngu farinn að búast við svona kostum. Smámunasemi leikstjórans hefur hingað til alltaf tryggt það að útlit, leikur, músík og efnistök séu til fyrirmyndar og meira. The Master nær augljóslega góðum hæðum, en hana langar til að vera eitt af meistaraverkum Andersons, sem hún er því miður ekki. Frásögnin verður pínu tætt í seinni helmingnum og persónusköpunin ristir ekki alveg nógu djúpt (annað en lagskipting sjálfs handritsins) til að áhorfandi tengi sig betur við persónurnar. Þær ná athyglinni, en maður er allan tímann svo andlega fjarlægur myndinni. En nálgun hennar að athyglisverðu umfjöllunarefni með tilheyrandi dýpt mun samt e.t.v. tryggja hana mjög langt líf í framtíðinni. Ætli Joaquin Phoenix og Philip Seymour Hoffman eigi ekki einhvern þátt í því líka. Amy Adams er reyndar líka frábær (eins og alltaf) og stundum nett truflandi en hún hverfur í skuggann á hinum tveimur. Þeir eru svo magnaðir saman að sjálfur Daniel Day-Lewis myndi spyrja þá sjálfurt hvert leyndarmál þeirra væri. Einn misþyrmdur Phoenix plús Hoffman í toppgír eru klárlega jafngildi eins Daniels.


Phoenix gjörsamlega refsar sjálfum sér í erfiðu og óheillandi hlutverki. Það segir sig reyndar alveg sjálft að Anderson er ekki að reyna að búa til hefðbundna persónudrifna sögu um fyrirsjáanlegar  og upplífgandi arkir. Myndin er karakterstúdía um traust, manipúleringu og undarlega vináttu. Phoenix lendir í miðjunni á þessu öllu og hefur aldrei nokkurn tímann staðið sig betur. Hoffman á það sameiginlegt með Phoenix að hann er stórkostlegur í öllu sem hann er í og hækkar gæðastigið eingöngu með því að vera þarna. Myndin verður aldrei nokkurn tímann meira grípandi en þegar þeir eru saman í atriði, og sum þeirra eru með þeim eftirminnilegri á öllu árinu, t.d. fangelisatriðið og þegar Hoffman hvetur Phoenix til þess að blikka ekki augunum í óheilbrigðan tíma. Sú sena ætti að fara í sögubækurnar, fyrir það eitt að sýna hversu lítið þarf til að skapa óþægindi með tvo menn í nærmynd. Svo í þokkabót er aulalega fyndinn prumpubrandari innifalinn í því líka (!). Þarf að ræða í tuttugasta skipti hversu æðislegur þessi leikstjóri er? Það mættu a.m.k. alveg vera fleiri til í heiminum sem eru með fullan skilning á orðinu leiklist.

Það er algerlega hægt að segja að The Master sé eitt augljósasta „óbeina“ skot sem hefur verið tekið á Vísindakirkjuna og nokkurn Lafayette Ronald Hubbard (sem og hegðunina hjá fylgjendum og hvernig þeir taka smotteríin meira alvarlega en sjálfur leiðtogi þeirra), en Anderson fer sparlega með kúlurnar sínar og sér til þess að hægt sé að túlka þetta sem umfjöllun um hvaða „költ“ sem er, svona eiginlega. Sambandið á milli Phoenix og Hoffman er samt allan tímann aðall sögunnar. Það heldur athygli og missir maður sjaldan áhuga á áttina sem það stefnir í. Það er margt hér sameiginlegt með samband Lewis og Paul Dano í There Will Be Blood, fyrir utan það að í þessu tilfelli líkar báðum aðilum vel við hvorn annan. Ég kann einnig að meta það hvernig Anderson leikur sér með mörk raunveruleikans á mjög lúmskan hátt og býr til hellingspláss fyrir umræður sem hægt er að taka við félaga sína. Þ.e.a.s. ef maður nennir að leita. Alls ekki allir munu gera það.

Það er skemmtilegt að sjá hvernig nýi-stíll Andersons (já, þessi sem byrjaði frá og með Punch-Drunk Love) hefur þróast hægt og hægt og hér hefur hann aldrei verið vægðarlausari. Ég get ekki samviskusamlega sagt að The Master sem heild jafnist á við Magnolia, Love eða Blood, en oft kemst hún nálægt því. Ég mun þó ekki leyfa henni að hverfa úr augsýn á komandi árum. Sakar ekki að eiga til enn eitt meðalið þegar mainstream-pestin skellur á.

atta Besta senan:

„Don’t blink“

Sammála/ósammála?