XL

XL er spes mynd. Skemmtilega spes, á mörkum þess að vera ein sinnar tegundar. Það er hægt að sjá svona Shame/Fear & Loathing martraðarfíling í henni, en aðallega bara ef manni leiðist. Annars vantar fleiri Íslenskar myndir sem í alvörunni þora að taka áhættu og gera eitthvað „edgy“ sem mun engan veginn höfða til allra. Það er fátt sem stafar meira út „áhætta“ en að búa til artí-mynd sem þykir ekki líkleg til að skila inn miklum peningum og enn ólíklegri til að eiga breiðan aðdáendahóp. Svoleiðis myndir mega samt ekki bara vera gerðar af áhuga, þær þurfa að vera með skarpan fókus og verða að vita nákvæmlega hvert þær eru að fara með umfjöllunarefni sitt og óhefðbundnu nálgun sína að því. Annars situr maður uppi með fráhrindandi haug sem prumpar endalaust framan í mann stílblæti sínu án þess að hafa nokkuð merkilegt að segja.

XL er þessi mynd. Ég fíla áhugann á bakvið gerð hennar, fíla gredduna í henni og undantekningarlaust hvað hún gengur langt án þess að kvíða fyrir því hversu margir munu stimpla sig út. Ég fíla hvað hún er að reyna að gera, en mikið fjandi var ég samt glaður þegar hún kláraðist.


Best er að kalla þetta stórt en athyglisvert feilspor. Það er líka alltaf betra að rotna yfir slakri Íslenskri mynd sem prufar a.m.k. eitthvað nýtt í stað þess að glápa á eina ágæta sem gerir allt eftir pöntun og deyr úr minninu næsta dag. XL hefur ágætisefni í höndunum og tekur fínan snúning alkahólismann. Hún er beitt og lítur út fyrir að vera markviss en framkvæmdin skilar af sér svo þvingaðri og leiðinlega ágengri lokavöru að heildin er farin að hrynja undan sinni eigin þyngd áður en fyrsti hálftíminn er liðinn. Það er eitt að gera sterkan og raunsæjan gjörning um fyllibyttuna, en það er allt annar handleggur ef myndin er orðin þetta köld, niðurdrepandi og dýptarlaus, eins og áhorfandinn þurfi í alvörunni að vera sauðdrukkinn til að ná áttum. Hver veit? Kannski er það hugsun leikstjórans, en þá stangast það á við æðsta markmið myndarinnar þar sem hún virðist ætla að sjá um verkið fyrir mann. Hún lítur oft út fyrir að hafa verið kvikmynduð af fullum kamerumanni, sett saman af fullum klippara að ógleymdri hljóðvinnslunni, sem stundum hljómar eins og hún hefur verið fínpússuð af fórnarlambi tröllaþynnkunnar.

Stíllinn myndi kannski betur virka ef efnið væri betur samsett á blaði, en af heildarmyndinni að dæma hefði þetta allt geta dugað í kaótíska en útlitslega einkennilega stuttmynd frá nema sem hefur horft alltof mikið á evrópskar myndir um neyslu. Frásögn myndarinnar er sundurlaus, subbuleg og móðug. Ef fólk getur tengt sig við hvernig er að vera ölvaður og reyna að púsla saman minningum þá nær XL nokkurn veginn rétta taktinum á því. Stíllinn og uppsetningin kemur manni alveg í hausinn á blessuðu byttunni en hvergi er reynt að gera einn einasta karakter sympatískan, viðkunnanlegan eða svo mikið sem áhugaverðan. Hér eru fjölmörg tækifæri til að leika sér með meingallaðar persónur til að mynda einhvern tilfinningalegan kjarna eða önnur sjónarmið en leikstjóranum virðist vera skítsama um allt svoleiðis.

Leikararnir eru allir hugrakkir fyrir að ganga eins langt og erfiða efnið biður um og, fyrir utan fáeinar gervilegar samtalssenur, eru flestir bara nokkuð sannfærandi (nema Helgi Björns. Hann er eitthvað… off). Ólafur Darri er auðvitað sá sem ber þetta skrímsli sem þessi mynd er á öxlum sér og gefur sig allan fram, frá öllum heilugu sjónarhornum. En eins mikill senuþjófur og rassinn á honum er vildi ég helst sjá stærri prófíl hjá Darra, frekar en bara pissfulla pólitíkusinn. Karakterinn er fyrst og fremst leiðinlegur og nær alfarið óaðlaðandi. Þetta gerir það stöðugt erfiðara og erfiðara fyrir mann að sitja gegnum myndina þegar hún hefur engan áhuga á öðru en að hella í sig vökva og missa sig í ringulreið, frekar en að sýna betur manninn á bakvið sjúklinginn. Það eru leifar af vel skrifuðum karakter, sem er fullur (!) sjálfshatri, valdatrippi, afneitun og einmanaleika, en þessi karakter er sama og grafinn undir yfirborðinu. Það vantar alveg mannlegu sálina í skilaboðin og rússíbanareiðin svokallaða skyggir alveg á rými til að stúdera þemu sögunnar. Það gengur ekki að troða svona mörgum persónum, aðstæðum og rugli í 90 mínútna ramma án þess að sortera betur úr innihaldinu.

xl1Leikstjórinn Marteinn Þórsson virðist vera maður að mínu skapi. Hann hugsar út fyrir „normið“ og skín það út og inn að þetta sé tilraunargjarn og tilkomumikill kvikmyndagerðarmaður. Seinasta myndin hans, Rokland, finnst mér grimmt vanmetin (enda eina Íslenska myndin sem hefur komið út í mörg ár sem virðist hafa eitthvað almennilegt að segja!) og þó XL gangi talsvert lengra yfir móðukenndu línuna en hún hefur rétt á með svona skítþunnt efni er ég forvitinn að sjá hvað Marteinn tekur næst upp á. Ódýra framleiðslan gefur myndinni þokkalega hráan keim, en hún er ótrúlega áberandi, enda kannski ekki skrítið. Utanaðkomandi framleiðendur hérlendis eru sjaldan með hreðjarnar í það að fjármagna eitthvað í líkingu við þetta frá grunni, jafnvel þó svo að þetta væri gott efni. Ég vildi að ég gæti mælt með þessu, bara til að geta ímyndað mér betri framtíð fyrir svona abstrakt bíótilraunir á okkar landi, en þrátt fyrir sérstök einkenni, góða leikara og stílíska kafla er XL meiri hausverkur en ég ræð við. Kannski skortir mig bara reynsluna að vera alki til að geta metið hans til fulls.

fjarki

Besta senan:
Óli setur á sig gimp-grímuna.

Sammála/ósammála?